Djöfullinn, fyrsta málstofa haustsins.

Davíð Þór Jónsson guðfræðingur var fyrirlesari á fyrstu málstofu félags guðfræði og trúarbragðafræðinema þessa haustönnina.  Hann ræddi um Satan og helvíti út frá lokaritgerð sinni í guðfræði , Andskotans helvíti. Satan og híbýli hans í boðskap Jesú frá Nasaret.

Hann rakti sögu Satans í gegnum gamla testamentið en hebreska orðið satan þýðir í raun mótstöðumaður eða ákærandi. Því er merkilegt að þetta hebreska orð sé tekið óþýtt inn í biblíuþýðingar líkt og sérnafn en þar er í raun búin til persóna úr orðinu í þýðingunni. Davíð fór í gegnum það hvernig mismunandi skeið í sögu Ísraelsþjóðar höfðu mótandi áhrif á þá guðfræði sem einkennir rit frá hverjum tíma og lýsti ytri aðstæðum sem hafa mótað ríkjandi guðfræði gyðinga. Til dæmist benti hann á hvernig tvíhyggja Zoroastrianisma mótaði heimsmynd gyðinga í útlegðinni og benti á hvernig þau áhrif skiluðu sér í heimsmynd kristninnar og hugmyndir um djöful og helvíti.

Davíð lýsti þeim hugmyndum um helvíti sem er að finna í biblíunni og ræddi um staðina sheol, hades og gehenna, þá útskýrði hann hvaða merkingu þessir staðir höfðu fyrir gyðingum og hvernig þeir birtast í orðum Jesú.

Það var vel mætt á málstofuna enda var viðfangsefnið heillandi. Djöfullinn og helvíti eru stef sem við þekkjum vel úr dægurmenningu en Davíð benti á að sú mynd sem gjarnan er dregin upp af Satan sem rauðum satír á sterum, konungi helvítis, eigi sér enga stoð í biblíunni heldur mótist hún af zóróastrianisma og hellenisma. Þá ítrekaði hann að sá helvítis skilningur sem við búum við hafi fyrst og fremst verið pólitískt valdatæki sem valdhafar á miðöldum, og jafnvel enn í dag, geti beitt til hræða og stjórna fólki.

Davíð hefði eflaust getað talað um efnið klukkutímum saman en á þessari stuttu málstofu fengum við góða innsýn í umfjöllunarefnið og þeir sem mættu hafa án efa þurft að endurhugsa hugmyndir sínar um helvíti og Satan.

Þessi stutta yfirferð gerir efninu engan vegin nægilega góð skil og því mæli ég með því að fólk renni í gegnum lokaritgerð Davíðs sem er aðgengileg á skemmunni.

http://skemman.is/item/view/1946/10028