Almennur skilningur á biskupsvígslunni?

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu þann 27.febrúar 2012 og hét þar:

Af silkihúfum. (Greinin er viðbragð við grein Vilborgar Auðar Ísleifsdóttur Bickel – úr Morgunblaðinu fös. 13.febrúar)

Nú fer brátt að sverfa til stáls og fundahald að hefjast víðs vegar um land vegna fyrirhugaðs biskupskjörs í Þjóðkirkjunni (e. Evangelical Lutheran Church of Iceland).  Mörg telja sig kölluð og er það vel en um leið eru kandídatarnir misvel kynntir og haga kosningabaráttu sinni með ólíkum hætti.  Flest hafa með opinberum hætti lýst sig boðin og búin til að svara spurningum, taka þátt í hinu mikilvæga samtali sem á að fara fram um kirkjuna og vegferð hennar á meðal þjóðarinnar.  Hver veit; kannski mun þetta samtal eiga sér stað á þann hátt að þjóðinni finnist við sig talað, hitt er hvort raunin verður sú að biskupsefnin telji sitt hlutverk vera það að hlusta á þjóðina?  Enn hef ég ekki orðið þess var að „kirkjufólk“ láti í sér heyra almennt – með blaðaskrifum eða bloggi – hvert hlutverk þess sé í þessu samtali.  Og þó sérfræðingar setji fram álit með skeleggum hætti má ætla að á meðan séu hinir kosningabæru að skáka í skjóli valds og eigi frekar um það einslega við frambjóðendur hvort þeir fái eitthvað fyrir snúð sinn heldur en hvort álitsgjöf sérfræðings segi til um eitt eða annað.  Einhverjir telja að almenningur hafi lítinn sem engan áhuga á kjörinu.

 

Það er raunalegt til þess að hugsa að sú umræða sem nú er í uppsiglingu skuli fyrst og fremst beinast að því kjörfólki sem hefur atkvæðisrétt.  Það er og raunalegt að nú, þegar frambjóðendurnir hafa aldrei verið fleiri, skuli kostirnir raunar vera óskýrari en nokkurntíma áður.  Þess vegna er krefjandi spurninga þörf ásamt kröfunni um að frambjóðendurnir hafi skýra stefnu í nokkrum veigamiklum málaflokkum.  Það er nefnilega mikilvægt að kjörfólkið viti fyrir víst hvað hver og einn ætlar sér, að almenningur geti og tekið afstöðu til spurninganna sem biskupsefnin svara en síðast og ekki síst – að komi fram skýr almennur vilji þá taki biskupsefnin og kjörfólkið tillit til þess í þágu Þjóðkirkjunnar. Það er ekki seinna vænna en að almenningur, í ljósi kenningar lútersku kirkjunnar um almennan prestdóm, fari að varpa fram spurningum sínum.

Tengsl þjóðar og kirkju koma strax upp í hugann og sú hefð sem hefur haldist í ljósi meirihlutastöðu hins sjálfstæða trúfélags að kalla æðsta embættismann kirkjunnar Biskup yfir Íslandi.  Spurt er hvort það sé eðlilegt, er það réttlætanlegt gagnvart þeim sem ekki tilheyra trúfélaginu en síðan og ekki síst, er það mikilvægt í samhengi við sjálfsmynd hinnar evangelísk lútersku kirkju?  Hver er afstaða frambjóðendanna gagnvart því að bera þann titil – og í samhengi, er þeim mikilvægt að áfram standi í lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar að landið sé eitt biskupsdæmi?  Hinn kaþólski skilningur sem lagður hefur verið í vígslu (e. ordination) biskups gerir engan greinarmun á vígslubiskupum og biskupnum yfir Íslandi.  Staða þeirra er aftur á móti gjörólík þar sem embættisskyldur vígslubiskupa eru allar skilgreindar í ljósi hins eina sanna biskupsvalds þess biskups sem hefur starfsstöð í Reykjavík og er yfirmaður kirkjunnar.

Því er mikilvægtað bera á borð spurninguna um hlutverk sérhvers biskups; er þörf á þremur biskupum ef aðeins einn þeirra fer með eiginlegt biskupsvald?  Hvaða hlutverk hafa vígslubiskuparnir að mati þeirra sem nú bjóða sig fram til hinnar eiginlegu biskupsþjónustu – og ef hlutverk þeirra er of óskýrt, hvaða hlutverki ættu þeir þá að gegna í framtíðinni?  Þessar spurningar eru vitanlega sprottnar af umræðu um þörfina fyrir biskupsstóla á Hólum og í Skálholti.

Sjálfur er ég fylgjandi því að þar sitji biskupar en öðrum þykir að um „silkihúfu-embætti“ sé að ræða.  Þar er vísað til þess kaþólska siðar að biskupar beri annarskonar auðkenni á meðal presta í ljósi stöðu sinnar, t.a.m. silkihúfur.  Hinn lúterski kirkjuskilningur er margslunginn, sérstaklega í ljósi þróunnar síðastliðinna ára þar sem íslenska kirkjan hefur orðið aðili að alþjóðlegu samstarfi kirkna sem kennt er við Porvoo sáttmálann.  Aftur á móti er ekkert sem mælir á móti því að svæðaskipting landsins í biskupsdæmunum sé önnur en hefur verið við lýði síðan við lok 18.aldar.  Mikið hefur verið rætt um að nauðsynlegt sé að aðskilja hið veraldlega og hið andlega leiðtogahlutverk biskupsins í Reykjavík, biskupsins yfir Íslandi.  Það kann að verða heillavænlegast en jafnframt myndi þá bætast við enn einn „toppurinn“ í yfirstjórn kirkjunnar.

Þeirri spurningu má velta upp í þessu samhengi hvort ekki megi skilgreina upp á nýtt hlutverk vígslubiskupanna, sem nokkurskonar andlegra leiðtoga á sínum starfssvæðum á meðan hlutverk hins reykvíska biskups væri framkvæmdastjórn og veraldleg umsýsla kirkjustofnunarinnar.  Vissulega myndi slík tilhögun draga úr „umboði biskups“ til að vera andlegur leiðtogi þjóðarinnar og einhverskonar óljóst úrskurðarvald í siðferðilegum efnum.  Aftur á móti myndi um leið ábyrgð hinna biskupanna verða í meira samræmi við þau laun sem þeir fá greidd fyrir þjónustu sína við þjóðina.

Arnaldur Máni Finnsson

Post scriptum:

Þess má geta að sundurliðaðar spurningar greinarinnar voru settar inn á fésbókarsíðuna “Við kjósum okkur biskup”  http://www.facebook.com/groups/307062122687470/

Til einföldunar má láta þær fylgja hér:

Andleg leiðsögn þjóðarinnar / Ísland sem eitt biskupsdæmi?

Á Biskup Íslands að líta á hlutverk sitt sem andlega leiðsögn þjóðarinnar?

Í samhengi þessarar spurningar eru eðlilegar afleiður: Munt þú beita þér fyrir því að Ísland verði áfram eitt biskupsdæmi?

Ef já. I) Hvert er þá hlutverk vígslubiskupa á Hólum og í Skálholti? II) Hefur æðsti embættismaður sjálfstæðs trúfélags (ELCI) – Þjóðkirkjunnar – umboð til að gegna embættinu Biskupinn yfir Íslandi?

Ef nei; Hvernig sérð þú fyrir þér hlutverkaskipan á milli þeirra þriggja biskupa sem nú eru starfandi innan trúfélagsins?

 

Þann 29/2 höfðu lítil viðbrögð orðið við þessum spurningum á umræddum þræði, og fæst þeirra vörðuðu spurningarnar sem varpað var fram; utan þess að ræða hina meintu andlegu leiðsögn sem biskup á með að fara.

Harma ég það, en það skýrist ef til vill af því að þær voru bornar fram af fésbókarpersónunni Orðið Ritstjóri, þó vísað væri til undirritaðs og fangamark sett undir.  Sá persónureikningur hefur nú verið lagður niður, en áhugasömum er bent á að “líka” við síðu ritsins sjálfs á snjáldrinu.

Með bestu kveðjum Arnaldur Máni Finnsson, ritstjóri Orðsins.