Samantekt eftir annan dag kirkjuþings.

Sr. Gísli Jónasson og sr. Þorgrímur Daníelsson
Mynd: Árni Svanur Daníelsson

Þessi annar dagur kirkjuþings fór aðallega í tvær umræður. Annarsvegar um skýrslu um fjármál Þjóðkirkjunnar og hinsvegar tillögu til þingsályktunar um frumvarp til Þjóðkirkjulaga. Hvað upplifun okkar varðar þótti okkur báðum skorta skýr fundarsköp. Við heyrðum þingmenn ræða það sín á milli að umræðan hefði gengið allt of lengi, að hún væri ómarkviss og að þeir vildu gjarnan að hægt væri að vísa málinu inn í nefnd svo að hægt væri að byrja umræður um þann fjölda mála sem liggur fyrir þinginu.

Skýrsla um fjármál Þjóðkirkjunnar.

Hér rekjum við umræðu dagsins um skýrsluna en við mælum auðvitað með því að skýrslan sjálf sé lesin svo að fólk öðlist heildarmynd. Sr. Gísli Gunnarsson, kirkjuráðsmaður og framsögumaður skýrslunnar, kynnti efni hennar vel og lagði áherslu á þá liði sem varða niðurskurð ríkisins til kirkjunnar og hvernig kirkjan muni bregðast við honum.

Hann rifjaði upp þá tíð þegar hann var ungur prestur og gjaldkerar sóknarnefnda fóru um og innheimtu sóknargjöldin af sóknarbörnum. Þegar staðgreiðslukerfi skatta var tekið upp samþykkti ríkið að innheimta sóknargjöldin fyrir kirkjuna og skila þeim til kirkjunnar, þótti þetta fyrirkomulag hentugt og einfalt.

Hann benti á að sóknargjöldin væru ekki einu greiðslurnar til kirkjunnar frá ríkinu heldur fengi kirkjan líka greiðslur samkvæmt kirkjujarðasamkomulaginu svokallaða frá 1907. Þá var ákveðið að íslenska ríkið myndi taka yfir vörslu kirkjujarðanna sem kirkjan átti þá, að frátöldum prestssetrum. 1997 var svo endanlega gengið frá þessum samningi sem byggir á að jarðirnar verði eign ríkisins og á móti greiði ríkið afgjald sem eigi að standa undir launum presta.

Greiðslur ríkisins til kirkjunnar séu því vegna kirkjujarðasamkomulagsins, sem er samningur á milli tveggja lögaðila, og svo sóknargjöldin sem ríkið sér um að innheimta fyrir Þjóðkirkjuna sem og önnur trúar- og lífsskoðunarfélaga.

Eftir hrun tók kirkjan þátt í þeim niðurskurði sem lagður var á stofnanir ríkisins og samþykkti kirkjuþing að greiðslur fyrir kirkjujarðasamkomulagið myndu lækka í takt við niðurskurð til annarra stofnana ríkisins. Staðan er hinsvegar að nú er Þjóðkirkjan að fá 431 milljón krónum lægri greiðslu fyrir kirkjujarðasamkomulagið en fyrir hrun og uppsöfnuð hagræðingarkrafa síðustu 6 ára er 2129 milljónir króna. Þó að tekjur kirkjunnar séu lægri en þær voru hefur kirkjan ekki dregist saman sem því nemur og vantar um 191 milljón á árinu 2015 til að kirkjan nái endum saman. Kirkjuráð telur sig hafa náð að dekka það gat með sölu eigna og með því að ganga á eignir kirkjumálasjóðs og jöfnunarsjóðs. Gísli tók fram að það bryti ekki gegn reglum sjóðana að nota þá á þennan hátt þó að æskilegra væri að nýta þá í aðra hluti.

Gísli sagði að prestembættum Þjóðkirkjunnar hafi fækkað um 16 talsins frá 2010, þá var 141 prestur á launum en árið 2015 er gert ráð fyrir að embættin verði 125. Nú ber ríkinu að greiða sem samsvarar 138 prestsembættum en aðeins verður greitt fyrir 107 skv. fjárlagafrumvarpi og þarf kirkjan sjálf að fjármagna þessi 18 embætti sem útaf standa.

„Þannig sé ríkið beinlínis að ræna 27 milljónum af félagsgjöldum Þjóðkirkjunnar.“

Hvað varðar innheimtu sóknargjalda benti Sr. Gísli Jónasson á að þetta væri í raun sama aðferð og notuð er við innheimtu útsvars sveitafélaganna, ríkið rukkar og skilar til sveitafélaganna. Ríkinu myndi hinsvegar ekki detta í hug að rukka 14% en skila sveitarfélögunum svo 12%, það hafi ríkið gert í tilfelli trúar- og lífsskoðunarfélaga. Ríkið ætli að hækka sóknargjöld um 100 milljónir árið 2015 en halda sjálft eftir 27 milljónum. Þannig sé ríkið beinlínis að ræna 27 milljónum af félagsgjöldum Þjóðkirkjunnar. Í skýrslunni kemur einnig fram að umframskerðing á sóknargjöldum trúfélaga á árunum 2009-2014 nemi 4100 milljónum króna. Er það það skerðing langt umfram það sem aðrir hafa þurft að taka á sig og er þetta skýringin á bágri stöðu safnaða eftir hrun. Stefnir ríkisstjórnin hinsvegar á að leiðrétta þetta við trúfélög landsins á næstu fjórum árum.

Sr. Guðrún Karls Helgudóttir
Mynd: Árni Svanur Daníelsson

Sr. Guðrún Karls. Helgudóttir og sr. Leifur Ragnar Jónsson hófu umræður á því að gagnrýna 50% prestsembætti og að stungið væri uppá að auglýsa hálfar stöður til að mæta niðurskurðarkröfum. Guðrún sagðist ósátt með að frestað væri að auglýsa embætti til að ná fram tímabundnum sparnaði og stakk uppá að sóknir yrðu sameinaðar og samstarfssvæði virkjuð til að gera þjónustuna skilvirkari, þá sagði hún að fjölga þyrfti djáknum og starfsmönnum öðrum en prestum. Leifur spurði líka hvort Gísli Gunnarsson byggist við því að kirkjan fengi verðbætur af sóknargjöldunum og sagðist Gísli vonast til þess. Katrín Ásgrímsdóttir benti á hlut presta í rekstri kirkjunnar, að kirkjan hafi um 100 milljón króna tekjur af prestsetrum og hlunnindum kirkjujarða á ári.

Sr. Elínborg Gísladóttir bað um útlistun á þeim sparnaði sem Gísli hélt fram að orðið hefði með fækkun prófastsdæma og varaði við frekari niðurskurði á embættum þar sem kirkjan hefði ákveðnar þjónustu skyldur sem hún næði ekki að uppfylla án starfsfólks. Sr. Vigfús Bjarni Albertsson varaði við niðurskurði í þjónustu og benti á að sjúkrahúsprestarnir á landsspítalanum hefðu átt 5000 viðtöl og fengið 1200 næturútköll á síðasta ári. Hinsvegar væri engin eftirspurn eftir þessari þjónustu ef hún væri ekki til staðar og í boði. Á hann við að með framboði á þjónustu skapist væntingar og eftirspurn. Hann vill að kirkjan skoði vel hvernig hún gæti aukið þjónustu sína, jafnvel selt þjónustu, þar sem að kirkjan búi yfir mikilli þekkingu, reynslu og mannafla sem beri að nýta sem best.

Hjalti Hugason nefndi að þörf væri á umræðu um lagarammann um sóknargjöld til að skýrt væri hvers eðlis sóknargjöldin séu. Það kemur ekki fram í lögunum sjálfum að um félagsgjöld sé að ræða, því sé hinsvegar hægt að fletta upp í 25 ára gömlum lögskýringargögnum sem varpi ljósi á hvernig skilja beri gjöldin. Eins og lögin séu nú sé hægt að túlka sóknargjöldin sem ríkisframlag og Hjalti ítrekar að öll vafamál á þessu sviði séu hættuleg. Einnig bendir hann á að ef farið væri í saumana á íslensku þjóðkirkjuskipaninni út frá mannréttindarsjónarmiðum væri þetta atriði sem mannréttindadómstóll gæti staldrað við, því þurfi það að vera afdráttarlaust í lögum að um félagsgjöld sé að ræða. Sr. Gunnlaugur Stefánsson virtist alls ekki ánægður með þessa umræðu Hjalta og sagði það annarlegt að prófessor í guðfræði við HÍ færi með getgátur og hótanir um þessi mál. Ægir Örn Sveinsson, guðfræðinemi og kirkjuþingsfulltrúi, tók hinsvegar undir varnarorð Hjalta og sagði að fyrst skilningur almennings og þingmanna á sóknargjöldum væri sá að þau gætu verið túlkuð sem ríkisframlög væri nauðsynlegt að taka allan lagalega vafa af því að um félagsgjöld sé að ræða.

 

Þjóðkirkjulög

Sr. Sigurður Árni hóf umræðu um Þjóðkirkjulögin með varnarorðum. Hann sagði að nú væri þingið með þrjú gullegg kirkjunnar til meðhöndlunar, Þjóðkirkjulögin, sóknargjöldin og kirkjujarðamálið og ekki væri ráðlegt að halda öllum á lofti samtímis. Auk þess taldi hann frumvarpið til Þjóðkirkjulaga vanbúið og ekki tilbúið undir umræðu á alþingi. Hjalti Hugason tók í sama streng og sagði vel mega fresta málinu fram að næsta þingi, þá gætu nýjir þingfulltrúar líka sett sig inn í málið og gert það að sínu. Auk þess lagði Hjalti fram margar breytingartillögur við frumvarpið sem miðuðu að því að stytta lögin og auka völd kirkjunnar um innri málefni. Hann vildi að skýrt væri hvar skilin lægju á milli innri og ytri mála kirkjunnar.

„…þá þyrfi kirkjan að hafa sterkan ramma um sín innri mál svo að ekki yrði um að ræða alveldi kirkjuþings.“

Steindór Halldórsson velti því upp hvort ekki væri þörf á einhverskonar kirkjusáttmála sem erfitt væri að breyta, einskonar innri lögum kirkjunnar. Sr. Þorgrímur Daníelsson greip þar umræðuna og kom fram með áhugaverða tillögu um það sem hann kallar innri stjórnarskrá kirkjunnar. Hann sagðist fylgjandi stuttum Þjóðkirkjulögum en þá þyrfi kirkjan að hafa sterkan ramma um sín innri mál svo að ekki yrði um að ræða alveldi kirkjuþings. Hann sér þessa innri stjórnarskrá fyrir sér sem plagg, sem að eðlinu til væri ekki ósvipað stjórnarskrá Bandaríkjanna fyrir utan mannréttindakaflann. Þ.e. hlutverk þess væri að fjalla um grunn embætti Þjóðkirkjunnar og hvernig völdum sé komið fyrir í þessu kerfi. Slíkt plagg myndi þá takmarka vald kirkjuþings og gæti deilt því út t.d. til héraðsfunda. Halla Halldórsdóttir tók undir orð Þorgríms og þótti hugmyndin um innri stjórnarskrá spennandi, enda þyrfi að vera á hreinu hvar valdið lægi hjá kirkjunni.

Umræðan virtist þó snúast mest um það hvað allir væru sammála um að Þjóðkirkjulögin líkt og þau voru borin undir þingið væru ekki tilbúin fyrir meðferð á alþingi og var því ákveðið að vísa málinu í nefnd.