Skipan prestsþjónustunnar og veiting prestsembætta – dagur þrjú

Jónína Bjartmarz í pontu.
Mynd: Árni Svanur Daníelsson

Þá er þriðja degi kirkjuþings lokið. Þessi dagur líkt og þeir sem á undan hafa gengið hefur verið viðburðaríkur og upplýsandi. Nú höfum við fylgst með kirkjuþingi í þrjá daga og höfum á þessum stutta tíma öðlast gífurlegan skilning á stofnunum kirkjunnar og ýmsum innri málum. Að sitja fyrstu daga kirkjuþings er sannarlega eitthvað sem allir guðfræðinemar ættu að gera, einfaldlega til að öðlast betri skilning á kirkjunni. Hinsvegar er óvíst að við óskum öllum að leggja þetta á sig, álagið á okkur er lítið miðað við álagið á þingmennina en þó er þreyta farin að gera vart við sig. Í dag tókst kirkjuþingi að afgreiða töluverðan hluta þingmála inn í nefndir eða um 12 mál, sýnist okkur að 10 mál eigi þá enn eftir að ræða.

 

Tillaga um skipan prestsþjónustunnar

Er hér um að ræða mál er varðar skipan prestakalla, fjölda sóknarpresta í landinu, presta, héraðspresta og sérþjónustupresta. Semsagt gífurlega mikilvægt mál sem unnið hefur verið að frá árinu 2012. Nefndin sem kirkjuþing skipaði þá til að fjalla um málið er að biðja um árs frest til að klára að vinna málið svo að hún geti lagt það fyrir kirkjuþing 2015. Nefndin biður kirkjuþing að taka ákveðna þætti til umfjöllunar t.a.m. stöðu samstarfssvæðanna, að tölulegum upplýsingum um þjónustu kirkjunnar verði safnað, hver lágmarks fjöldi sóknarbarna undir hverjum presti eigi að vera, meta þörf fyrir héraðs- og sérþjónustupresta og meta hvort embætti djákna geti öðlast fastari sess en nú er í skipan þjónustu kirkjunnar.

„prestar eru amatörar í kennslu“

Hjalti Hugason tók til máls og lýsti yfir stuðningi við að hugað væri að djáknastéttinni og staða þeirra gerð sterkari. Hann segir fjölmarga hafa djákna réttindi en fá störf vera í boði, kirkjuna vanti heildarstefnu hvað varðar djákna. Djáknar hafi margir hverjir menntun á sviði hjúkrunar, kennslu og félagsráðgjafar og geti því útvíkkað þjónustu kirkjunnar. Ægir Örn Sveinsson sagði djákna einmitt vera lykilstétt í því að vinna að nýsköpun og safnaðaruppbyggingu innan kirkjunnar. Hann sagði líka dýrmætt að geta nýtt þá fjölbreyttu reynslu sem djáknar hafa uppá að bjóða, að margir djáknar gætu eflaust sinnt fræðslu og kennslu í söfnuðunum betur en prestar, eða eins og Ægir sagði „prestar eru amatörar í kennslu“. Tóku margir vel í þessar tillögur en nokkrir prestar létu nú í ljós að þeir teldu sig ágætis fræðara þrátt fyrir að vera prestar. Séra Guðrún Karls Helgudóttir sagði ekki aðeins mikilvægt að koma djáknum betur inn í skipulag kirkjunnar heldur einnig guðfræðingum. Að óvígðir guðfræðingar gætu starfað í sóknum og stutt þannig við starf og þjónustu kirkkjunnar.

Mikil umræða spannst um samstarfssvæði sókna. Sr. Guðrún Karls Helgudóttir sagði að samstarfssvæðin væru mikilvæg hjálpartæki bæði til að styrkja við þá þjónustu sem kirkjan býður en einnig til að koma í veg fyrir kulnun presta. Hún sagði nútíma kirkju byggjast upp á samvinnu. Þó telur hún að skoða þurfi ólíkar gerðir samstarfssvæða þar sem að það sem henti á höfuðborgarsvæðinu henti kannski ekki annarstaðar. Sr. Leifur Ragnar Jónsson taldi samstarfssvæði ágæt en efaðist um að það þyrfti að koma boð að ofan um skipulag þeirra því að samstarf sprytti af sjálfu sér á milli presta á sama svæði.

Sr. Sólveig Lára sagði að í vísitasíum sínum um norðurland hafi hún greint viðhorfsbreytingu á meðal presta hvað varðar samstarf og jöfnun á þjónustu. Hún telur ágætt að nefndin fái að vinna lengur að málinu þar sem að um mikilvægt mál sé að ræða sem þurfi að fara hægt í og vinna vandlega. Katrín Ásgrímsdóttir fagnaði því að vígslubiskup yrði vör við hugarfarsbreytingu hvað þjónustuna varðar. Hún segir sannleikann vera þann að prestar séu mis hæfir á ákveðnum sviðum. Einn gæti verið sérhæfður á ákveðnu sviði og því þurfi að vera flæði á milli presta innan samstarfssvæða, kirkjan þurfi að vera sveigjanleg í þjónustunni í stað þess að hver prestur sé í sínum kassa.

 

Jafnréttisstefna kirkjunnar

Sr. Sólveig Lára hélt framsögu um jafnréttisstefnu og framkvæmdaáætlun þjóðkirkjunnar á sviði jafnréttismála. Kom þar fram að hjá kirkjunni starfi nú jafnréttisfulltrúi sem haldi utan um störf nefndarinnar og sé það sóknarpresturinn á Reykhólum. Er kirkjan þar að taka þátt í þeirri hugsjón að störfum sé dreift um landsbyggðina.

„Þó að Lúter tali um aðgreiningu persónu og embættis þá sé starfsmannastefna kirkjunar á öndverðum meiði.“

Flestir guðfræðinemar stefna að því að vinna fyrir kirkjuna. Í gegnum námið hefur því verið haldið að okkur, að prestur lifi starf sitt, að gerð sé sú krafa að prestur sé alltaf í vinnunni, alltaf til staðar og geti ekki átt sér einkalíf í raun. Einnig hefur það heyrst frá ungum og nýlega vígðum prestum að þetta sé í raun staðan. Þó að Lúter tali um aðgreiningu persónu og embættis þá sé starfsmannastefna kirkjunar á öndverðum meiði. Ef kirkjan vill ekki að prestarnir sínir brenni út og missi móðin þarf hún að marka fjölskylduvænni starfsmannastefnu og má finna vísi að henni í framkvæmdaáætlun jafnréttisnefndar. Þar er fjallað um samræmingu fjölskyldu og atvinnulífs og sagt að starfsfólki skuli auðvelduð sú samræming. Sagt er að starfsfólk þurfi að njóta sveigjanleika eins og kostur er og hvatt til þess að prestar af báðum kynjum nýti fæðingarorlof og veikindadaga barna. Þetta er ekki stórt stökk en vísir að því að kirkjan hugi betur að starfsmönnum sínum.

Sr. Guðrún Karls Helgudóttir fagnaði því að leita ætti leiða til að jafna kynjahlutföll á kirkjuþingi og benti á að þar sætu þrjár vígðar konur en 9 vígðir menn, það endurspeglaði hlutföllinn í stéttinni og væri ekki til fyrirmyndar. „Þó að karlarnir séu frábærir þá eru þeir ekki svona frábærir“ bætti hún við.

Skýringarmynd yfir ráðningarferli tillögunnar, smellið á til að stækka.
Fengin úr tillögu að starfsreglum um val og veitingu prestsembætta, bls. 5.

Starfsreglur um val og veitingu prestsembætta

Lögð er fram tillaga um grundvallar breytingu á starfsreglum um val og veitingu prestsembætta. Til einföldunar getum við sagt að þetta sé fjögurra þrepa skipulag:

1. Þarfagreining fer fram í söfnuði og auglýsing embættisins unnin út frá því hvaða kröfur séu gerðar og hvort verið sé að leita eftir presti með sérstaka hæfni á ákveðnu sviði. Þarfir safnaðarins móta því heildar ferlið.

2. Fagleg matsnefnd skipuð þrem einstaklingum fer yfir umsækjendur og velur þá sem hún telur hæfasta miðað við forsendur safnaðar og ákveðna þætti sem tekið er tillit til. Gæti nefndin valið fleiri eða færri en þrjá, allt eftir aðstæðum.

3. Kjörnefnd prestakallsins skipuð 11 fulltrúum að lágmarki skal kosin á fjögurra ára fresti og kýs hún svo á milli umsækjenda í leynilegri kosningu.

4. Biskup Íslands skipar í embætti eftir vali heimamanna.

Hér er verið að reyna að samþætta tvö kerfi, faglega ráðningu annarsvegar og val safnaðar hinsvegar. Frú Agnes segir þetta vera ágætis lendingu og segir gott að hafa þessa matsnefnd sem taki við umsóknum frekar en að valnefndir safnaða taki við þeim. Svona sé ferlið orðið faglegra, sama fólk meðhöndli allar umsóknir svo að lög og reglur eru alltaf túlkaðar á sama hátt í stað þess að unnið sé með umsóknir á misjafna vegu í sóknum landsins allt eftir því hvað hverjum finnst á hverjum stað. Svona sitji allir við sama borð því að valnefndir séu oft ósáttar við að þurfa að fara eftir reglum og landslögum við prestsval og vilji fá fullkomið frelsi við val á presti. Svona sé verið að reyna að koma með ákveðna lausn.

„…þá hlyti að koma í ljós hvort sérstaklega væri þörf á konu ef þar störfuðu aðeins karlar í sókninni eða á samstarfssvæðinu.“

Sr. Guðrún Karls Helgudóttir sagði gott að verið væri að búa til faglegra ferli en hún óttaðist að halla myndi á konur í þessu kerfi þar sem ekki yrði krafa um kynjajöfnuð. Jónína Bjartmarz sagði hinsvegar að hún sæi möguleika í þessu kerfi fyrir konur því að þarfagreiningin á upphafsstigi ferlisins hlyti að taka tillit til vöntunar á konum. Ef skoða ætti hvert prestakall með mælistiku þá hlyti að koma í ljós hvort sérstaklega væri þörf á konu ef þar störfuðu aðeins karlar í sókninni eða á samstarfssvæðinu. Auk þess sagði hún að sem lögfræðingur hljómaði það mun faglegra að ein nefnd sæi um að taka á mótti öllum umsóknum fremur en að kerfið væri eins og það er nú. Sr. Vigfús Bjarni Albertsson nýtti tækifærið til að hvetja guðfræðinga og presta til að sækja sér meiri menntun til að vera ekki aðeins hæfari starfsmenn heldur líka til að auka starfsmöguleika sína.

Ekki náðum við að fylgjast ítarlega með öllum málum dagsins en eitt virtist standa uppúr, það er Skálholtsumræðan. Þar takast á nokkrir pólar og er erfitt að gera sér heildarmynd af málinu. Hópur þingmanna vill að kirkjuráð afsali sér stjórn Skálholtsstaðar til þriggja manna nefndar sem verði skipuð af kirkjuþingi, biskupi Íslands og Skálholts biskupi. Sr. Gunnlaugur Stefánsson segir að ekki sé lagaheimild til að skipa slíka stjórn en sr. Kristján Valur hefur það eftir hæstaréttarlögmanni að ótvírætt væri að slík nefnd bryti ekki gegn lögum. Fyrir okkur leikmennina sem aðeins höfum setið hér á þinginu í þrjá daga virðist þetta mál óskiljanlegt. Greinilega hefur það mikla þýðingu fyrir marga á þinginu enda var loftið rafmagnað þegar það var til umræðu. Það verður spennandi að fylgjast með því hvernig málið kemur úr nefnd.