Enn er morgun, Böðvar. Hrifla dr. Hjalta

Enn er morgunn

Enn er morgunn eftir Böðvar Guðmundsson er að formi til ættarsaga. Höfundurinn sjálfur gefur upp boltann að samlíkingu við Buddenbrooks fyrstu skáldsögu Thomasar Mann (1875–1955) frá 1901. Sagan hefst umhverfis sporöskjulagað eikarborð hjá „Evu ömmu“ að morgni nýársdags. Þar eru borðuð linsoðin egg, steikt beikon og nýbakað brauð og Benjamín Andrésson, sögumaðurinn í þessum hluta sögunnar, er örlítið timbraður. 379 blaðsíðum síðar situr Knudsensfjölskyldan enn við þetta sama borð – eða þau sem nenntu að koma. Það er deilt um dægurmál og sjálfsmynd þjóðar: „Eru nýbúar sem eiga heima í Reykjavík ekki Reykvíkingar?“ „Og engir ungir Reykvíkingar nýbúar?“ (6) „Já, hverjir eru góðir Íslendingar?“ (7) Hverja eru forsætisráðherrarnir alltaf að ávarpa á gamlaárskvöld? Átakalínurnar liggja milli sr. Jóns, nývígðs bróður sögumanns, og aldna húmanistans Theódórs Knudsen á aðra hlið en Laufeyjar þingkonu Íslenska þjóðernisflokksins á hina. Hún skellir allri skuld af óeirðum nýársnætur  á „útlendingana“. (383) Nýársmáltíð Knudsenanna myndar þannig ramma um söguna og umræðuefnið vísar inn að miðju hennar.

Glæst fortíð Kundsenanna er að baki. Gestgjafinn sem nú gegnir hlutverki ættmóður er Eva Jóhannesdóttir Kohlhaas Knudsen. Í henni er ekki „einn einasti blóðdropi frá Ara fróða eða öðrum bústólpum. Hún er dóttir Önnu Láru Kundsen sem var ýmist hálfsystir eða frænka allra þeirra íslenskra embættismanna og spekinga sem heita Knudsen og hafa verið ráðherrar og prófessorar og stöðvarstjórar og útgerðarmenn og skáld svo lengi sem elstu kerlingar muna.“ (13) Enda hafði hún verið skírð Knudsen líkt og móðir hennar sem átti með réttu að skrifast Sørensen. Búið er að selja ættarheimilið, Húsið við Tjörnina. Eini tengiliðurinn við gullöldina er Theódór, sá síðasti sem ber nafn ættarinnar, dr juris, fyrrum prófessor og Háskólarektor, „ráðgjafi ótal ríkisstjórna til hægri og vinstri, sem veit svo margt sem aðrir ekki vita“, nú gamalmenni með eggjarauðu, fitu og bláberjasultu á hálsbindinu. (15) Hann leiðir sögumann, ættingja hans og okkur, lesendur Böðvars, inn í fortíð Knudsen-ættarinnar, uppfræðir um „ræturnar“ en aðalsögumaður hefur verið forfallinn ættfræðingur frá því hann var tólf ára og Theódór gaf honum Heimskringlu í afmælisgjöf, öll þrjú bindin. Þar vöktu ættartölurnar hann til vitundar um hvernig greinar ættartrésins hríslast. Ættfræðiáhuginn á sér þó tilvistarlegri skýringu. Það hafði nefnilega orðið hefð í fjölskyldunni „að konurnar eignist börnin með útlendingum“. (9) Sjálfur er sögumaður ekki Andrésson með réttu heldur Andersson, afkomandi „ófrjálsra nýbúa“, „bandarískur Afríkunegri að einum fjórða og Svíi að einum fjórða“ að eigin sögn. (8) Deilan um nýbúana grípur því langt inn í kviku ættarinnar. Hver er hún þegar hér er komið sögu? Hvert liggja „ræturnar“, „rætur“ Knudsenanna og okkar „góðu Íslendinganna“ sem forsætisráðherrarnir biðja Guð að blessa?

Þegar frásögunni vindur fram kemur í ljós að Enn er morgunn er ekki aðeins ættarsaga heldur er þar sögð saga Íslands og Evrópu fyrir og um seinna stríð. Langamman, Anna Lára, og Theodór, yngsti hálfbróðir hennar, höfðu verið í Berlín í ársbyrjun 1933 og orðið vitni að þinghússbrunanum sem var liður í valdatöku nasista: hann lagastúdent og öllum hnútum kunnugu í borginni; hún örvingluð og í upplausn eftir að slitnað hafði upp úr sambandi hennar og dansks málara. Á kaffihúsi hitta þau fyrir tilviljun „ungan, ljóshærðan mann með blá augu og rómverskt nef“, vin Theódórs. (89) Í kuldanum og mannþrönginni við Brandenborgarhliðið lánar hann Önnu Láru „gljásvarta og silkimjúka leðurhanska sína sem hún þáði með þökkum.“ (91) Önnur samskipti eiga þau ekki vegna tungumálavanda og aðstæðnanna. Þetta er Jóhannes Kohlhaas „bakarinn frá  Chemnitz … Sem kennir brúnstökkunum að syngja.“ eins og Theódór kynnir hann fyrir systur sinni. (89) Einum fjórum árum síðar drepur hún á dyr hans á leiguherbergi í Reykjavík „dálítið feimin, dálítið óörugg“ og skilar honum þessum sömu hönskum. (180) Hann er þá hingað kominn á flótta undan sömu nasistum og hann hafði áður slegið taktinn fyrir, búinn að endurnýja kynnin við Theódór Knudsen og hasla sér völl sem tónlistarmaður. Eftir það liggja leiðir þeirra saman — um hríð. Þetta eru tvær aðalpersónur sögunnar þegar upp er staðið. Ættarsagan er því fremur form en inntak bókarinnar.

Jóhannes þessi Kohlhaas er fyrirferðarmikill í sögunni frá upphafi, tekur stöðugt meira pláss eftir því sem henni vindur fram og tengir saman sögu Knudsenanna og hildarleikinn sem háður var í Evrópu í seinni heimsstyrjöldinni. Í þætti hans er Theódór sögumaður og í bókarlok er skammt í skriftamál Jóhannesar sjálfs fyrir „Evu ömmu“, dóttur sinni, sem vitjaði hans á unglingsárum til að kynnast „rótum“ sínum líkt og Benjamín sögumaður í rammafrásögunni. Í raun má líta á Jóhannes sem drifkraft í sögunni. Hún byrjar sem lygn og ljúf, góðlátleg og húmorísk ættarsaga en verður hrjúfari, snarpari, harðari, harðari og spennuþrungnari eftir því sem á Jóhannesar þátt Kohlhaas líður. Helst það í hendur við sögusvið og atburðarás sögunnar. Það er líka umhverfis persónu og örlög Jóhannesar sem flestar tilvistarspurningar sögunnar vakna.

Þrátt fyrir ljóst hár, blá augu og nef með rómverskum boga er Jóhannes Kohlhaas hálfur gyðingur, skírður til rómversk-kaþólskrar trúar og alinn upp af föður sem er yfirlýstur sósíalisti ef ekki kommúnisti. Vegarnesti hans inn í Þriðja ríkið er því ekki hið hagstæðasta og tákn þess er eini ættargripur fjölskyldunnar sem María Glaßschleifer móðir hans, gyðingurinn, gefur honum að skilnaði er hann heldur út í hinn stóra heim að búa sig undir að verða organisti við kirkju heilags Jóhannesar Nepomuks í Chemnitz. Það er „gullhringur með sexhyrndum, bláum steini sem var felldur inn í sexhyrnda stjörnu úr hvítagulli“ og „passaði fullkomlega á litlafingur vinstri handar.“ (66–67)

Í Berlín kemst Jóhannes fljótt í snertingu við Flokkinn, fær flokksskírteini númer 197.852 án umsóknar, leggur af hringinn með gyðingastjörnunni og tekur að kenna Hitlers-æskunni að syngja. Þarna stendur hann á tímamótum og efasemdirnar takast á í huga hans. Niðurlæging þýsku þjóðarinnar, sóknarhugur nasista og gylliboð á aðra hönd; gyðinglegur uppruni, sósíalísk mótun, kaþólsk trú og eigin samviska á hina. Jóhannes er einstaklingur sem stendur frammi fyrir vali og ákveður að láta berast með straumnum.

Eftir það ræður hann litlu um tilveru sína. Lífi gyðings með flokksskírteini nasista upp á vasann er alls staðar ógnað. Hann hrökklast frá Þýskalandi um Kaupmannhöfn til Íslands, dvelur þar um stund og á meðan gefst okkur innsýn í líf Þjóðverja í Reykjavík misserin fyrir hernám. Eftir það er hann tekinn höndum, er fangi Breta í Stornoway, látinn laus í skiptum fyrir þýska flugmenn, lendir í lest með öðrum gyðingum á leið til Oswiecim sem þýskir kalla Auswitz, kemst undan og hrekst um Austur–Prússland þar sem hann örlög hans og Agnesar Straube fléttast saman. Í stríðslok stendur Jóhannes aftur frammi fyrir vali: Hvora á hann að velja Önnu Láru sem hefur allt eða Agnesi sem hefur ekkert? Val hans veldur því að hann hverfur út úr sögu Knudsenanna en lætur eftir sig sár og spurninguna:  Hver var hann í raun? — Velur hann rétt eða leggur á flótta „með skottið milli fótanna“? (381) Um það takast þau á í bókarlok hann og Eva dóttir hans. Þess hljóta lesendur líka að spyrja sig. Enn er morgunn er ágeng saga áður en yfir lýkur.

Frá ákveðnum bæjardyrum séð er Enn er morgunn vægðarlaus siðfræðistúdía um ábyrgð einstaklings undir samfélagslegum þrýstingi, sem og spurninguna um það hvað sé tryggð og hvað séu tryggðarof? Til hvers leiðir krafa kærleikans?

Hjalti Hugason

Lokaorðin í Enn er morgun eru lögð í munn húmanistanum og góðmenninu Theódór Knudsen: „Jú, jú… auðvitað ert þú forvitinn um þínar rætur. Það er í tísku nú um stundir og það er líka ágætt að þekkja ræturnar. En saga Önnu Láru systur minnar og Jóhannesar gæti líka verið holl fyrir þá sem hafa tilhneigingu til að dæma hart.“ (384)

Í því sambandi er við hæfi að minnast orða þess sem sagði:  „Dæmið ekki svo að þér verðið ekki dæmd. Því að með þeim dómi, sem þér dæmið, munuð þér dæmd verða og með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður mælt verða.“ (Matt 7. 1–2)