Samantekt eftir fyrsta dag kirkjuþings.

Mynd: Árni Svanur Daníelsson

Skálholt
Þingfulltrúum var tíðrætt um Skálholt, sem hefur verið rekið með tapi undanfarin ár – eða ekki – allt eftir því við hvern er talað. Var því ýmist haldið fram að reksturinn gengi vel eða að 10 milljón króna halli væri á rekstrinum á ári síðustu ár. Snérist umræðan aðallega um útleigu á rekstri gisti- og veitingaþjónusu og samning þar um. Sérstök nefnd hafði umsjón með samningagerðinni og samkvæmt samningnum á kirkjan að fá 22% af þeim tekjum sem verða af rekstrinum umfram 60 milljónir á ári. Einnig er tekið fram að kirkjan eigi að hafa forgang um kaup á þjónustu í Skálholti en það virtist óljóst hvort kirkjan ætti að greiða eftir sömu verðskrá og aðrir. Séra Elínborg Gísladóttir spurði því hver ávinningurinn væri af útleigunni ef kirkjan ætti að greiða sömu upphæð og aðrir. Mörgum spurningum var beint að kirkjuráði en lítið var um efnisleg svör.

Tryggingar
Fulltrúi á kirkjuþingi ræddi það hvort kirkjan gæti ekki sameinast og farið í útboð á tryggingum sóknanna, þannig væri eflaust hægt að fá betri kjör en nú bjóðast. Hann nefndi að sinn söfnuður væri að sligast vegna trygginga og að kirkjubyggingin væri ekki tryggð að raunvirði vegna þess hvað iðgjaldið væri hátt. Gísli Jónasson í Breiðholtskirkju upplýsti að reykjavíkur-prófastssdæmin væru ræða það að fara með tryggingarnar í sameiginlegt útboð og tók vel í þá hugmynd að slíkt yrði gert á landsvísu. Fleiri lýstu stuðningi við slíka hugmynd.

Orðræða um kirkjuna
Í ræðu forseta kirkjuþings og innanríkisráðherra var vikið að því að kirkjan væri jaðarsett í samfélaginu og tók Steindór Haraldsson þingfulltrúi undir það. Var þá tekist á um hvort kirkjan væri jaðarsett og hvaða skilaboð kirkjan væri að senda með því að tala um sig á þann hátt. Hvort að þar væri kirkjan að setja sig í ákveðna varnarstöðu og mála einstaklinga eða hópa sem óvini kirkjunnar. Sr. Geir Waage sagði að sér þætti slæmt að tala um kirkjuna sem jaðarsetta og tóku margir þingfulltrúar undir það.

Mynd: Árni Svanur Daníelsson

Kirkja í sókn
Nokkuð fór fyrir umræðum um framtíð og stefnu kirkjunnar. Raunar átti forseti kirkjuþings frumkvæði að þeirri umræðu þar sem hann kom skýrt inn á það í setningarræðu sinni að kirkjan þyrfti að takast á við nýjan veruleika og breytt samfélag og mætti ekki halda sig við gamlar aðferðir og hugmyndafræði. Hjalti Hugason, fulltrúi guðfræði- og trúarbragðafræðideildar HÍ, talaði um að kirkjan þyrfti að horfast í augu við nýjan samfélagslegan veruleika og nýja þróun sem er mest á hugmyndafræðilega sviðinu. Hann talað um að samfélagaþróunin hljóti að breyta kirkjunni og að kirkjan mætti hvorki staðna né vinna að því markmiði að verða eins og hún var einhverntíman í fortíðinni. Hann vill setja það í stefnuskrá kirkjunnar að hún verði í markvissri sókn sem stefni að framtíðarmarkmiðum en vísi ekki til hefðarinna, hvernig hlutirnir hefðu verið. Hann sagði að kirkjan þurfi að vera virk í nýjum samfélagsveruleika, ef okkur þætti halla á hlut kirkjunnar, t.d. í samskiptum við skóla, segir hann að kirkjan þurfi að spurja sig hvað hún geti gert í sínu starfi til að mæta því, fremur en að kvarta eða horfa til fortíðar.

Þessu tengt kom sr. Þorgrímur Daníelsson inn á að kirkjuþing þyrfti að takmarka þau efni sem það ætlaði að setja á oddinn og velja kannski 2-3 mál fremur en að ætla sér að gera allt. Stefna kirkjunnar þurfi að vera skýr og einföld og kirkjan þurfi að tryggja þeim verkefnum sem hún ætli að vinna að fjármagn til þess að eitthvað verði úr þeim. Hjalti tók undir orð Þorgríms og benti á að samkvæmt könnun sem unnin var um verkefni kirkjuþings þá enduðu þau yfirleitt í engu. Sú könnun benti hinsvegar á lausnir og hvernig kirkjan gæti tekið sig á í stefnumörkun.

Fjárhagur
Langflestar umræður í dag snérust að einhverju leyti um peninga. Sr. Gísli Jónasson benti á þá sláandi staðreynd að fjárlög til kirkjunnar séu að krónutölu 5,7% lægri í ár en þau voru árið 2008. Hann ítrekaði hversu mikið þrekvirki kirkjan hafi unnið að halda starfinu gangandi í gengum þennan niðurskurð þrátt fyrir að starfsmenn sókna væru mun færri en fyrir hrun.

Sr. Leifur Ragnar Jónsson gagnrýndi hugmyndir um að nýta takmarkað fé kirkjunnar til að styrkja enn frekar starf þjóðkirkjunnar erlendis þegar að kirkjustarf á landsbyggðinni væri víða í molum. Öll Skálholtsumræðan snérist um peninga og skuldir. Rætt var um sölu á prestsetursjörðum og vildi sr. Sigurður Árni Þórðarsons að kirkjan færi hægt í því máli, um væri að ræða „fjölskyldusifur kirkjunnar“ og tók frú Agnes biskup undir þau varnarorð.

Auðvitað komu fleiri mál til tals, en merkilegt var að engin umræða var um stór mál á borð við kirkjujarðasamkomulagið og tillögur um ný þjóðkirkjulög en þær sprengjur hljóta að falla á næstu dögum.