Umræðan um aðskilnað ríkis og kirkju.

Í umræðu síðustu daga hafa komið fram tvær megin skoðanir sem mér hafa lengi verið hugleiknar; annarsvegar að í sekúler-þjóðfélagi felist réttlæti í því að íslenska kirkjan sé trúfélag á opnum markaði – hinsvegar að kristið trúarlíf muni væntanlega blómstra (lesist: verða meira áberandi) þrátt fyrir að meðlimunum fækki, þegar af aðskilnaðinum verður.  Íslenska Þjóðkirkjan verður alltaf Þjóðkirkja (Folk-Church) á sama hátt og menningarsaga hennar gefur vitnisburð um, þar sem allir þeir sem til hennar sækja fá þjónustu burtséð frá skráðri aðild. Hún er ev.lútersk kirkja sem starfar á þeim þjóðfélagslega grunni að sinna þjóðinni fyrst og fremst.  Venjulega þýðir það um leið að styggja ekki hið sekúleríseraða ríki, eins og hefð hefur orðið fyrir hér á landi með því að forsvarsmenn trúfélagsins skipta sér ekki opinberlega af pólítískum málefnum, nema kannski ef keyrir um þverbak.  Þessum skoðanamótandi áhrifum á þjóðfélagið hefur kirkjan afsalað sér með samningum við Ríkið, um leið og þeim grunni sem uppihald trúarlífs í landinu hafði staðið á, landeignunum, var komið fyrir í sameign þjóðarinnar.  Þegar þessir samningar voru gerðir, nánast um leið og við fengum Heimastjórn (1907), var því heitið að eignirnar stæðu undir kirkjulífi almennings og trúarbragðakennslu um alla framtíð.  Síðan þá hefur margt breyst.

Kirkjulíf almennings er ekki það sama – og þekking á trúarbrögðunum er orðið að mun flóknara mengi.  Hitt er þó ljóst að það sem við köllum trúarbrögð, siði og andlega hluti snýr að innra lífi einstaklingsins og sálrænni velferð, fyrir utan hinn samfélagslega ramma menningarinnar sem kristnar hátíðir marka.  Ég leyfi mér að fullyrða að boðun trúarinnar er hvorki í fyrsta né öðru sæti hjá íslensku Þjóðkirkjunni, hvort sem fólki líkar það betur eða verr.  Að þjóna fólki kemur fyrst og síðast.

Í því mengi sem trúarbragðakennslan er í nútímasamhengi má vera ljóst að þjónar kirkjunnar eru ekki þeir félags-og mannfræðingar sem við þurfum til að efla trúarbragðakennslu í skólum landsins, sem er forsenda þess að í sekúler-þjóðfélagi hafi fólk þekkingu á kjarna hinna ýmsu trúarbragða.  En andstæðingar trúarbragða eru heldur ekki rétta fólkið til að kenna börnum um gildi trúarbragðanna og möguleg áhrif þeirra á eigið líf.  Siðfræðinga þarf að kalla til þess, heimspekinga.  Og um þann innblástur sem trúin getur gefið, skáld og myndlistarfólk þarf til að veita börnum – og fullorðnum – innsýn í þann þátt trúarbragðanna á heimsmenninguna.  Og þegar áföll dynja yfir og manneskjurnar, stórar og litlar, þurfa samfylgd og stuðning, jafnvel drög að svörum við hinstu spurningum, erfiðustu flækjum tilvistarinnar, dugar þá sálfræðingur?  Geðlæknir kannski.  Sekúler-inngrip tæknihyggjunnar, lyfin?  Er ekki presturinn oftast að reyna vera einhverskonar blanda af þessu öllu?

Í gegnum tíðina hafa hlutverk læknisins og prestsins aðgreinst, en voru vissulega eitt í öldungnum, heimspekingnum og töfralækninum, í ættbálkasamfélögum fortíðar.  Trúin er stundum andlegt lyf, græðir mein og vísar veg, styrkir í sorg og jú upplyftir líka á gleðistund.  Og þá má kannski skoða innihaldið, hvað er í þessu lyfi.  Er þetta bara opíum, sefjandi og ávanbindandi en um leið svo verkjastillandi að í samhengi læknisfræðinnar og myndlíkinganna er trúin hreint út sagt ómissandi?  En hvað gerist nú ef lyfjaeftirlit ríkisins hefur ekki umsjón með dreifingu opíums, það er bara þarna og nota bene hin lyfin öll líka þá, á opnum markaði?  Fer þá ekki sannleikurinn að verða í forgrunni, einhver stóri og eini sannleikur, útskúfun og innlimun, lögmálið og einsýnin?  Og já, þá fara þeir nú að verða meira áberandi trúarfíklarnir á strætunum.

Mín spurning er þessi: Get ég samþykkt að „hvaða trúarsamkundu sem er“ sé afhent Dómkirkjan í Reykjavík, Hallgrímskirkja, Akureyrarkirkja; gott ef ekki helstu kennileiti hvers einasta bæjarfélags á landinu?  Viljum við einhverskonar vakningar-kristindóm hoppandi og sprellandi út um allt land; beinharða tíund og fjarlægan dómharðan Guð sem skiptir öllu í rétt og rangt?  Auðvitað er það auðveldara fyrir prestinn ef allir sem koma í messu eru ofur-trúaðir, segja bara Halelúja og Amen og bíða dómsdags með þeim.  En þess krefjast prestar Þjóðkirkjunnar ekki og skíra, ferma og gifta með hátíðleika og gleði, hvort sem fólk trúir eða ekki.  Og þeir grafa hvern einasta mann með virðuleik og viðhöfn, þó allir í kring gætu allt eins verið þess fullvissir að viðkomandi einstaklingur fari beint til helvítis.  Og það finnst mér best.

Það sem ég á við er að Þjóðkirkjan er og á að vera menningarstofnun fyrst og síðast og þarf að sinna hlutverki sínu á þeim forsendum.  Finnist fólki of mikið í hana lagt þá verður að skoða það, en þá er mikilvægt að það sé utanaðkomandi aðili eins og ríkisvaldið sem hafi valdboð til að gera athugasemdir um innri mál hennar.  Í dag er aðskilnaðurinn slíkur að ríkið getur engin áhrif haft á kirkjuna utan þess að halda aftur sóknargjöldum (sem er raunar skattlagning sem hvergi tíðkast) því samningar ríkis og kirkju um launamál presta standa.  Að rifta þeim samningum mun kosta mikið upphlaup.  Athygli má þó vekja á því að í þeim samningi er talað um 18 starfsmenn á skrifstofu Biskups, í stjórnsýslunni semsagt, en þar vinna nú um 60 manns.  Margt má laga innan þessarar stofnunar og hún gapti ískyggilega við góðærinu, auk þess sem hún hefur ekki sýnt siðferðilegan styrk og framsýni að mati þorra þjóðarinnar.  En þá er líka næsta mál á dagskrá að taka þátt í starfi hennar, svo hún geti sýnt þann styrk og fylgt þeirri sýn sem við höfum um hana; því við eigum þessi hús, Dómkirkjuna, Hallgrímskirkju, Akureyrarkirkju, og hvað þær nú allar heita.  Við eigum þessi hús og þar starfa prestarnir í okkar umboði og þó þeir séu þjónar Guðs þá er Guð ekki þeirra frekar en okkar.  Umboðið og húsið, eins og trúin, er okkar.  Nýtum það allt til góðs.

Drottni til dýrðar. – Arnaldur Máni Finnsson