Eru hér kennd trúarbragðafræði?

Trúarbragðafræði í Háskóla Íslands? – eftir Elínu Pjetursdóttur

Árið 2008 ákvað Háskóli Íslands að bjóða upp á túarbragðafræði sem aðalgrein til BA náms. Ég hef ákveðið að bera saman trúarbragðafræðina sem kennd er við Háskóla Íslands við þá trúarbragðafræði sem kennd er í háskólum erlendis, þá aðallega í Harvard  og Oxford. Mér er spurn hvort trúarbragðafræðin sem kennd er hér heima sé raunverulega trúarbragðafræði? Til þess að svara þeirri spurningu geri ég samanburð á þeim kúrsum sem eru í boði hér og svo erlendis og velti einnig upp þeirri spurningu hvort trúarbragðafræðin eigi að vera kennd að öllu leyti í guðfræðideild Háskóla Íslands.

Í sambærilegu námi erlendis er lögð áhersla á að nemandinn fái yfirsýn yfir öll helstu trúarbrögð heimsins, þ.e.a.s. kristni, gyðingdóm, islam, búddisma, hindúisma og önnur fjölgyðistrúarbrögð svo sem gríska eða norræna goðafræði, afrísk trúarbrögð eða trúarbrögð S-Ameríku. Með því að fræðast um þessi ólíku trúarbrögð sem spretta upp á ólíkum stöðum og á misjöfnum tímum á nemandinn að geta bent á líkindi trúarbragða svo og mismun þeirra. Nemandinn á að kunna skil á sögulegri og samfélagslegri þróun trúarbragða jafnt og sögulegu og samfélagslegu hlutverki þeirra. Með þessu móti eru trúarbrögðin, og fólkið innan trúarbragðanna, skoðuð utan frá. Það er átrúnaðurinn sjálfur sem er skoðaður en ekki er verið að velta upp þeirri spurningu hvort guð sé til líkt og gert er í guðfræði. En lærir nemandi í Háskóla Íslands þessa hluti? Er honum boðið upp á nægilegt magn af trúarbragðafræðikúrsum og er fjallað um öll þau fjölbreyttu trúarbrögð sem trúarbragðafræðingur þarf að kunna skil á?

Í trúarbragðafræði við Háskóla Íslands er afskaplega lítið framboð af trúarbragðafræðikúrsum og ég geng svo langt að segja að ekki sé nema einn trúarbragðafræðikúrs kenndur í guðfræðideild Háskóla Íslands. Það eru þó örfáir kúrsar í boði sem ekki eru fullkomlega kristnimiðaðir, það eru: Trúarbragðasaga, Trúarheimspeki, Kynverund, siðfræði og samfélag, Nýtrúarhreyfingar,Trúarstef í kvikmyndum og að lokum Inngangur að almennum trúarbragðafræðum en sá síðastnefndi er einmitt sá kúrs sem ég tel vera hinn eina eiginlega trúarbragðafræðikúrs. Samtals eru þessir kúrsar 38 einingar sem er tæpur þriðjungur af þeim 120 einingum sem nemandi þarf að ljúka til að hafa trúarbragðafræði sem aðalgrein til BA gráðu og ekki nema tæpur fjórðungur af allri BA gráðunni, því nemandinn þarf að taka aðra grein sem aukagrein. Hversvegna held ég því fram að Inngangur að almennum trúarbragðafræðum sé eini trúarbragðafræðikúrsinn sem guðfræðideildin býður upp á? Það er vegna þess að hinir kúrsarnir eru einnig fyrir guðfræðinema, upphaflega hugsaðir fyrir guðfræðina og eru því með þeirra fókuspunkt og áherslur en ekki trúabragðafræðilegar áherslur sem eru talsvert ólíkar þeim guðfræðilegu. Ekki nóg með það að þeir séu fáir, kúrsarnir sem í boði eru fyrir trúarbragðafræðinema, heldur virðast helstu trúarbrögð heimsins, islam, búddismi, gyðingdómur og hindúismi hafa gleymst.

Í erlendum háskólum læra trúarbragðafræðinemar um einmitt þessi trúarbrögð. Að sjálfsögðu læra þeir heilmikið um kristin trúarbrögð en hafa ber í huga að islam, gyðingdómur, búddismi og hindúismi eru mjög útbreidd trúarbrögð og skilningur og þekking á þeim skiptir engu minna máli en þekking á kristnum trúarbrögðum, enda gengur trúarbragðafræði einmitt út á að kunna skil á sem flestum trúarbrögðum til þess að skilja hina ólíku menningarheima. Í öðrum háskólum er lögð mikil áhersla á hin austurlensku trúarbrögð (islam, búddisma og hindúisma) sem er mjög eðlilegt bæði vegna þess hversu útbreidd þau eru og vegna þess að austurlensk trúarbrögð eru að mörgu leyti ólík þeim trúarbrögðum sem flestir Evrópubúar alast upp við. Þekking á austurlenskum trúarbrögðum skiptir trúarbragðafræðing því gífurlegu máli bæði til þess að öðlast dýpri skilning á ólíkum trúarbrögðum og átrúnaði og til þess að skilja ólíkan menningarlegan bakgrunn fólks. Það er svo spurning hvort kúrsar um austurlensk trúarbrögð eiga heima í guðfræðideild en sumir háskólar hafa leyst það með því að kenna islam, búddisma og hindúisma með austurlenskum fræðum. Aðrir háskólar hafa farið þá leið að kenna guðfræði og trúarbragðafræði í “divinity schools” þar sem guðfræði og trúarbragðafræði er gert jafn hátt undir höfði.

Trúarbragðafræði í Háskóla Íslands er eingöngu kennd í guðfræðideild og það er óhætt að segja að þar sé trúarbragðafræði og guðfræði ekki gert jafn hátt undir höfði. Í ljósi þess að guðfræðideild Háskóla Íslands útskrifar ennþá presta, ólíkt því sem tíðkast erlendis, leyfi ég mér að efast um að deildin sé nógu akademísk þegar aðalmarkmið hennar er að útskrifa presta. Sú hugleiðing verður þó að bíða betri tíma enda erum við hér að velta því fyrir okkur hvort Háskóli Íslands bjóði upp á nám í trúarbragðafræðum.

Nemendur í guðfræðideild Háskóla Íslands hafa ekki möguleika á að kynna sér hin ýmsu trúarbrögð heimsins, sem telst grunnforsenda trúarbragðafræða erlendis. Að auki eru kúrsarnir sem í boði eru annaðhvort kristnimiðaðir eða sniðnir að guðfræðinámi og því hlýt ég að setja spurningamerki við að trúarbragðafræði sé kennd í guðfræðideild, alltént eins og guðfræðideild er starfrækt í dag. Mér finnst Háskóli Íslands fara heldur frjálslega með staðreyndir þegar hann segist bjóða upp á trúarbragðafræði til BA náms og efast jafnvel um að skólinn geti sagst bjóða upp á trúarbragðafræði sem aukagrein þegar aðeins er boðið upp á einn kúrs sem sniðinn er að þeirri námsleið. Í ljósi þessara upplýsinga verð ég því að svara því svo til að ekki sé kennd trúarbragðafræði í Háskóla Íslands.

Í ljósi þeirra slæmu fjárhagsaðstöðu sem Háskólinn Íslands er í nú í dag þykir mér borðliggjandi að hann muni ekki auka við kúrsa eða bæta nám í trúarbragðafræðum að öðru leyti í bráð. Því skora ég á Háskóla Íslands að taka trúarbragðafræði út úr kennsluskrá hjá sér enda er þar ekki kennd trúarbragðafræði.

Með kærum kveðjum til fyrrum samstúdenta minna – ykkar Elín

ath. varðandi vafamál/spurningar sem þessar mætti vitanlega spyrja jón 🙂

Heimildir

https://ugla.hi.is/kennsluskra/index.php?tab=nam&chapter=namsleid&id=010200_20096

https://ugla.hi.is/kennsluskra/index.php?tab=nam&chapter=namsleid&id=013001_20096

http://www.ox.ac.uk/admissions/undergraduate_courses/courses/theology_and_oriental_studies/theology_and.html

http://www.hds.harvard.edu/cswr/about/index.html

http://www.hds.harvard.edu/cswr/events/theme.html

http://www.ox.ac.uk/admissions/undergraduate_courses/courses/theology_and_oriental_studies/theology_and_1.html

http://www.ox.ac.uk/admissions/undergraduate_courses/courses/theology_and_oriental_studies/theology_and.html

http://en.wikipedia.org/wiki/Religious_studies

http://www.bristol.ac.uk/thrs/