Dæmisaga.

(Áhyggjur mínar af menntun minni, samnemendum mínum og framtíðarmöguleikum okkar.)

Dæmisaga.

Eftir að hafa stundað guðfræðinám í nokkur ár furðar maður sig stundum á hversu lítil tengsl eru á milli deildarinnar og kirkjunnar.  Þeir nemendur sem ekki hafa aðgang að eða sækjast sérstaklega eftir því að starfa samhliða náminu í æskulýðsstarfi gætu raunar klárað nám til embættisprófs fram að síðasta árinu án þess að hafa komið í kirkju.  Ég man einusinni eftir því að biskupinn hafi heimsótt nemendur og setið fyrir svörum með einhverjum hætti.  Eins þekki ég ekki til þess að kirkjan eða kirkjulegir aðilar hafi beðið guðfræðinema eða unga guðfræðinga um að flytja erindi um trúarlíf sitt eða kirkjuleg málefni fyrir almenning, hverjar sem ástæðurnar fyrir því eru.  Lokaprédikanir nemenda eru svo fluttar á versta tíma fyrir aðra nemendur og um þær skapast lítil umræða.  Álit eða guðfræðileg afstaða yngstu kynslóðar guðfræðinga er að mestu innansveitarmál sem vekur litla athygli.  Kannski er offramboðið ástæðan fyrir þessu; það er miklu auðveldara að fá prest til að tala (öruggt) eða leikmann með frumlegar hugmyndir (athyglisvert en kennivaldslaust) svo til hvers að fá prestnema?  Hefur kirkjan fyrirframgefnar hugmyndir um það hvað fullmótaður guðfræðinemi muni segja og það séu sjálfkrafa óspennandi að fá erindi frá einhverjum sem er búið að steypa í mótið?

Fyrir nokkrum árum hóf nám við guðfræðideildina nokkuð áberandi persóna úr þjóðlífinu og naut þessi andlega leit hennar talsverðrar athygli fjölmiðla um nokkurt skeið.  Hún var fengin í þætti til að tala um guðfræði og við hana voru tekin viðtöl meðal annars til að fá innsýn í guðfræðinámið.  Kirkjan hafði samband við hana til að halda erindi um kirkjuna, trúna og guðfræðimenntunina – eða hvað það nú var – álit hennar skipti máli og kirkjan opnaði sig fyrir boðskap manneskjunnar, og gagnrýni.  Nokkru síðar, þegar persónan hafði snúið aftur að þeim vettvangi dagsins sem hún var þekkt fyrir var enn vísað til guðfræðinámsins sem sérkennis hennar en þar sem hún hafði orðið afhuga náminu kom sú spurning eðlilega upp; hversvegna hún hefði hætt við guðfræðinámið?  Þessi persóna er opin og heiðarleg og liggur ekki á skoðun sinni af ótta við að hún standist ekki kórrétta trúfræðilega kenningu eða styggi yfirboðara sína.  Hún sagði að guðfræðideildin bæri sterklega svipmót einhverskonar þöggunar-menningar og stjórnunaráráttu þar sem ætti að steypa alla í sama mótið, nemendurnir virtust strax á öðru ári orðnir helteknir af meðvirkniseinkennum alkóhólískrar fjölskyldu sem ekkert þyrði að segja um fulla pabbann, eða eitthvað álíka.  Andi orðanna var svipaður pistli eftir Jón Gnarr stuttu eftir Hrun þar sem hann lýsti íslensku samfélagi sem fjölskyldu alkohólista.  Munurinn var aftur á móti sá að pistill Jóns setti samfélagið í frumlegt samhengi á meðan upplifunin af orðum þessarar manneskju var sú að hér væri um alvarlega gagnrýni að ræða.  Viðbrögð guðfræðideildar voru nokkuð á sama veg og þegar kirkjan verður fyrir gagnrýni, enda um ríkjandi ómenningu að ræða; þessi ummæli voru virt að vettugi og ekki rædd frekar (frekar en önnur gagnrýni) þrátt fyrir að skömmu áður hafi bæði deildin og kirkjan sóst sérstaklega eftir erindum frá sömu manneskju um nám og kirkju.  Ætlun mín er ekki að ræða þá ómenningu sem oft er kennd við þöggun heldur þá staðreynd að svona upplifði „utanaðkomandi“ opin og leitandi kristin manneskja þann kúltúr sem hér ríkir og setti í samhengi við reynslu sína af öðrum vettvangi.  Hún upplifði að trúarlegar spurningar, efasemdir um kenningarlærdóm og afstaðan til skapandi náms í spennandi fræðum koðnuðu niður í menningu þar sem hver kepptist við að þóknast í stað þess að mótast og vaxa með spurningunum.  Hún upplifði ekki að hér glímdi fólk við spurningar um tilvistarlegan vanda til þess að verða sterkari manneskjur sem hefðu hæfileika til að taka þátt í opinni menningu, svara spurningum með heiðarlegum tilfinningum og gagnrýna af skynsemi þær hömlur sem hugsuninni eru settar.

Þegar maður lagðist í sjálfskoðun í ljósi orða þessa fyrrum samnemanda komu upp spurningar um það hvort skortur á ímyndunarafli hái nemendunum, menningarlegt ólæsi eða almenn þröngsýni? Þær spurningar leiða sjálfkrafa af sér ályktanir eins og að ekki sé nægilegur gaumur gefinn að skapandi verkefnum í náminu, menningarlæsi og heimfærslu textanna inní nútímasamhengi.  Maður spyr sig jafnvel í samhengi hvort að þessir þættir, sem skipta jafnvel meiru en biblíuþekkingin þegar kemur að miðlun kristinnar trúar, séu vanræktir í náminu og komi of seint við sögu á námsferlinum?

Vissulega má segja að nefndir þættir, skapandi verkefni, menningarlæsi og heimfærsla texta, séu atriði sem fólk öðlast reynslu af í kirkjustarfinu sjálfu, sinni það æskulýðsstarfi eða öðru álíka.  Þetta eru mikilvægir þættir sem efla einstaklinginn í að miðla trú sinni á persónulegan hátt.  Aftur á móti er tilhneiging um leið í æskulýðsstarfinu að „létta undir“ með starfsfólkinu með því að staðla efni, koma á formi og samræmdu innihaldi og leggja jafnvel áherslu á að allir sunnudagaskólar notist við efni eins og myndböndin um Hafdísi og Klemma.  Öll sú miðstýring felur í sér sérstakan framleiðslukostnað við barnastarfið á vegum Biskupsstofu sem og útgjöld fyrir sóknirnar en á að skila sér í „stöðluðum“ sunnudagaskóla sem öllum á að finnast skemmtilegur.  Sú sem hér ritar horfir aftur á móti á hina hliðina; þau sem eiga í persónulegum samskiptum við börnin verða að hlutlausum „leikurum“ sem reyna eftir fremsta megni að fara eftir fyrirframákveðnum texta.  Þau eru ekki gerendur sem skapa tengsl heldur „kynnar“ sem hafa það hlutverk að bjóða börnunum uppá Hafdís-og Klemma-vídjó.  Í sjálfu sér er það eðlilegt ef óharðnaðir unglingar leiða starfið, en þar sem ég sat með dóttur minni og fylgdist með samnemanda mínum vandræðast í gegnum þetta oft illa skrifaða efni, þá vorkenndi ég henni fyrir margra hluta sakir.  Hún sem hefur svo fallegar hugmyndir og er skapandi hafði ekki fundið sér farveg til að efla sjálfstraust sitt og hæfileika til að miðla fögrum boðskap í æskulýðsstarfinu heldur reyndi að verða hlutlaus miðlari hinnar réttu kenningar.  Vinkona mín sat svo þögul og hlýðin undir ærslum Hafdísar og Klemma, þar sem þau leggja Haffa frænda í einelti og baktala fólk, allt þartil þau eins og fyrir galdra heyra rödd af himnum sem segir þeim að í Biblíunni standi að maður eigi að vera góður við alla.  Og að maður eigi að vera hress.  Og maður eigi að vera venjulegur krakki í rosalega skemmtilegum sunnudagaskóla þar sem allir þramma saman í kór undir dunandi músík.  Prúðbúin skælbrosandi börn í eðlilegu umhverfi, fyrir utan ofvöxnu börnin tvö sem taka aldrei ákvörðun til góðs í aðstæðum sínum af hyggjuviti sínu, heldur vegna þess að Jesús segir það.

Og þá þakka ég fyrir að vera ekki í sunnudagaskólanum lengur heldur í guðfræðideildinni þar sem er ekki komið fram við mig eins og heimskan krakka sem á að halda kjafti, nema hann hafi rétta svarið.

Feimin guðfræðinemi.