Fyrsta upplifun af kirkjuþingi

Mynd: Árni Svanur Daníelsson

Að mæta á kirkjuþing var merkileg upplifun. Við fengum okkur sæti til hliðar í anddyri Grensáskirkju en fjölmargir gengu til okkar, buðu góðan daginn, kynntu sig og vildu vita deili á okkur. Þetta var örlítið eins og að mæta á samkomu hjá hvítasunnukirkjunni en þar fær maður sömu tilfinningu fyrir því að vera velkominn. Flestir tóku vel í það að Orðið myndi standa að fréttaflutningi frá kirkjuþingi og voru tilbúin að ræða þau mál sem helst lágu þeim á hjarta. Hvísl og samtöl undir fjögur til sex augu fjarri fjöldanum virtust vera hluti af starfi þingsins. Það var að minnsta kosti áberandi sjón strax á fyrsta degi og göntuðust þingfulltrúar með að þar væru fulltrúar „reykfylltu bakherbergjanna“ að störfum.

Við setningu kirkjuþings flutti forseti kirkjuþings hvetjandi ávarp þar sem hann sagði kirkjuna þurfa að vera í sókn en ekki vörn. Kirkjan þyrfti að átta sig á því að þær aðferðir sem hún hefur beitt við að koma sér hingað, á þann stað sem hún er á, séu ekki aðferðir sem hún geti notað til að komast á þann stað sem hún ætli sér að vera á í samfélaginu. Kirkjan þurfi að átta sig á því að hún sé í samkeppni við aðra afþreyingu og þurfi að beita nýjum aðferðum og nýrri tækni til að ganga í sama takti og samfélagið sem hún vilji þjóna. Undirrituðum þótti afstaða forseta kirkjuþings góð og hlaðin bjartsýni um framtíð kirkjunnar.

Á kirkjuþingi eiga sæti 29 kjörnir fulltrúar, 12 vígðir og 17 úr röðum leikmanna. Eftir samtöl við marga fulltrúa fáum við á tilfinninguna að hópurinn sé samansettur af ólíkum einstaklingum, úr ýmsum áttum með fjölbreyttar hugmyndir um stöðu og framtíð kirkjunnar. Slík fjölbreytni er góð. Hinsvegar giskum við á að meðalaldur þingfulltrúa sé um 55 ár og við sjáum ekki betur en að tveir þriðju hlutar þingmanna séu karlar. Þó að vissulega séu nokkrir ungir prestar á þinginu væri gaman að sjá fleiri unga guðfræðinga, kirkjufólk og guðfræðinema í röðum þingmanna.

Við komum okkur fyrir á aftasta bekk þar sem við höfum gott útsýni yfir alla þingfulltrúa og okkur þótti stórmerkilegt að fylgjast með atferli þeirra. Það var alveg ljóst hverjir væru plottarar, þeir gengu á milli manna og kölluðu þá á tveggjamanna fundi. Okkur var því miður ekki boðið á þá fundi en það var áberandi að það voru aðeins karlar sem stóðu í þessu plotti. Einnig voru karlar mun iðnari við að koma sér á mælendaskrá, 22 sinnum tóku karlar til máls í umræðu um skýrslu kirkjuráðs á meðan konur tóku 5 sinnum til máls. Einnig var merkilegt að fylgjast með því hvernig fundarstjóri kynnti menn í púltu, sumir voru kynntir sem doktarar og sérar, en okkur heyrðist hann ekki kynna kvenprest sem séra. Umræður voru langdregnar, fólk hélt sig ekki við efnið og eyddi jafnvel ræðutíma sínum í mál efnislega óviðkomandi skýrslunni.

Uppúr stendur að okkur virðist kirkjuþing vera karllæg stofnun og var okkur tjáð að kynjahlutföll hefðu verið heldur betri á síðasta kirkjuþingi en þessu. Í ljósi þess hve umræður voru langar, stundum ótengdar efninu og mestmegnis úr ranni karlkyns þingfulltrúa þykir okkur áhugavert að velta upp í upphafi þings hvort menn séu að tala til að hlusta á sjálfan sig að tala og hvort þetta væri skilvirkara ef hér sætu fleiri konur.

Aðalheiður Rúnarsdóttir og Sindri Geir Óskarsson