Uppgjör við lok kirkjuþings

Mynd: Árni Svanur Daníelsson

Við göngum inn í safnaðarheimili Grensáskirkju þar sem kirkjuþingmenn sitja svipbrigðalausir er forseti þingsins ber mál undir atkvæði, þau eru þreytt, ætli þau séu í raun að hlusta? Vélrænt lyfta þau hægri hönd er forseti spyr „hverjir eru samykkir“, aðeins hinir djörfustu kunna að vera á móti, en djörfungin virðist farin úr flestum.

Nú er farið að síga á seinnihluta kirkjuþings, komið fram á sjötta dag, búið að afgreiða öll mál úr nefndum og seinni umræða gengur hratt. Jafnvel of hratt, er eðlilegt að 26 mál séu afgreidd á einu bretti? Hér sjást þingmenn inná flugfelag.is að breyta bókuðum flugum eða að reyna að ná síðustu vél heim. Hugurinn er við það komast héðan, klára málið og sleppa í frelsið.

„Það má velta því upp hvort að það sé heppilegt fyrir lýðræðislegt hlutverk kirkjuþings að málin séu afgreidd á færibandi á síðasta degi…“

Kirkjuþing er æðsta stofnun Þjóðkirkjunnar. Hér eru allir þreyttir á sálu og líkama og hlakka til þess að þingstörfum ljúki. Það er létt kæruleysi í fólki, svona eins og þegar maður hefur vakað heila nótt og galsinn tekinn yfir skynsemina. Það má velta því upp hvort að það sé heppilegt fyrir lýðræðislegt hlutverk kirkjuþings að málin séu afgreidd á færibandi á síðasta degi til þess að þinginu ljúki sem fyrst. Þingmenn sitja á sér að koma með breytingartillögur og tjá hug sinn svo að þeir tefji ekki afgreiðslu mála, að því urðum við vitni.

Þegar kosið var í starfsnefndir undir lok þings var í raun og veru heimild til þess að fundarmenn gerðu athugasemdir við þær tillögur sem forseti las upp, hann spyr „gerir einhver athugasemdi við það“ – varla er gefin hálf sekúnta til þess að grípa orðið heldur fylgir „svo er ekki“ strax á eftir. Kannski er þetta viðtekin afgreiðsla á málum og kannski hafði enginn tillögur að breytingum en þetta virtist frekar hamlandi og koma í veg fyrir að nokkur tæki til máls. Er hér einnig sá bragur á málum að verið sé að flýta allri meðferð svo að fólk komist heim sem fyrst.

Þetta vekur margar spurningar, ein er hvort að það liggi einfaldlega of mikið fyrir kirkjuþingi, væri hægt að útdeila verkefnum á einhvern hátt svo að þingið tæki fyrir færri og afmarkaðri mál? Kannski er það ekki lausnin. Svo er spurning hvort að kirkjuþing þyrfti að koma oftar saman en einusinni á ári? Þetta eru aðeins vangaveltur.

 

Kirkjuráð
Mynd: Árni Svanur Daníelsson

Kirkjuráð

Nýtt kirkjuráð, framkvæmdavald kirkjunnar, var kosið í morgun. Í því sitja sem fulltrúar leikamanna Svana Helen Björnsdóttir og Stefán Magnússon, sem fulltrúar vígðra sr. Elínborg Gísladóttir og sr. Gísli Gunnarsson. Virðist þetta vera vel skipað kirkjuráð en hefur það vakið umræðu að þar séu landsbyggðarfulltrúar í meirihluta, annað kjörtímabilið í röð. Þetta er þó í fyrsta skipti sem konur eru í meirihluta í kirkjuráði og er það ánægjuleg þróun.

Í lögum um Kirkjuþing og kirkjuráð segir: „Kirkjuráð þjóðkirkjunnar er skipað fimm mönnum, biskupi, sem er forseti þess, og fjórum mönnum, tveimur guðfræðingum og tveimur leikmönnum“.

„Því veltum við því upp hvort kirkjuráð gæti verið skipað fjórum óvíðgum einstaklingum?“

Fyrir utan kynjað orðfæri vakti það athygli okkar að það er mjög óljóst hverjir hafi tök á að bjóða sig fram til kirkjuráðs. Það er ósætti um það hverjir séu taldir guðfræðingar. Hefðbundin skýring er að guðfræðingur sé einstaklingur sem lokið hefur embættisprófi í guðfræði, en á síðustu árum hefur það einnig verið viðurkennt að þeir sem lokið hafa BA gráðu í guðfræði séu kallaðir guðfræðingar. Vígsla er í hið minnsta ekki skilyrði fyrir því að kallast guðfræðingur. Því veltum við því upp hvort kirkjuráð gæti verið skipað fjórum óvíðgum einstaklingum?

Eins er staða djákna óljós í þessu samhengi. Ef embættispróf er grundvöllur þess að vera álitinn guðfræðingur hafa djáknar hvorki möguleika á að sitja kirkjuráð sem guðfræðingar né leikmenn. Ef BA gráða í guðfræði er grundvöllur þess að vera guðfræðingur þá er einnig aðeins hluti djákna sem kallast gætu guðfræðingar þar sem hægt er að hljóta djáknaréttindi með 60 eininga diplómanámi. Samkvæmt hefðinni eru kosnir tveir prestar og tveir óvígðir í kirkjuráð. Það má velta því upp hverjir séu útilokaðir frá því að gegna embætti kirkjuráðsfulltrúa og hvort að það sé ekki þörf á að kirkjuþing taki þetta til umræðu á næsta þingi.

 

Afgreidd mál.

Starfsreglur um val og veitingu prestsembætta, þ.e. nýja ráðningarferlið fyrir presta var afgreitt á þann veg að kirkjuráð sendir málið til umsagnar til héraðsnefnda, prestafélags Íslands og annarra er málið varðar, og kirkjuráð feli löggjafarnefnd að vinna úr umsögnunum og leggja niðurstöður sínar fyrir kirkjuþing 2015. Ægir Örn Sveinsson bað um að hugað yrði að því að víglsa yrði ekki eins afgerandi þáttur við mat á hæfni umsækjenda og nú er. Hann gagnrýndi að vígslan virkaði sem hlutdeild í samtryggingu þeirra útvöldu og tók sr. Gísli Gunnarsson undir orð Ægis. Var hann sammála því að vígslan ein og sér ætti ekki að hafa eins mikið vægi og nú við veitingu embætta.

Nýjar starfsreglur um kosningu biskups Íslands og vígslubiskupa er stórt og mikið mál sem lá fyrir kirkjuþingi. Í raun voru þrjár útgáfur á starfsreglum lagðar fyrir þingið, ein þeirra gerði ráð fyrir kosningu í þremur lotum þar sem allir skráðir meðlimur þjóðkirkjunnar fengu að kjósa í síðustu lotunni um biskup Íslands. Var ákveðið að löggjafarnefnd fengi að hafa málið til vinnslu fram á næsta ár og leggja fram tillögu um málið á kirkjuþingi 2015.

Það gefst varla rými til að fjalla um öll þau mál sem samþykkt voru þó að mörg þeirra hafi vægi og verðskuldi umræðu. Lang flest voru afgreidd án umræðu eða mótmæla, það er spurning hvort að þingmenn séu svona rosalega sammála og ánægðir um úrvinnslu mála eða hvort að þeir nenni einfaldlega ekki að lengja dvöl sína hér í Grensáskirkju lengur en þörf krefur.

 

Að fylgjast með kirkjuþingi var ánægjuleg og forvitnileg lífsreynsla. Á þinginu sitja góðir fulltrúar sem allir hafa hag kirkjunnar fyrir brjósti. Að forminu til virðist þó sem að ýmislegt mætti bæta hvað framkvæmd þingsins varðar. Það eru mörg mál sem liggja fyrir og skammur tími til að afgreiða þau svo álag á þingmenn er mikið.  Þingsköp gætu verið skýrari og örlítið nákvæmari kannski, svo þurfi minna að túlka þau.

Undanfarnir dagar hafa verið langir en lærdómsríkir. Það er virkilega fróðlegt að fylgjast með störfum þingsins því þar er verið að fjalla um atriði sem skipta  kirkjuna og guðfræðinema verulegu máli en fæst þjóðkirkjufólk hefur nokkra þekkingu eða skilning á. Við komum aftur á næsta þing, það er öruggt!