Fréttaflutningur frá kirkjuþingi

Mynd: Árni Svanur Daníelsson

Kirkjuþing verður sett í Grensáskirkju á morgun en fyrir þá sem ekki vita er kirkjuþing æðsta vald þjóðkirkjunnar skv. lögum. Orðið, rit félags guðfræði- og trúarbragðafræðinema, ætlar að vera með fréttaflutning frá kirkjuþingi, rýna í þau mál sem tekin verða til umfjöllunar, fylgjast með meðferð þeirra og leita skýringa hjá kjörnum fulltrúum á þýðingu einstakra mála. Er þetta tilraun guðfræði- og trúarbragðafræðinema til að opna kirkjuþing út á við, en þrátt fyrir vald og vægi virðist ekki mikið fara fyrir því starfi sem kirkjuþing vinnur. Lítið er fjallað um störf kirkjuþings almennt, hvaða mál liggja fyrir þinginu og hvernig unnið er úr þeim.

Á kirkjuþingi eiga sæti 29 kjörnir fulltrúar, 12 vígðir og 17 úr röðum leikmanna, einnig sitja biskup Íslands og vígslubiskuparnir þingið og einn fulltrúi frá guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ hefur málfrelsi og tillögurétt. Kirkjuþing er eiginlegt löggjafarvald kirkjunnar, það kýs fjóra fulltrúa í kirkjuráð sem fer með framkvæmdarvald kirkjunnar undir forsæti Biskups Íslands.

Í ár tekur kirkjuþing mörg spennandi mál til umfjöllunar (sjá þingmálaskrá 2014). Má þar nefna endurskoðun á þjóðkirkjulögum, nýjar starfsreglur um veitingu prestsembætta og breytingar á biskupskjöri. Markmið þessa verkefnis er að fylgjast með kirkjuþingi, kynna störf þess og birta samantekt eða uppgjör eftir hvern dag.

Ýmsir munu koma að verkefninu en ritstjórn verkefnisins skipa:

Sindri Geir Óskarsson, guðfræðinemi
Rannveig Ernudóttir, trúarbragðafræðinemi
Arnar Styr Björnsson, guðfræðinemi
Aðalheiður Rúnarsdóttir, guðfræðinemi