A Guided Tour: Sturlunga – jólahrifla dr. Hjalta

Sturlunga a guided tour

– Óskar Guðmundsson, 2009: Snorri. Reykjavík, JPV.

Einn af ávöxtum nýliðinna veltiár voru hinar stóru ævisögur. Hvert stórverkið rak annað og svo virtist sem höfundar og útgefendur teldu sig sýna sögupersónunni sérstaka óvirðingu ef bækurnar voru ekki annað tveggja mörg hundruð síður eða bindin fleiri en eitt. Hrun og kreppa hefur ekki bundið enda á þessa tísku. Í flóðinu í ár má nefna Jón Leifs, Ragnar í Smára og svo auðvitað Snorra sem hér verður lítillega vikið að. Í flestum tilvikum leyfði efnið auðvitað að skrifuð væri stórvirki. Hitt er annað mál hvort verkin urðu alltaf betri í réttu hlutfalli við þykktina. Í sumum tilvikum hefði mátt fá mun læsilegri bók með skarpari ritstjórn og niðurskurði. Lesendum er ekki alltaf gerður greiði með því að freista að segja söguna alla og hvenær er sagan öll?

Bókin um Snorra sver sig svo sannarlega í flokk með hinum stóru ævisögum. Hún fyllir heilar 528 bls. og er því sannkölluð stórbók. Eru þá tilvísanir aftanmáls. heimildaskrá, myndaskrá og nafnaskrá með taldar. Fullum stöfum heitir verkið: Snorri; Ævisaga Snorra Sturlusonar 1179–1241. Verkið skiptist í prologus og þrjá meginhluta sem síðar mynda alls 60 „þætti“. Margir þættir eru merktir sérstöku ári eða skömmu árabili en verkið er í byggt upp á krónólógískan hátt. Oft bera fleiri en einn þáttur sama ártal og í undantekningartilvikum skortir slíka afmörkun. Þeir virðast því hugsaðir sem þematískir kaflar. Á hinn bóginn virðist ekki alveg ljóst hvað veldur skiptingu í meginhluta. Hefði mátt skýra frá því í prologus. Það er alltaf til hjálpar við lestur að þekkja vel burðarvirki verks ekki síst ef það er jafn viðamikið og stórvirkið um Snorra.

Að lestri loknum leitar sú áleitna spurning á huga þess lesanda sem hér lætur hugann reika hvort í raun og veru sé um ævisögu að ræða. Vissulegar er Snorri, líf hans og örlög, rauður þráður í verkinu en verður það þar fyrir ævisaga? Sé svo er það þriðji og síðasti hluti bókarinnar sem bjargar því inn í ævisagnakategóríuna. Þar er til að mynda að finna þáttinn „Maðurinn Snorri til að sjá – eða innræti og útlit mannsins“. Í mínum huga er persónan eða einstaklingurinn Snorri Sturluson furðu óskýr og ókunnur eftir lesturinn. Eiginlega er það synd vegna þess að höfundurinn virðist þekkja hann svo vel og sjá hann í svo miklu skýrara ljósi en a.m.k. ég náði af lestri verksins. Víða er laumað inn brotum af mannlýsingu, persónueinkennum, skapgerðarþáttum eða -brestum, veikleikum og styrkleikum. Oft er þetta að vísu gert án fullnægjandi dæma eða tilvísana þótt lýsingarnar þurfi þó ekki þar fyrir að vera ótrúverðugar. Óskar hefur jú umgengist Snorra lengur og nánar en flestir aðrir núlifandi Íslendingar! Þó hefði til dæmis mátt rökstyðja hugmyndina um gigtarsjúkdóm Snorra örlítið betur. Heita vatnið úr Skriflu nægir tæpast í því sambandi.

Sannast sagna virðist verkið fyrst og fremst dálítið „strúktúreruð“ og stytt samantekt á Sturlungu eða eigum við að segja leiðsögn um vafninga Sturlungaaldarinnar þar sem Snorri er einn af helstu spunameisturunum. Verkið ber enda mörg sömu merki og Sturlunga. Í því eru margir útúrdúrar, flókin atburðarás og um fram allt aragrúi persóna sem skýtur upp kollinum. Nafnaskráin ein fyllir 17 blaðsíður! Lausleg áætlun bendir til að nefndir séu á 12. hundrað einstaklinga til sögunnar (að vísu nokkur nöfn nútímafræðimanna). Hugsanlega þarf allan þennan fjölda til að gera grein fyrir ævi Snorra út frá einhverjum bæjardyrum séð. Þessi mannfjöldi gerir verkið þó ekki auðlesið og veldur því að oft hvikar sjónarhornið frá aðalpersónunni. Þetta sýnir að verkið sver sig í ætt við Sturlungu.

Verkið um Snorra virðist fyrst og fremst vera persónuhverf atburðasaga þar sem Snorri vissulega er aðalpersónan. Hann er þannig frekar speglaður í atburðum samtíðar sinnar en til að mynda samfélagi Sturlungaaldar eða menningu tímabilsins. Hér og þar er komið inn á þetta umhverfi Snorra en aldrei í þeim mæli að heildstæð sýn fáist. Óskar beitir aðferð hins glaða sagnamanns en ekki greinandi aðferð fræðanna. Því skýtur það dálítið skökku við að í umfjöllun um Reykholt, höfuðból Snorra, er tíðum notað hugtakið kirkjumiðstöð sem er síð-tuttugustualdarlegt greiningarhugtak sem  fellur illa að stíl verksins.

Hugsanlega teymir frásagnaraðferðin og stíllinn höfundinn frá ýmsum einkennum og meinum þess samfélags sem Snorri var hluti af. Gjarna er fjallað er um frillulífi og hjákonur Snorra og annarra höfðingja samtímans eins og um rómantísk ef ekki erótísk ástarsambönd hafi verið að ræða. Svo kann að hafa verið í einhverjum tilvikum. Miklu oftar var þó um niðurlægingu og hlutgervingu kvenna að ræða. Þær voru notaðar sem peð í valdatafli þess tengslasamfélags sem hér var við lýði. Í því gat frillan og jafnvel eiginkonan verið tengiliður milli ætta eða einstaklinga sem auðvelt var að skipta út fyrir aðra þegar hagsmunir eða valdajafnvægi kröfðust. þessu máli gegndi einnig um börn. Er dvöl Snorra sjálfs í Odda gott dæmi um það.

Að mínu mati verður að líta á stórvirkið um Snorra sem þéttofinn frásagnarheim, fullan af atburðum og persónum sem er heillandi fyrir þann sem gengur inn í hann í þeim tilgangi að fræðast um atburðarás Sturlungaaldar án þess að treysta sér til að ráðast á Sturlungu sjálfa án undirbúnings. Bók Óskars er hins vegar kjörinn undirbúningur undir það.

Hjalti Hugason