Auður Vilborgar – hrifla kórstýru vorrar

Í tilefni af tilnefningum til Íslensku Bókmenntaverðlaunanna höldum við áfram umfjöllunum um tilnefndar bækur…

Ritdómur um bókina Auður

Höfundur: Vilborg Davíðsdóttir

Útgefandi: Mál og menning

Útgáfuár: 2009

Ein af fjölmörgum jólabókum þessa árs er skáldsagan Auður, eftir Vilborgu Davíðsdóttur. Eins og orðið er einkenni skáldsagna Vilborgar er sögusvið verksins lífið á norðurslóðum á fyrri öldum: titilpersóna verksins er engin önnur en Auður djúpúðga, landnámskona í Dalasýslu með meiru, og umfjöllunarefnið fyrri hluti ævi hennar.

Sagan fjallar um ævi Auðar frá því að hún er ung kona í foreldrahúsum, og þar til hún eignast sitt fyrsta barn. Mjög lítið er til af heimildum um ævi Auðar, og Vilborg semur þess vegna í eyðurnar útfrá því litla sem talið er víst, eins og hún útskýrir sjálf í eftirmála bókarinnar. Við upphaf sögunnar er Auður ákveðin ung kona, komin á giftingaraldur á eynni Tyrvist. Koma hins unga munks, Gilla, kemur róti á líf eyjarskeggja, ekki síst Auðar – sem lætur að lokum skírast hjá honum ásamt systur sinni, Jórunni. Samskipti Auðar við Gilla valda miklu fjaðrafoki á  heimili hennar, sérstaklega í ljósi þess að hún hefur verið lofuð höfðingjanum Ólafi hvíta, og skuli flutt til hans til Dyflinnar sem hluti af samkomulagi milli hans og föður hennar.

Trú, trúskipti og árekstur trúarheima eru eitt aðalstef skáldsögunnar. Auður er alin upp við norræna goðatrú, en lifir þó í samfélagi þar sem kristin áhrif eru farin að segja til sín. Hún tekur trú og er þar með orðin kristin, a.m.k. að nafninu til. Þó heldur hún enn í ýmsa heiðna siði og trúarhugmyndir; ekki er víst nákvæmlega hvaða ástæður liggja að baki því að hún lét Gilla sannfæra sig um að taka skírn. Mikið er um átök milli þessara tveggja trúarheima, kristins og heiðins, sem eru að mestu leyti átök milli þræla og húsbónda. Kristindómurinn er þekktur sem trú þræla og veiklundaðra, og litið niður á hann af húsbóndunum, sem aðhyllast trú sem hampar þeim sterku. Auður lendir í ýmsum vandræðum vegna þessarar trútöku sinnar, og það af báðum bógum – sem kristin aðalskona ætlast kristin trúsystkini hennar, sem eru hneppt í þrældóm, til að hún leysi þau úr honum, þar sem það sé ekki kristilegt að halda þræla. Ólafur, eiginmaður hennar, og hirðfólk hans, gagnrýna hana hinsvegar fyrir að fylgja þessum útlendu þrælatrúarbrögðum, og hún lendir í töluverðri mótstöðu vegna þeirra. Einnig virðist hún sjálf ekki viss hvar hún stendur trúarlega – hún játar kristni, en vonast jafnframt eftir velþóknun norrænu goðanna.

Annað sterkt þema bókarinnar eru átökin sem áttu sér stað á Bretlandseyjum á þessum tíma. Auður er stödd mitt í átökum ekki aðeins milli trúarbragða, heldur einnig milli þjóðflokka. Keltar, Írar, Danir og Norðmenn takast allir á um land, hvort sem það er Írland, Bretland eða eyjarnar þar í kring. Bretland tók geysilegum breytingum á þessum tíma, og það kemur fram í skáldsögunni – munkaklaustur rísa þar sem áður voru haldin blót, menn vinna land með miklum mannfórnum, og tapa því síðan aftur í næstu orrustu, og samningar sem gerðir voru milli manna í gær ógildast í dag þegar aðstæður eru orðnar aðrar, með hefndarafleiðingum. Auður er því stödd í heimi sem litast ekki aðeins af trúardeilum, heldur einnig blóðugum átökum manna um land og völd.

Skáldsaga Vilborgar er vel skrifuð, og greinilegt að hún þekkir vel til þess efnis sem komið er úr sérsviði hennar, fornsögu Norðurlanda; fyrir þann sem ekki kann sögu Auðar djúpúðgu og ættartal hennar orð fyrir orð er ómögulegt að sjá hvað sé komið úr sögunni og hvað uppfinning Vilborgar. Hún virðist þó vera minna á heimavelli þegar kemur að sögu Bretlandseyja – þar má oft sjá á ritblæ sögunnar hvort umrætt atriði sé komið frá Vilborgu eða heimildum hennar. Auður sjálf er skrifuð sem viðkunnanleg persóna sem lesandinn tengist auðveldlega, og raunsæ – ekki of “nútímavædd” í hugsun miðað við þann tíma sem hún lifði á, en þó ekki gólftuska sem hver sem er getur gengið yfir. Aðrar persónur eru margar, en koma skemur fyrir, og ná hugsanlega þess vegna ekki að verða jafn þrívíðar og Auður. Helst er að Gilli munkur standi uppúr af aukapersónunum, sem trúheitur ungur maður en jafnframt mennskur, og breyskur eftir því; hann er engan veginn alheilagur þó hann reyni að vera það. Ólafur hvíti situr lítið eftir í minni miðað við hversu mikilvæg persóna hann er í sögunni. Skáldsagan er reyndar ekki mjög grípandi í upphafi, þar sem það er svolítið erfitt að sjá af byrjuninni hvert höfundur er að fara með hana, en þegar ákveðin átt er komin á söguþráðinn (átök trúarbragðanna, hjónaband Auðar og Ólafs, átökin milli þjóðflokkanna) verður hún þó öllu meira grípandi, og verður spennandi lesning. Gaman hefði verið að sagan kæmist lengra með ævi Auðar; sagan endar við stór þáttaskil í ævi hennar, og það hefði verið spennandi að vita meira. Lesandi verður að geta sér þess til hvernig Vilborg hugsi sér að Auður komist úr þeim aðstæðum sem hún lýkur sögunni í yfir í það hlutverk sem hún er hvað best fyrir – landnámskona á Íslandi. Auður er enn langt frá því tímabili ævi sinnar þegar skáldsagan skilur við hana.

Það er alltaf ákaflega spennandi að lesa skáldsögu eftir höfund sem er greinilega að skrifa um efni sem hún þekkir mjög vel og hefur sjálf brennandi áhuga á. Auður er slík skáldsaga, eftir hæfileikaríkan höfund sem hefur mikla þekkingu á þeim norrænu heimildum sem hún fléttar skáldsöguna að mestu leyti úr. Sagan sjálf er heillandi þegar hún kemst af stað, og það væri gaman að sjá meira skrifað um Auði en það stutta sem kemst í þessa bók.

-Þóra Ingvarsdóttir.