Orðið á prenti – 2011 – vorheftið

Um ofmat, vanmat – símat og endurmat.

Forspjall ritnefndar.

Heiðraði lesandi!

Það ku einfaldast að vera heiðarlegur, því þá þarf ekki að leggja á sig það að muna hverju maður hefur logið.  Þetta forspjall mun taka mið af þeim fornu sannindum án þess þó að gera lesandanum erfitt fyrir með vangaveltum um tilvistarvanda Orðsins per se.  Samanburðurinn við hvítan karlmann á 46.aldursári er þó ekki fjarri lagi – en það er ekki mat núverandi ritnefndar sérstaklega, heldur augljós staðreynd ef útgáfusagan er skoðuð.  Frá og með 30.árgangi sem út kom árið 1995, hefur útlit og stærð ritsins að mestu haldist og má segja að hafi gengið upp til ársins 2002, en eins og hollvinir ritsins þekkja hefur aðeins eitt rit litið dagsins ljós síðan þá – þar til nú.  Kannski má segja að vongóðir nemendur hafi reist seinni tíma mönnum hurðarás um öxl, þar sem viðmiðið var ansi vígalegt, en hitt er að síðan þá hefur óháð fræðilegt rit um guðfræði, Glíman, haslað sér völl auk þess sem deildin hefur lagt sífellt meiri metnað í ritröð Guðfræðistofnunar  Studia Theologica. Þessu aukna framboði á guðfræðiritum – fyrir utan hina sítyggjandi hít internetsins – hefur Orðið ekki getað staðist snúning á þessum fyrsta áratug 21.aldar sem liðinn er.  En sú tilraun sem lítur dagsins ljós í dag er vonglöð og veit á gott, enda fylgt úr hlaði með góðum óskum.  Ef að gamni er gert mætti segja að hið fornkveðna eigi við, því öllu gamni fylgir nokkur alvara.  Orðið ber með sér vonglatt sprikl og ætlaðan ferskleik í núverandi mynd.  Með kápunni og þessu forspjalli verður reynt að undirstrika að í flóru guðfræðirita ætli Orðið sér að vera fagnaðarerindreki; skemmtilegt, ungt í anda og Guð gefi að það viti á vor.

Í yfirstandandi vinnslu ritsins hefur verið brugðið á ýmsar nýjungar.  Gerð hefur verið tilraun til að víkka svið Orðsins út á lendur internetsins, þó ekki undir þeim formerkjum að leggja hina prentuðu útgáfu niður heldur til þess að bæta aðföngin þar sem sífellt hefur hallað á nemendur þegar að útgáfu kemur.  Vissulega væri mögulegt að prenta í sífellu prédikanir, úrdrætti BA-og MA-ritgerða, ásamt með einu og einu skemmtilegu viðtali, en á þessum síðustu tímum er aðgengi að öllu slíku svo gott að það væri hálfvegis kjánalegt.  Spurningin liggur í því hvort að ritið er sagnfræðilegs eðlis, gefi mynd af hverju ári í lífi félags og deildar, eða hvort það er guðfræðilegs eðlis.  Í stuttu máli má segja að tilraun til útvíkkunar standi enn yfir, lénið www.ordid.hi.is er virkt og hefur að geyma lítilræði af því efni sem inn dróst í þessu átaki til efnisöflunar.  Brugðið var á að gagnrýna bækur árið 2009 og láta stundlegar hugleiðingar nemenda , einstaka frambærilega ritgerð, viðtal og því um líkt, birtast þar og kanna viðbrögðin á meðal nemenda.  Þau hafa vissulega verið næsta lítil, það er að segja tilraunin hefur ekki leitt af sér það að nemendur gefi sig að ritnefnd og bjóði fram efni sitt, ellegar að kennarar ýti þannig á nemendur að frambærilegustu ritgerðir hvers námskeiðs  skili sér fram fyrir almenningssjónir.   Sú ákvörðun að hin prentaða útgáfa skyldi endurspegla „rjómann“ af því efni sem skilaði sér í  þessari tilraun hefur því verið lögð til hliðar og það efni látið standa sem áminning um yfirstandandi tilraun, enda sumt af því miklum mun fremur ætlað „netheimi“ heldur en prentuðu fræðitímariti.  Ein grein í þessu riti myndi þó teljast til afraksturs tengdum þessari tilraun, enda um viðamikla og greinargóða fræðilega ritrýni að ræða, um hina margrómuðu útgáfu ársins 2009 á Ummyndunum Óvidíusar.

Þegar umfjöllun um þetta ofmat ritnefndar á áhrifum netsins sleppir má impra á hinu landlæga vanmati nemenda á eigin efni, sem telja má ástæðu þess að útgáfa Orðsins hefur verið svo endaslepp síðustu árin.  Þetta vanmat er óþolandi með öllu og hlýtur að stafa af þeim samanburði sem uppi er við hin áðurnefndu ritin tvö – auk þess sem enn fleiri rit starfa á þeim grundvelli að kalla eftir efni frá hinum aðilunum sem mögulega gætu annars verið að skila efni í ritið; en það eru Kirkjuritið og Bjarmi.  Öllum þessum ritum óskum við blessunar, eins og við óskum þess að nemendur nái eyrum þeirra sem skipta þau máli með hinum nýrri fjölmiðlunarleiðum sem bjóðast, en hefð og heiður deildarinnar hlýtur að liggja í því að einhverju marki að láta ekki þetta ágæta rit daga uppi á þröskuldi nýrrar aldar.  Velvilji fyrrum nemenda deildarinnar er augljós og tengist saga margra því að hafa á sínum tíma átt sinn þátt í útgáfusögunni.  Það er þess vegna sem nýrri aðferð mun beitt að þessu sinni við dreifingu ritsins, til þess að reyna tryggja útgáfugrundvöll þess.  Allir starfandi prestar á landinu munu fá eintak sent heim og valkvæðan greiðsluseðil í heimabanka.  Þeir sem greiða seðilinn munu svo fá næsta eintak sent með sama hætti, en það kemur út í haust.  Greiði einstaklingur sem sagt ekki, jafngildir það uppsögn, en viðkomandi eintak túlkist þá sem gjöf frá hinu forna félagi.  Sótt var um styrki til þess að reyna þessa aðferð sérstaklega og er hér með komið á framfæri þökk til Kjalarnes-og Borgarfjarðarprófastsdæma fyrir veittan stuðning.  Skili hinar hóflegu greiðslur sér fyrir hvert eintak má ætla að ákveðinn „áskrifendagrunnur“ sé fyrir hendi sem og grunnupphæð til að hefja vinnslu næsta heftis.  Þessi vinna hefur oft verið hið hulda og erfiðasta starf hverrar ritnefndar, að tryggja dreifingu ritsins.  Fæst rit glíma og við þann vanda sem háir í tilviki Orðsins, en það er að ritnefnd hverfur oftast frá í heild sinni eftir hvert hefti.  Það vantar með öðrum orðum samfellu og styrka leiðbeiningu, kunnáttu og reynslu, til þess að grundvöllurinn sé tryggur.  Núverandi ritnefnd vill leggja sitt af mörkum til að breyta þessu með tvíþættri aðgerð.  Annars vegar hefur hún dregið nokkuð af efni þessa rits út til frekari vinnslu, í stað þess að fresta útgáfunni og heitir því að gefa næsta rit út á haustmánuðum ársins 2011.  Hins vegar mun hún leggja fyrir aðalfund Fisksins 2011 tillögu þess efnis að deildarfundur Guðfræði-og trúarbragðafræðideildar leiti allra mögulegra leiða til þess að tengja þá vinnu sem á bak við útgáfu ritsins er, hagnýtum greinum innan sviðsins (s.s. miðlun og útgáfa) svo að þeir nemendur sem taka að sér ritstjórnina geti skilað Orðinu af sér í tengslum við viðkomandi grein.  Þar með yrði sú vinna bæði vegin og metin af utanaðkomandi aðilum sem með tíð og tíma gæti leitt það af sér að Orðið öðlaðist viðurkenningu sem ritrýnt rit, sem og að verkefnið væri námslánahæft.  Þar með væri vinnan við Orðið ekki eingöngu viðbót við fullt nám nemenda, heldur væri vinnan við ritstjórn þess raunar spennandi og eftirsóknarvert tækifæri.  Hvort hér er um ofmat eða vanmat á aðstæðum og sveigjanleika deildarfundar að ræða verður tíminn að leiða í ljós, en vissulega er þessi vinna svipuð því sem fólgið er í allri annarri „hagnýtri útgáfu“.  En að efni þessa rits og ástæðum.

Þegar hátíðarár í Háskóla Íslands var í vændum í tilefni af 100 ára afmæli hans var ákveðin drift sett í útgáfumálin og það rit sem stefndi í síðastliðið haust slegið af, enda um nokkuð ósamstætt efni að ræða.  Ákveðið var að á tímamótum þyrfti til þema og ærin ástæða þótti að samskipti deildar og kirkju yrðu í brennidepli.  Sjálfsskoðunar væri þörf sem og greiningar á því hvaða nemendur væri hér um að ræða og hverjar skoðanir þeirra væru.  Því var blásið til könnunar á viðhorfum nemenda til deildarinnar annars vegar en kirkjunnar hins vegar en til að niðurstöðurnar yrðu ekki einungis túlkun á fræðilegum grundvelli var blásið til samræðu valinna guðfræðinga til að fjalla um niðurstöðurnar.  Því miður voru formlegir ágallar á framkvæmd hennar svo að þrátt fyrir ágætt svarhlutfall miðað við virka nemendur í deildinni þótti það ekki standast fræðilega skoðun að birta niðurstöður hennar auk þess sem að virkilegir ágallar urðu á þeirri samræðu sem fram fór í kjölfarið.  Á því tekur ritstjórinn fulla ábyrgð, en vísar í göfugan tilgang og þá staðreynd að stundum verður að framkvæma einhverja hluti til að koma ferlinu af stað.  Örlögum þess verkefnis má líkja við margt sem einn daginn er á döfinni en kemur að litlum notum þegar fram líða stundir.  Nauðsynlegt er þó að minnast slíkra tilrauna og læra af þeim í stað þess að þegja það í hel sem misheppnast.  Um könnunina verður fjallað á aðalfundi Fisksins en blásið til nýrrar samræðu á öðrum forsendum en þeim sem sú fyrri hvíldi á.  Aftur á móti þá sankaðist að það efni sem styðja átti þessa samræðu, auk þess sem leyfi fékkst fyrir því að birta grein sem byggir á rannsókn á reynslu útskrifaðra guðfræðinema sem akkur er að.  Efnið sem fyllir fyrsta hluta ritsins, Deildin & Kirkjan, er því af þessari rót sprottið og skýrir sig að mestu sjálft.  Við þökkum öllum þeim sem að könnuninni, samræðunni og vinnslu hennar, sem og þeim sem brugðust við beiðnum okkar um að skrifa stutta pistla um valin svið tengd efnistökum könnunarinnar, kærlega fyrir.  Um leið vonum við að það sem þar kemur fram kveiki hugmyndir hjá lesendum að efni til að miðla okkur í haustheftið, því það er sannarlega einfaldara að biðja um efni sem tengist sögu deildar og kirkju, viðhorfum til frum – og símenntunar presta, sambandi ríkis og kirkju sem og stöðu trúarbragðafræðanna í dag, á þann hátt – heldur en að ganga á eftir hverjum og einum með það að miðla efni um það sem allir hafa skoðun á.  Eva Björk Valdimarsdóttir og Þorbjörn Hlynur Árnason eiga sérstakan heiður skilinn fyrir að ramma þennan hluta ritsins inn með viðameiri greinum.

Af vettvangi fræða er annar hluti ritsins og er haldið til haga á þennan hátt, með styttra efni inn á milli til íhugunar og uppbrots, í stað þess að dreifa jafnt um allt ritið eins og venjan hefur verið.  Fyrir það fyrsta má nefna öndvegisgrein prófessors Jóns Ma. Ásgeirssonar sem sprottin er af spurningum sem uxu hjá ritnefnd í kjölfar þess að dæma skyldi bók Marcus Borg, Jesú og Búdda, sem út kom nýlega í íslenskri þýðingu.  Kunnum við honum hugheilar þakkir fyrir þá miklu vinnu sem hann hefur lagt í það efni sem hann miðlar svo og nemendum að kostnaðarlausu.  Hins vegar er um ákveðin tilbrigði við stef að ræða hjá yngri fræðimönnum sem tengjast hugmyndum innan kristninnar um kyn og kyngervi.  Ritgerðir Elínar Lóu Kristjánsdóttur og Sigurvins Jónssonar skýra sig sjálfar, annars vegar um stöðu og hlutverk kvennaguðfræðinnar, hins vegar Jakob bróður Jesú og baráttuna við úreltar kynjamyndir í frumkristninni.  Dr. Arnfríði Guðmundsdóttur og Dr. Sigríði Guðmarsdóttur þökkum við og miðlun þess efnis sem þær létu okkur í té, sem og þeim Ólafi Gíslasyni og Kristjáni Val Ingólfssyni fyrir þær áhugaverðu þýðingar sem þeir gefa okkur kost á að birta.  Nokkuð af efni sem ætlað var þessum hluta hefur verið tekið út til birtingar í næsta hefti, m.a. vegna höfundarréttarmála sem og því að ritnefndin verður á hverjum tíma að taka afstöðu til þess hvort það efni sem einstaklingarnir innan hennar hafa áhuga á, eigi erindi inn í þá heild sem birt er hverju sinni.  Við þökkum og Ísak Harðarsyni og Sjón fyrir leyfi til að birta áður útgefið efni, auk myndlistarmannsins Davíðs Arnar Halldórssonar.

Þriðji og síðasti eiginlegi hluti ritsins er nokkurskonar sýnibók úr starfi deildarinnar.  Annáll stjórnar þessa árs og stutt frásaga af Rómarferð nemenda rammar efnið inn, en þar má finna prédikun síðustu 1.des messu, hugleiðingar um vanda ritgerðarsmíðanna auk annars skáldlegs efnis.  Þar var og skorið við nögl til þess að tryggja efnisöflun næsta rits, enda vill ritnefndin stuðla að því að hvert hefti sé í svo hæfilegri lengd að þeim sem á eftir koma vaxi ekki verkin í augum.  Aftur á móti þá viljum við að endingu koma sérstöku þakklæti á framfæri til umbrjótarans, Ólafs Jónssonar, sem lagði drög að hinu nýja útliti ritsins.  Fiskahreystrið á kápunni er einstaklega vel til fundið og hið einfalda abstraktverk sem prýðir forsíðuna.  Fyrir forvitna má upplýsa að hér er um leturgerð að ræða en ekki höfundarverk og er merking þessara kassalaga forma einföld og sjálfsögð, þarna stendur bara „ORÐIГ.  Brotið á ritinu, sem vefst fyrir sumum sem vilja koma því með viðlíka ritum í hillu, er að sjálfsögðu í gullinsniði og engin ástæða til þess að hrófla við lögum hvað það varðar, þó að á hátíðarári sé aðeins brugðið á leik.  Það er von okkar að að rit þetta verði vorboði í víðasta skilningi þess orðs og minnumst að endingu þess eins að kjörorðin ættu að vera: „Eitt sinn guðfræðinemi, ávallt guðfræðinemi.“                                                                                                                                                                                                                                         Ritnefnd Orðsins 2010-2011

Tags: