Þjóðkirkjan í fjórðudeild?


Frú Agnes Sigurðardóttir biskup mætti í viðtal við morgunútvarp rásar 2 undir lok ágústmánaðar til að ræða þátttöku sína í Hátíð Vonar, samkirkjulegt starf og stöðu kirkjunnar gagnvart réttindabaráttu samkynhneigðra. Viku síðar birtist frétt á vantru.is þar sem frú Agnes Sigurðardóttir biskup var sökuð um sögufölsun. Þeir vildu meina að í viðtalinu hefði hún farið full frjálslega með staðreyndir þegar hún sagði þjóðkirkjuna hafa verið í fararbroddi í réttindabaráttu hinsegin fólks hér á landi.   Því næst er farið yfir “afrekaskrá” þjóðkirkjunnar, hvernig hún barðist gegn hjónabandi samkynhneigðra og niðurstaðan er sú að þjóðkirkjan hafi á endanum aðeins samþykkt ein hjúskaparlög vegna utanaðkomandi þrýstings úr samfélaginu. Þá er þjóðkirkjan sögð vera í fjórðu deild þegar það kemur að réttindabaráttu hinsegin fólks.

Ástæðan fyrir því að ég skrifa þennan pistil er vegna þess að grein vantrúar hefur verið deilt síðustu daga m.a. á kommentakerfum fréttasíða undir þeim formerkjum að hún lýsi afstöðu Þjóðkirkjunnar gagnvart samkynhneigð, því er ég ekki sammála. Ég er ekki að skrifa þetta til að fara í vörn fyrir biskupinn, heldur langar mig að þræða einhvern meðalveg á milli tveggja póla sem eru viðtal Agnesar og pistill Vantrúar. Staða þjóðkirkjunnar í kirkjuflóru heimsins er merkileg en það er fjarri sannleikanum að þjóðkirkjan hafi verið leiðandi í réttindabaráttu hinsegin fólks í íslensku samfélagi. Hinsvegar gerir Vantrú lítið úr þeirri baráttu og umræðu sem átti sér stað innan þjóðkirkjunnar fyrir réttindum hinsegin fólks, baráttu sem er mjög merkileg í stóra samhenginu, sem er hin kristna kirkja í heiminum.

 

Kirkjan og breytingar

Að vinna að breytingum innan samfélags líkt og hinnar kristnu kirkju í heiminum er ekki lítið eða létt verk. Kirkjupólitík, hefðin, mismunandi túlkun á henni og grundvallar trúarriti samfélagsins er nokkuð sem að flækist fyrir þeim sem beita nýjum nálgunum og sjá heiminn á annan hátt en eldri kynslóðir. Mannréttindabarátta hinsegin fólks innan kirkjunnar er verkefni sem ekki er hægt að segja að gengið hafi hratt en þó verður að fagna þeim sigrum sem náðst hafa, bæði hér á Íslandi og í kirkjum um víða veröld.

Innan Þjóðkirkjunnar, líkt og í öðrum trúfélögum og í samfélaginu í heild sinni eru skiptar skoðanir á þeim mannréttindum hinsegin fólks að fá að ganga í hjónaband. Hinsvegar þykir mér sorglegt að gera lítið úr baráttu þeirra þjóðkirkjupresta og leikmanna sem hafa staðið í því að koma í gegn hugarfarsbreytingu innan kirkjunnar. Þau opnuðu á umræðuna, börðust gegn fordómum og kúgun innan eigin kirkju og hefur tekist að ná í gegn töluverðum hugarfarsbreytingum.

Vantrú telur þjóðkirkjuna ekki vera í fararbroddi af kirkjum heims, nema ef við berum okkur saman við Kaþólsku kirkjuna, Krossinn og Rétttrúnaðarkirkjuna og lítur svo á að Þjóðkirkjan sé í fjórðu deild hvað varðar mannréttindabaráttu hinseginfólks.

Vandi íslensku Þjóðkirkjunnar er þó kannski meiri en þeirra frjálslyndu kirkna sem Vantrú segir standa þjóðkirkjunni framar. Hún er hluti af Lúterskri kirkjudeild og þrátt fyrir að hlíta í raun ekki ákveðnu sameiginlegu kennivaldi líkt og Kaþólska kirkjan þá á hún erfiðara með að gera stórtækar breytingar en kirkjur sem ekki tilheyra ákveðinni kirkjudeild (non denominational kirkjur), eða kirkjur sem eru í raun sjálfstæðir söfnuðir líkt og fríkirkjurnar á Íslandi. Ef við berum okkur saman við Lútersku kirkjudeildina kemur í ljós að hún er ekki sameinuð í skoðun sinni á hjónabandi samkynhneigðra. Stærsta Lúterska kirkjusambandið í BNA (Evangelical Lutheran Church in America)  hefur frá 2009 samþykkt hjónabönd samkynhneigðra og í ár var í fyrsta skipti vígður samkynhneigður biskup innan sambandsins. Önnur fimm Lútersk kirkjusambönd í Bandaríkjunum telja þó að samkynhneigð sé synd og gefa ekki saman pör af sama kyni.

Í Þýskalandi gefa langflestar Lúterskar kirkjur sambandsríkjanna saman samkynhneigt fólk, í Svíþjóð hefur það verið gert frá 2009, í Noregi er þó viss spenna þar sem að kirkjan vígir samkynhneigða til þjónustu í kirkjunni en gefur hinsegin fólk ekki saman í hjónaband heldur veitir kirkjulega blessun líkt og í Danmörku. Lúterska kirkjan í Finnlandi er stærsta Lúterska kirkjan í Evrópu sem hvorki heimilar hjónaband eða blessun á sambandi samkynhneigðra.[1]

Þegar við skoðum hvernig staða samkynhneigðra er í öðrum kirkjudeildum þá er hún heldur bágborin þegar litið er til stærstu kristnu kirkjudeildanna. Það ríkir óeining meðal Biskupakirkjunnar, Anglíkana, Meþódista og Hvítasunnukirkna en víða er þó virk barátta í gangi fyrir breytingum. Á sama tíma telja baptistar, aðventistar og nær allar rétttrúnaðarkirkjur það einfaldlega brjóta gegn boði Guðs að gefa samkynhneigða saman.

Það eru helst minni kirkjur, sem eru ekki jafn bundnar ytra kennivaldi sem geta leyft sér að vera frjálslyndari, kirkjur á borð við Fríkirkjuna í Reykjavík, Gömlu Kaþólsku kirkjuna ( Old Catholic Church sem hefur slitið sig frá Rómversk Kaþólsku kirkjunni), Kvekarar og ýmsar ójátningabundnar og denominational kirkjur. Þær eru þó ekki margar í stóra samhenginu, því miður, og sú vinna og barátta sem unnin hefur verið innan Þjóðkirkju Íslands fyrir mannréttindum samkynhneigðra innan kirkjunnar er meiri en svo að hægt sé að tala um hana sem fjórðaflokks.

Auðvitað er svona upptalning viss áfellisdómur yfir hinni kristnu kirkju en það eru ekki nýjar fréttir að kirkjan sé afturhaldssöm og fordómafull. Nýju fréttirnar eru þær að í mörgum kirkjudeildum, kirkjum og söfnuðum er virk barátta fyrir bættri stöðu hinsegin fólks innan kirkjunnar. Virk barátta gegn fordómum og andúð á því mannhatri sem víða opinberast í hjá þeim sem segjast vera boðberar fagnaðarerindisins.

 

Aftur að þjóðkirkjunni

Því verður ekki neitað að þjóðkirkjan hefur svarta fortíð þegar litið er til réttindabaráttu samkynhneigðra og það er í raun særandi að Agnes fari með svona rangt með staðreyndir. Biskup og yfirstjórn þjóðkirkjunnar lögðu sig fram við að vinna gegn réttindabaráttu hinseginfólks, það er ekki hægt að hylma yfir það eða endurskrifa söguna. Kirkjan er þó mun stærri en bara biskupinn, hún er líka prestarnir, djáknarnir, guðfræðingarnir, sjálfboðaliðarnir, starfsfólkið og fyrst og fremst þá er hún söfnuðirnir.

Árið 2007 börðust 40 prestar fyrir einum hjúskaparlögum á kirkjuþingi og þrem árum síðar voru þau orðin 90. Að lokum voru það 111 prestar, djáknar og guðfræðingar sem hlutu mannréttindaviðurkenningu Samtakanna ‘78 árið 2010 “fyrir ómetanlegt framlag í þágu mannréttinda samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transgender-fólks á Íslandi.” [2]

Fólk skiptir ekki um skoðun yfir nótt, það tók presta og leikmenn innan þjóðkirkjunnar mörg ár að komast að þeim stað sem hún er á í dag, en hún komst hingað vegna opinskárrar umræðu, bæði innan og utan kirkjunnar, vegna þrautseigju réttsýns fólks, en ekki aðeins til að fylgja almenningsáliti eins og Vantrú heldur fram.

 

Umræðan veldur breytingum

Á árunum 1994-1997 beitti áhugahópur homma og lesbía um trúarlíf  aðferð sem kallast virk nærvera í samskiptum sínum við Þjóðkirkjuna. Hún  felst í sýnileika innan kirkjunnar sem knýr hana þar með til umræðu um málefni og stöðu hinsegin fólks innan kirkjunnar. Tilvera þessa hópst afhjúpaði greinilega íhaldssemi Þjóðkirkju Íslands sem sýndi lítinn vilja til að finna samleið með samkynhneigðum. Nærvera hópsins opnaði þó á umræðu sem þjóðkirkjan, prestar hennar og leikmenn voru knúin til að taka þátt í – í slíkri umræðu myndast tækifæri til breytinga. Þó að það hafi tekið breytingarnar öll þess ár að verða að veruleika þá er þjóðkirkjan önnur í dag en hún var þá, þökk sem umræðunni. [3]

 

Verkefni framtíðar

Næsti steinn sem velta þarf úr götu mannréttinda hinsegin fólks innan kirkjunnar er hið svokallaða samviskufrelsi presta. Auðvitað getur það ekki liðist að starfsmenn stofnunar hafi vald til að neita ákveðnum hópi þjónustu, það er í raun ekkert nema mannréttindabrot. Kirkjan hefur þó líka ákveðna skyldu út á við, það er að nýta þá umræðu sem hefur átt sér stað um stöðu samkynhneigðra innan Þjóðkirkjunnar til að hafa áhrif á aðrar kirkjur og kirkjudeildir. Hvernig komum við þessu viðhorfi áfram til annara kirkna og kirkjudeilda? Með því að taka þátt í samtali, með því að taka þátt í samkirkjulegu starfi og mála okkur ekki út í horn gagnvart öðrum kristnum kirkjum heldur mæta kúgurum með kærleika og beita virkri nærveru. Það virkaði allavegana innan Þjóðkirkjunnar.

 

Sindri Geir Óskarsson
Guðfræðinemi

 

 

 


[1] http://en.wikipedia.org/wiki/Homosexuality_and_Lutheranism

[3] Sjá BA ritgerðina Vandræðabarn úr virkri nærveru: Saga og orðræða Áhugahóps homma og lesbía um trúarlíf 1994-1997 http://skemman.is/stream/get/1946/10003/25014/3/