Hugleiðing í messu 26.september

Í fjórða kafla Markúsarguðspjalls segir að þótt þú sáir sæði þá er það eitt og sér ekki nægjanlegt til þess að fá góða uppskeru. Það er jarðvegurinn sem skiptir svo miklu máli og það að undirbúa hann, til þess að því sem er sáð, geti skotið rótum.

Sæðið sem er sáð er er myndlíkingin fyrir orð Guðs. Hinir fjóru mismunandi jarðvegir þ.e gatan, sá grýtti, hinn þyrndi og hinn góði jarðvegur eiga allir það sameiginlegt að taka við orðinu en það eru hindranir á veginum sem koma í veg fyrir að það nái að skjóta rótum og þroskast hjá öllum nema þeim síðasta sem reynist vera góður. Eins og ritningin segir var því sáð bæði í götuna þar sem fuglarnir átu það, í grýtta jörð þar sem það visnaði, einnig var því sáð meðal þyrna sem kæfðu það. Fuglinn sem étur sæðið er hérna líkt við sjáfan Satan sem kemur og stelur orðinu.Grýtti jarðvegurinn er myndlíking fyrir fögnuð orðsins í fyrstu en síðan verður þessi grýtti jarðvegur þess valdandi að það nær ekki að skjóta rótum, og á endanum visnar það. Hinn þyrndi jarðvegur stendur fyrir tælingu auðæfanna sem kæfa orðið. En hinn góði jarðvegur tekur við orðinu og ber margfalda uppskeru. Máltakið þú uppskerð eins og þú sáir hefur bara býsna mikið til síns mál. En hvað þýðir að uppskera eins og við sáum? Er það bara endurgjaldskenningin út í gegn? Já að mestu leyti, ef við setjum niður útsæði af kartöflum þá fáum við kartöflur, við vitum bara ekki hversu stórar og gómsætar þær verða en það fer allt eftir veðri og vindum og þeim áburði sem við berum á þær. Svo þarf að girða þær af svo að skepnur éti þær frá okkur. Jafnvel þarf að hreinsa upp illgresi. Þetta þarf svo allt að stunda af vandvirkni og einlægni.
Ef þú sáir trú þá verður þú að rækta hana af heilum hug, En ef þú lætur efasemdarfræin og óttafræin falla með, þá er hætta á að þau vaxi upp sem illviðráðanleg illgresi sem kæfa blómin sem vaxa upp af trúarfræjunum. Þess vegna er svo mikilvægt að vinna buga á óttanum og efanum, óttanum við að mistakast, efasemdum um sjálfan þig og efasemdum um tilveruna. Sérstaklega er þetta mikilvægt þegar fer að ganga vel, að fara ekki í þann farveg að hugsa ,,Oh, þetta er of gott til að vera satt!, eitthvað hlýtur að fara að klikka‘‘ hvað erum við þá búin að gera? Jú sá efasemdar og óttafræjum og veita þeim athygli og hlúa að þeim! Við skulum ekki leyfa óttanum og efanum að hafa taumhald á lífi okkar. Við skulum miklu frekar leyfa okkur að trúa, og með því að gera það, vinnum við smátt og smátt úr þeim ótta og þeim efasemdum sem hvíla á okkur.
Þú getur ekki stjórnað ytri aðstæðum í lífi þínu , en það er nú víst hægt að stjórna þeim innri, þ.e. þínu eigin viðhorfi og hverju þú veitir athygli. Allt snýr þetta að eigin sjálfsmynd og þeirri list að læra að elska sjálfan sig. Aðeins þannig færð þú nægilegt súrefni og úthald til að sinna öðrum.

Jarþrúður Árnadóttir