Hvað rennur upp um nótt?

„Til ykkar í startholum sáðrásanna.“

Frá endastöð til upphafsstaðar.

(Formáli – fyrir þá sem ekki vita að Ísak Harðarson er íslenskt, lifandi og módernískt trúarskáld)

Ísak Harðarson hefur sent frá sér nýja bók, en sjö ár eru nú liðin frá útgáfu bókarinnar ‘Hjörturinn skiptir um dvalarstað’ (2002).  Árin þar á undan voru Ísaki gjöful; hann gaf út ljóðabækurnar Stokkseyri (1994) og Hvítur ísbjörn (1995) (auk útgáfu á ‘ský fyrir ský’: ljóðasafn 1982-1995); játningasöguna ‘þú sem ert á himnum, þú ert hér!’ (1996) og sína fyrstu skáldsögu árið 1999,  ‘Mannveiðihandbókin’. Í þessum bókum má segja að alger andhverfa birtist við upphafsstef skáldferils Ísaks, sem einkenndist af mikilli efahyggju, gagnrýni á borgarsamfélagið og jafnvel guðlasti (þó sumir vilji greina í fyrstu verkum hans mjög ríka trúarþörf).  Ég mun ekki dvelja við trúarstefin eða þróun þeirra á ferli Ísaks hér, en minni á bók Andra Snæs „Maður undir himni“ sem fjallar um ‘trúarstef í verkum Ísaks Harðarsonar’ og kom út árið 1999.  (Grein sem unnin er uppúr því verki af AS Magnasyni má nálgast hér (smá brot fyrir guðfræðinema á fyrsta ári…)

„En eftir að hafa lesið Ræflatestamentið eiga menn líklega í erfiðleikum með að trúa því að sami maður semji þessar línur í Stokkseyri, án íróníu: ,,Ó þessi prestur,/ hann er ekkert skáld – hann yrkir/ bara sannleikann.”

Í seinni tíð teljast menn fyrst orðnir brjálaðir þegar þeir tala opinberlega um trú sína, það þykir ekki samrýmast frjálsri hugsun. En það eru fleiri vandamál á ferðinni. Hvernig á að ávarpa Guð eða yrkja um hann þegar nánast allt trúarlega tungumálið er ofnotað og merkingarlaust eða útþvælt af mærð og orðin eru klístruð af helgislepju? Hvaða merkingu hafa orð eins og synd, miskunn, náð og almáttugur? Við eigum gríðarlega sterka trúarlega hefð í ljóðlist en trúin í ljóðum hvarf með ríminu. Nútímaljóðið hefur alltaf verið form efa, spurnar og trúleysis. Í hinni órímuðu hefð eru nánast engin trúarljóð til að taka sér til fyrirmyndar. Vilji menn aftur á móti efast eða trúa alls ekki má finna fjöldamörg ljóð eftir okkar bestu skáld sem tjá efann.

Það er merkilegt að með því að trúa er Ísak í rauninni í hálfgerðri andstöðu við samfélagið og jafnvel í andstöðu við lesendahópinn. Hann tekur í rauninni meiri áhættu með því að yrkja um trúna. En trúarlegar pælingar gegnsýra allar bækur Ísaks og trúin og leitin að henni virðist helsti drifkratur skáldsins.“ (AS í nefndri grein)

Í stuttu máli má rifja upp að ákveðinnar ‘transitionar’ gætir í bókinni frá 2002, nafnið gefur hana til kynna, og hin opinskáa Guðstrú og Kristsákallið (t.d. í Mannveiðihandbókinni) verður innhverfara og náttúrutengdara en í bókunum þar á undan. Við sjáum t.a.m. úr ljóðinu sem bókin hlýtur nafn sitt af:

„sendu upp bæn

og þú munt heyra
og sjá hann

ó, gullinn og geislandi
Guðhjörtinn sjálfan
með glósól á hornum sér. “

Með þessari tilvitnun á ég við að um ákveðin tengsl við germanskan og/eða norrænan goðheim er að ræða með Hjartar-tákninu, sem almennt stendur annars fyrir hina ‘göfugu’ sál.  Kannski var hin kristna heimsmynd að víkja fyrir jarðtengdari Guðdómi, einhverskonar almennt orðuðu Æðra afli.  Það var alla vega ljóst að einhverskonar umbreyting var að eiga sér stað, kaldhæðni fyrsta tímabilsins í ljóðagerð hans var horfin en hlýjan sem opinberaðri Guðstrú (lesist „kristilegu árunum“) fylgdi hafði umbreytt hinum kalda meitlaða stíl, að einhverju leyti, í hinn ‘klassíka’ móderníska tón sem mannvinirnir og vinstrimennirnir höfðu dvalið við; minnti jafnvel á Snorra Hjartarsson á stundum.

En víkjum nú að nýju bókinni:

Rennur upp um nótt.

Það lætur ekki mikið yfir upphafsþakkarorðum Ísaks í fyrstu: „öll orðin sýnast miklu raunverulegri en þau eru í raun” – en þegar líður á lestur bókarinnar er hollt að rifja þau upp.  Bókin opnar annars á upphafsljóði, sem má kalla nokkurskonar ‘bæn’ eða ákall, þarsem skáldið biður risahönd Guðs að skrifa með sér – og miðla frekar ljósi en myrkri – um leið og hann lýsir þeirri von að hann muni þó finna fró í því, þó enginn lesi, rétt einsog enginn hafi lesið það sem „sjálfur sonur þinn” skrifaði í rykið.  Hefst þá fyrsti þáttur verksins: Fyrirsjáanleg blinda.  Fyrsta ljóð bókarinnar, Endastöð, kallast á við lokaljóðið Upphafsstaður og rammar ferðalagið inn, en að nokkru má þó einnig segja að lokaljóðið kallist á við einhverskonar ‘hringtímahugsun’ hvað varðar skáldferil Ísaks í heild.  Hann vísar til sín „á sama stað og ég lagði upp/ fyrir rykmekki af árum” – En ekkert hefur breyst, það sé eina (eina) breytingin.

Af orðunum má þá marka að einhverskonar nýtt upphaf sé um að ræða, frá sjónarhóli skáldsins, jafnvel í víðara samhengi en því að þessari ‘stöku bók’ sé lokið.  Það er að minnsta kosti hugmynd – að þessi hringrás sem varpað er fram kallist á við ‘niðurstöðu’ fyrstu bókar skáldsins, þar sem ort er um ‘hamingjuleitina’ í ljóðinu Þriggja orða nafni:

Þú getur leitað allt í kringum jörðina
en þú kemur alltaf að sjálfum þér aftur
og þar er svarið:

Vegurinn til Sunnuhlíðar
liggur gegnum hjarta þitt”
(s.89-90)

Á skáldferli Ísaks hefur trúarþörf og –hneigð alltaf verið viðloðandi, í fyrstu sem skorinorð og spámannleg birtingarmynd ‘trúleysis’, sem síðan ‘sefast’ með árunum og verður að heimullegri lofgjörð fyrst, síðan fullvissri trú sem vísar til kristins arfs og táknmynda hans.  (Í fyrrnefndri grein Andra Snæs Magnasonar tilgreinir hann ákveðin ljóð úr bókinni Hvítur Ísbjörn sem fullkomnustu módernísku trúarljóð sem ort hafa verið á íslensku.)

Er Kristur hér?

Í bókinni Rennur upp um nótt er þó óhætt að segja að Kristur/Guð komi enn við sögu í áhrifamiklum, jafnvel gróteskum myndum, sem setja má í tengsl við hápunkta ‘kristilega’ tímabilsins hjá Ísaki.  Þar er um óhemju sterkar og manneskjulegar myndir af frelsaranum að ræða, í ljóðum einsog Óhagganlegt (s.39) og Bróðir Júdas (s.90), en um leið eimir í öðrum ljóðum af kaldhæðni áttunda áratugarins (sem rímar jú við ‘vora tíma’) í hendingum einsog „Já, góðir fávitar, þið neitið því ekki/ að við erum sammála um að aukinn hagvöxtur/ er það sem allt snýst um/ og að til þess dó Jesús að feðgarnir í Baugi/ og Landsbankanum mættu ríkja á markaðnum/ og tryggja okkur um eilífð hin hagstæðustu kjör” (s.32).  Guð birtist aftur á móti í fjölbreytilegum myndum, þekkt Guðs(-)vísun í skáldheimi Ísaks er t.d. ‘himininn’ (jafnvel sem hundur enda Dog / goD), og því má kalla viðbrigði þegar ‘Einhver’ – sem virðist ókunnugur skáldinu stígur ‘þungt til himins’ í samnefndu ljóði (s.37) og þeim möguleika er varpað upp að hann „skelli aftur hurðinni/ og [skilji] myrkrið eftir/ dimmara og kaldara en nokkru sinni fyrr.”  En það er semsagt, ef svo má segja í samhengi bókarinnar, það sem er næst á dagskrá:

Verði Myrkur!

Undirtitill annars hluta bókarinnar, Verði Myrkur, er (á vit hins undursamlega) en eins og með aðfararorð bókarinnar þá líður manni einsog þar sé um glettna heimspeki að ræða, einsog svo oft má finna í ljóðum Ísaks.  Maður hefur þó ekki lesið nema tvö til þrjú þeirra 15 ljóða sem í þessum hluta bókarinnar er að finna, þegar manni er orðið ljóst að svona hefur Ísak aldrei áður skrifað, ef þá nokkuð skáld íslenskt – og fengið útgefið – og steingleymir nefndri setningu (um orð sem ekki eru eins raunveruleg og þau virðast) og undirtitlinum.  Maður fer satt best að segja á bólakaf.  Einlægnin er nístandi, myrkrið botnlaust, tilgangsleysið og vonleysisleg óskhyggjan birta manninn í sinni nöprustu mynd: Hér er ekkert háfleygt eða fallegt á ferðinni – en óhemju satt.

Tilbrigðin við ‘lýsingar á nánasta umhverfi’ – þekkt minni í listum allt frá því að mynd Van Gogh’s af vinnustofunni sinni og skónum komu fram – varpa ljósi á mann sem ekki virðist ‘skáldaður’ á neinn hátt, ekki búa yfir vitrunum, reynslu eða snertingu við nokkurn Guðdóm, ‘a God-forsaken-creature’ ef sletta má.  Hér birtist okkur maður (Ecce Homo) sem hefur engan stóra sannleik trúarinnar að boða, enga birtu að ylja sér við, hann fálmar um veikar vonir og er bersýnilega líka mjög veikur á stundum – fantasían – einhver klikkun hefur tekið völdin þarsem Ólafi Ragnari bregður fyrir á strönd Paradísar með vínberjaklasa á höfðinu (s.60) – enda skáldið á ferð á vit hins undursamlega…

Það eru einu tengslin í lífinu, Jesús og börnin, sem hafa forðað honum frá örþrifaráði eymdarinnar, þessu skari sem heldur varla hægðum, þráir klausturlíf á Patmos – veltir grísku eða hebreskunámi í Háskólanum fyrir sér, en gugnar – og síðast en ekki síst, er farinn að tala um geimlendingarpallana á Akrópólis; þessu skari fylgjum við í gegnum myrkrið.  Og það er ansi sárt.

Ég hitti mann sem hafði gluggað í bókina í búð, og einmitt lent, eins og verða vill, á miðjukaflanum.  Sá var orðlaus.  Hann hafði aldrei séð neitt þessu líkt á prenti, hvað þá frá tja, ‘Frelsuðum Ofurtöffara’ – eða hvaða myndlykil sem nota ætti um þetta aumkunnarverða en stórgóða skáld okkar, Ísak Harðarson.  Og ég skírði málið fyrir honum, þetta hafi verið rosalegur kafli – en maður verði að lesa til enda.  Og ég vík mér þá að lokum í örfáum orðum að síðasta kaflanum, sem er tær og fallegur – hann talar jafnvel fallega um borgarsamfélagið (sem er fáheyrt)!  Þriðji hlutinn er samnefndur bókinni, Rennur upp um nótt, og fjallar um dapurlega en friðsæla sýn á manninn sjálfan og hlutskipti hans.  „Ég hlakka til/ þegar ég verð svona rólegur/ eins og þú// að haf og himinn renna/ saman í eitt“ (s.76) – segir skáldið, og jafnframt á meðal annarra fallegra mynda af döguninni (sem rennur upp um nótt) fullyrðir hann „-að við erum vegurinn sem lífið fetar!“ (s.89)  Samræmi hefur verið náð.

Óþarfi er að tína til ‘spekikorn’ úr texta Ísaks, þau eru á sínum vísu stöðum í þessari bók – og jafnvel í meira magni en í síðustu verkum – og leyfi ég því væntanlegum lesendum að njóta þeirra uppgötvana á eigin vegum.  Aftur á móti vil ég, um leið og ég lýsi bókina kjarkmestu bók hins annars mjög svo hugaða skálds um langa hríð, víkja að lokum að uppgjörinu við trúartímabilið, eða Krist/Guð sem ég hef raunar tæpt á undir rós.  Ég held að eftirfarandi ljóð klári það mál.

Bróðir Júdas

Vér maðkar

Júdas minn,

faðmur Guðs er negldur opinn,

ást hans og hjarta blóðnegld opin

fyrir menn eins og þig,

fyrir menn eins og mig,

fyrir rústaða menn sem geta engu trúað

og síst af öllu að til sé ást

nógu sterk fyrir maðka eins og þá.

Júdas bróðir,

hjarta Guðs er neglt upp á gátt

– við smjúgum þar inn!

borum okkur inn

í myrka og blóðuga óvissuna

troðumst inn

– og flögrum út

úr púpunni drengur!

Út

í sólbjarta græðandi víðáttu… (s.90)

Ég klykki því bara út með “Magnað verk” – “Sjö Stjörnur” og þeirri staðhæfingu að verkið eigi ekki bara við alla presta, djákna og prestsefni nú um stundir – heldur og hvern þann hugsandi kristna mann sem kannast við efa og myrkur trúarlífsins rétt eins og þá undursamlegu dögun sem finna má í faðmi Guðs og hans galopna hjarta.

Jú – svo er þetta líka skyldulesning fyrir alla Vantrúarmenn.

Ást og friður.

P.S. Þessi bóka rýni er og jólakveðja ritstjórans til dyggra lesenda – Góðar stundir og gleðileg jól.

Arnaldur Máni Finnsson