Íhugun orðsins á föstunni

Afdráttarlaus orð um prédikanir – fororð

I

Afdráttarleysi og ástríða eru einkenni hugljómandi verka, burt séð frá því úr hvaða kima menningarinnar þau spretta. Því má boða það fagnandi – ef við skoðum menningarrýni almennt með þeim fyrirvara að sviðið sé vítt og rýnendur margir -að það megi jafnvel rýna í trúarlega orðræðu með nýstárlegum hætti. Það eru tímarnir sjálfir sem gera jú þá kröfu að einhver boðskapur, einhver stáltaug úr feni endalauss vaðals hneykslunar og upphrópana, hefji manninn upp úr eymd sinni, að gullsleginn öngull viti borinnar afstöðu húkki sál hans, afdráttarlaust og án tafar, svo hann megi hvílast á grænum grundum. Gagnrýni og umræða haldast í hendur þegar kemur að mótun menningar og því er nauðsynlegt að hún sé á mannamáli. Það þarf ekki að þýða að hún þurfi að vera einföld, banal, upphrópun og fordæming. Gagnrýnendur – ekki frekar en listamennirnir – eru ekki Guðs útvaldir túlkendur og Stóridómur yfir menningarlífinu eða skoðunum fólksins á framrás þess. Og hvort þeir telja sig nokkuð vera það? Verði fólk vart við hroka hjá gagnrýnendum þá er það því að prédikunin verður svo hávær að við tökum ekki eftir fagmennsku, ígrundun og innra samræmi þeirrar orðræðu sem jú, verður stundum afdráttarlaus. Það er merkilegt að afdráttarlausum gagnrýnendum er oft líkt við presta eða preláta aðra – þar sem þeir tali niður til fjöldans úr sínum prédikunarstóli – og er það skiljanlegt ef út í það er farið að rýna í slíkt myndmál út frá hefð og sögu prédikunarinnar í samfélagi Upplýsingarinnar. Prestarnir voru sú menntastétt 18. aldar sem var talin bera ábyrgð á siðferðislegu uppeldi og ögun lýðsins allt fram að því að trúfrelsi varð almennt, og þannig bera sig jú sumir enn þó öll kennsluskylda og uppihald aga sé af hendi kirkjunnar komin frá því komið var fram á miðja 20.öld. Fattar fólk að þetta sögulega bakland er hluti af sjálfsmynd sumra presta? Þessvegna er prédikunin ekki bara listræn hugleiðing.

Afdráttarleysi í prédikun er nú á síðari tímum sjaldheyrðari en var þegar kirkjunnar þjónar og samfélagsþáttaka þeirra var með eðlilegari hætti en nú er. Kirkjan – og um leið þjónar hennar – hafa einangrast á ákveðnum jaðri samfélags sem kærir sig lítt um trúarlega vídd í orðræðuhítina sína. Kirkjan er aktúel á hátíðum, hún er umgjörð um þjónustu sem varðar tímabundin veruleika, prédikun hennar ætti síst að taka af skarið og skera úr um nokkuð, hún er fögur fyrirheit og vangaveltur – hún er heimspeki og list þegar best lætur – en hún ER ekkert, svona almennt, hefur enga vigt í orðræðu hins upplýsta samtíma. Það er meirasegja búið að setja sunnudagsspjallþátt til höfuðs útvarpsmessunni af hálfu ríkissjónvarpsins og fréttaskýringaþáttur um fótbolta tætir hið virðulega heiti Sunnudagsmessan í sundur í háði – stjórnandi hans jafnvel titlaður séra, bara uppá grínið. Og prestunum er jafn sama og hinum.

Nú ætla ég ekki að vera afdráttarlaus í fordæmingu á þessari þróun, hún er bara skiljanleg vegna þess að prestarnir hafa glatað virðingu sinni sem rýnendur samfélags, afdráttarlaus boðun þeirra – ef til hennar kemur – lendir oftar en ekki á einhverskonar villigötum þar sem misskilnings gætir um hlutverk prédikunarinnar sem varnaðarlúðurs um hnignun siðferðis í minni málum en bregður til hróplegrar helgislepju í hinum meiri. Á slíkt er ekki hlustað til lengdar. Annarskonar prédikunarkúltúr er að spretta af þessu ástandi úr einhverskonar grasrót og er listrænni en hinn fastmótaði klassíski stíll sem nánast skuldbatt prédikarann til að fara með siðferðisumvandanir á ákveðnum stað (sem að vísu moðast oft niður hjá nútímaprestinum af ótta við að hljóma „leiðinlega“). Ég mun ekki dvelja við það hér og nú hvaða leiðir eru notaðar til að koma á framfæri „hugmyndum að æskilegri breytni“ hjá nútímalegari hugleiðurum kirkjunnar í dag. Ég vil bara benda á muninn á prédikun og hugleiðingu til að árétta það að „þá útleggingu á Guðs Orði“ sem ætlaður er staður í messunni eftir lestur guðspjallsins má túlka með nákvæmlega sömu aðferðum og aðrar bókmenntir eða texta, að gefnum ákveðnum forsendum. Um það snýst rýni mín á þessum vettvangi og verður útvarpsmessan í brennideplinum á þessari „föstutíð“ fram að páskum.

Nú má glöggva sig hér á mínum forsendum ef fólk hefur áhuga á því en það þarf svossum ekki að réttlæta það frekar að hefja prédikunar-og messurýni á opinberum vettvangi. Það er síst gert til að lítilsvirða orðræðu kirkjunnar hvort sem hún fer fram í útvarpsmessunni eða annars staðar. Ég er miklu frekar að velta upp á þessari föstutíð spurningunni um hvað það er sem kirkjunnar þjónar eru að reyna segja okkur; hvert er erindi þeirra? Flytja þeir Guðs Orðið hreint og ómengað? Stunda þeir hagsmunagæslu og þá hverra og hvers vegna? Miðla þeir uppörvandi boðskap fagnaðarerindisins, von og huggun, vakir yfir þeim mildi og miskunn eða kveikja þeir fyrst og fremst í samviskubálinu? Rétta þeir manninn við og styðja til skilnings á sjálfum sér og Guði eða varpa þeir upp leiktjöldum sem hylja slóðina til sáttar og skilnings enn frekar, með orðskrúði og mælgi? Eða verður bara margt í mörgu, kannski svona og kannski hinsegin. Að hverju spyr prédikarinn sig þegar hann veit ekki hvað hann á að segja?

II

Prédikun kirkjunnar er alltaf pólítísk vegna þess erindis sem hún stendur fyrir, þó hún sé síður flokkspólítísk og megi ekki hrekja fólk frá með afgerandi afstöðu innan litrófs stjórnmálanna. Presturinn á jú að geta þjónað öllum jafnt og takmarkar það nokkuð frelsi hans til eigin skoðanna þegar komið er í prédikunarstólinn. En það þarf ekki að þýða að „kennimannsins andi“ eigi að strokast út úr þeirri jöfnu sem borin er fram. Slíkt væru vissulega undanbrögð þegar kemur að því að miðla því erindi sem biðjandi, boðandi og þjónandi kirkja á við heiminn. Og þegar að samtíminn ólgar eins og óbyrja með jóðsótt þá hlýtur hið afdráttarlausa erindi kirkjunnar að skarast við einhverja af hinum fjölmörgu vígaþráðum sem spunnir hafa verið í orðræðuna. Sker erindi kirkjunnar sig úr, eru gildi hennar rauður þráður um kjarna álitamála í siðferðislegum efnum? Nota íslenskir prestar og prédikarar einhverjar sérstakar aðferðir þegar þeir vilja ögra sjálfum sér og almennum viðhorfum eða höfða þeir almennt til hefðar, valds og reglu, í túlkun sinni á freyðandi samfélagsumræðu? Það er til eitt trikk sem mikið er notað í henni Amríku, og hefur nokkuð breytt landslagi kirkjulegrar orðræðu í grasrótinni; WWJD er frasinn what would jesus do skammstafaður í spurn. Þegar við stöndum frammi fyrir aðstæðum, boðskap, orðræðu, ögrun, vandamáli, neyð og fögnuði, í auðmýkt – þá getum við prufað þetta trikk. Spurt okkur – ekki að því hvað presturinn myndi segja heldur – hvað myndi Jesú gera?

Mér leiðist að vísu þegar handhafar réttlætisins tala frá þeim sjónarhóli að allar þeirra skoðanir séu beint afleiddar af því hvað Jesús hefði gert eða hugsað – en mér þykir enn verra þegar handhafar siðferðislegra yfirburða gleyma því hvort orðræða þeirra stenst guðfræðilega greiningu, hvað þá röksemdafærslu þeirra sjálfra fyrir því hvers vegna Jesús elskar syndarann en hatar syndina.

Það væri ósanngjarnt gagnvart lesendum þessarar pistlaraðar „á föstunni“ sem hér er í bígerð að ætla þeim að þekkja til helstu strauma í guðfræði samtímans og geta sett sig inn í orðræðu sem varðar hugtök sem eru prestum töm á tungu. Jafnvel fróðasti leikmaður myndi veigra sér við að leggja út af „hinum háfleygu orðasamböndum sem margur dylur boðskap sinn með“ – eða skoðununum – þegar hann veit ekki hvað skal segja um hið háskalega ástand sem mannskepnan er í á öllum tímum; undir valdi syndar og dóms, samkvæmt kórréttri hugtakanotkun lútersks rétttrúnaðar. Náð – hvað þýðir það? Réttlættur fyrir trú, sola scriptura – Guðs Orð – verkaréttlæting, orthopraxy, þríeinn Guð, í krafti Heilags anda…

Úr prédikunarstóli talar presturinn í krafti einhvers, undir réttum kringumstæðum er hann á valdi Orðsins og semur prédikun sína laus undan hinu veraldlega og kerfisbundna. Prédikarinn á að þjónusta Orðið eins og það birtist honum og túlka það inn í samtímann óháður því hvernig hinn eða þessi kann að taka textanum en þessi ögrun felur klárlega í sér miðlun þess boðskapar, hreins og ómengaðs, sem guðspjallið og/eða textar dagsins innihalda og kirkjan býður honum að setja í samhengi við samtímann og framrás þeirrar samfélagslegu orðræðu sem mótar viðmið okkar og gildi. Að svíkjast undan þeirri beinskeyttu ögrun sem guðspjöllin og þau viðhorf sem þar birtast innihalda, þegar kemur að túlkun samtímans, er fyrir margra hluta sakir alvarlegt mál í ljósi þess að talað er í krafti valds sem markast af þjónustu við þann veruleika Guðs sem prédikarinn væntanlega (og vonandi) trúir að hafi opinberast mannkyninu í Kristi. Við eigum að geta treyst því sem presturinn segir og eigum ekki að þurfa að passa okkur á því að hann eða hún séu að sveigja innihaldið að hentistefnu sinni til þess að leiða sjónir frá því hvernig Guðs Orð talar á hverjum tíma beint við manninn. Prédikaranum er treyst fyrir þjónustu Orðsins, eins og það birtist í samvisku hans, trútt viðmiðum sem eru mótuð af djúpstæðum skilningi á þeim gildum sem grundvalla lifandi trú á kjarnaboðskap og sacramentum fagnaðarerindisins.

III

Við stígum öll inn í ákveðið hlutverk þegar við tökumst á við opinbert rými, hvort sem er á internetinu eða í prédikunarstóli kirkjunnar. Þannig er samtíminn og opinber orðræða er þannig að verða jafn rétthá og eftirtektarverð sama hvaðan hún sprettur fram.  Afstaða okkar og málflutningur helgast af þessu opinbera hlutskipti. Það sem máli skiptir í prédikunarstólnum er aftur á móti ekki bara okkur sjálfum háð, eins og í listunum, því það skiptir máli hvort að við tökum okkur stöðu með eigin skoðunum eða erum því trú sem okkur er falið. Prestinum er falið að prédika Guðs orð, hreint og ómengað. Í mínu tilviki hef ég aðeins falið sjálfum mér það hlutskipti á föstutíðinni að bera fram rýni sem megi verða einhverjum til gagns við að móta sér afstöðu gagnvart prédikun sem er flutt á opinberum vettvangi – í krafti einhvers valds – og vonast ég til að rísa undir þeirri ábyrgð að greina hvað það er sem „er í gangi“ í einhverri ákveðinni prédikun.

Hvaða tegund af guðfræði er það og er sú guðfræði samkvæm sjálfri sér heilt í gegn þannig að hún geti talist gild og eftirtektarverð fyrir sakir þeirrar sannfæringar sem hún birtir um leiðsögn sem sé hafin yfir eigin hagsmuni prédikarans? Er hún einnig trú þeim veruleika sem er sameiginlegur grundvöllur trúarafstöðu milljóna manna um heim allan og á að giska þriggja af hverjum fjórum sem byggja þetta land? Sú rýni sem hér mun fara fram er til þess gerð að hver sá sem kemst frekar til botns í afstöðu sinni til prédikunarinnar sem texta – sem er í engu frábrugðin öðrum listformum sem fást við sömu miðlun „helgra sanninda“ – geti með skilmerkilegri hætti greint sína eigin „guðfræði“ í takt við þá margbreytilegu tóna sem kirkjan miðlar með fjölbreytileika þess Guðsorðs sem flutt er í útvarpsmessunum á RÚV.

Arnaldur Máni Finnsson er guðfræðingur sem kennir skapandi skrif og íslensku fyrir útlendinga á hjara veraldar.