In principio

Manifesto ritnefndar Orðsins vegna umfjöllunar um biskupskjör 2012

Flokkur efnis um Biskupskjör 2012 skal skiptast í eftirfarandi undirflokka:

1. Aðsent efni.

2. Raddir.

3. Greiningardeildin.

 

              Grundvallarreglur: „principalis“

1. Farvegurinn skal vera í þágu almennings.            

2. Tjáningarþörfin hefur samfélagslegt og fagurfræðilegt gildi.                       

3. Ritstýring er ekki ritskoðun.

 4. Menntun verður metin samkvæmt mættinum til að tjá sig.

         5. Gagnrýnt er til góðs.            

  6. Formið er innihaldinu undirskipað.

 

Grundvöllur reglnanna – in principium

 

1. Farvegurinn skal vera í þágu almennings.

Almenningur  er í víðum skilningi hugtak sem skýrir fyrir hverja skrifað er en einnig að það krefst ekki sérstakrar innvígslu að fá að taka þátt og miðla upplýsandi viðhorfum.  Prestdómur trúaðra sem kallaður er almennur er og mikilvæg vídd þessa grundvallar, hér er um samfélagslega ábyrgð að ræða á sviði kirkjumenningarinnar.

2. Tjáningarþörfin hefur samfélagslegt og fagurfræðilegt gildi.

Regla nr.  2 stendur í nánum tengslum við samfélagslegt hlutverk þessa farvegar og miðar að því að snúa að manninum og eðlilegri þörf hans til að tjá sig.  Sköpunargáfan er mikilvæg samfélagsleg gáfa sem okkur ber að heiðra og virða.

 3. Ritstýring er ekki ritskoðun.

Regla nr. 3 snýr að ábyrgð þess sem miðlar á því efni sem birtist á vettvangi Orðsins vegna Biskupskjörs 2012.  Hún víkur sérstaklega að þeim þætti þar sem skrif einstaklinga birtast án nafngreiningar í flokkunum Greiningardeildin og GT-spam.

Það er viðkvæmt mál að bera ábyrgð á skrifum annarra og því verður ákveðin ritstjórn að vera fyrir hendi.  Teljist orðræða eða málflutningur í skrifum handan velsæmismarka, dragi hún taum ákveðinna frambjóðenda sérstaklega eða sé réttu máli hallað, þá munu þau ekki hljóta birtingu fyrr en að lokinni ritstýringu. Meirihluti fimm manna ritnefndar verður í þessu samhengi að gangast undir ábyrgð fyrir málflutningnum.  Rísi vafamál mun leitað til sérfróðra prófessora við guðfræðideild og áskilur ritnefndin sér rétt til að bæta inn í aðsendan texta setningum eða málsgreinum til skýringar ellegar leiðréttingar sé farið með fleipur.  Þessi aðferð má ekki kallast ritskoðun enda eru í hávegum haft gildismat akademísks frelsis.

Regla nr. 4. Menntun verður metin samkvæmt mættinum til að tjá sig.

Í þessari reglu er sérstök áskorun fólgin.  Henni er vissulega beint til guðfræðinema en hún felur í sér kröfuna um frelsi akademíunnar til að fjalla um stofnanir og fræðileg málefni án íhlutunar þeirra.  Frelsinu fylgir ábyrgð.  Þegar einstaklingurinn er frjáls og ábyrgur má ætla að máttur hans til að birta niðurstöður eða hugleiðingar sínar sýni fram á hæfni hans og menntun.  Hér er því um farveg að ræða þar sem hverjum sem er er gert kleyft að tjá sig undir þessum ábyrgum skilmálum, án þess að nafn viðkomandi þurfi að koma fram, enda sé Orðið hinn akademíski vettvangur sem skrifin eru falin.

5. Gagnrýnt er til góðs.

Þessi  regla er sett sem leiðarljós og hvati til jákvæðrar kennslufræðilegrar nálgunar þegar kemur að gagnrýni sem t.a.m. er sett fram í skjóli nafnleyndar.  Þegar gagnrýnt er til góðs liggur í hlutarins eðli að bent sé á aðrar leiðir eða hugmyndum varpað fram sem verða aflvaki umræðu um sérstök málefni.  Greiningardeildinni er og falin ábyrgð í þessu ljósi, forðast skal ad hominem rökleysur og sanngirni gætt þegar texti og/ eða málflutningur nafngreindra aðila er tekin fyrir.  Málefnin eru aðalatriði ekki fólkið.

 6. Formið er innihaldinu undirskipað.

Þegar unnið er samkvæmt þeim grundvelli að form skipti minna máli en innihald þá er svið þess efnis sem boðið er uppá að miðla rýmkað.  Í undiflokkum getur verið um hugleiðingar, lista, úttektir, ljóð, sögur og ritgerðir að ræða.  Það sem skiptir máli að í huga þess sem skapar viðkomandi texta þá tengist hann Biskupskjörinu 2012.  Sálmar eru og velkomnir og þýðingar.  Mörkin eru rúm; Gjör veginn breiðan og hliðið hátt!

 

Skýringar varðandi undirflokka:

Þegar efni er tekið til birtingar í undirflokknum Raddir metur ritnefndin efnið fyrst.  Meirihluti ritnefndar skuli samþykkja birtingu fylgi þar með ekki fullt nafn, t.a.m. guðfræðinemi, æskulýðsstarfsmaður osfrv.

Samþykki höfundar er fengið að lokinni ritstýringu og náist ekki sátt um málflutninginn er viðkomandi bent á að koma skrifunum á framfæri undir öðrum lið málaflokksins Biskupkjör 2012: Aðsent efni.

Greiningardeildin mun, að því er ritnefndin áætlar, takast á við að greina áherslur mismunandi frambjóðenda varðandi einstaka málaflokka – án þess að taka einhverja sérstaka áherslu fram yfir aðra eða mæla með ákveðnum frambjóðendum.  Þó verður að hafa í huga – varðandi hvern málaflokk – að ekki eru allir frambjóðendur tilbúnir til að tjá sig um öll málefni sem upp kunna að koma.  Það er Greiningardeildarinnar að meta ástæður þess hvers vegna sum mál séu ekki rædd.

Hvaða hópur sem er getur boðið sig fram til að vinna efni fyrir Greiningardeild Orðsins.

Ritnefndin mun og leitast eftir því að fá að birta efni annarsstaðar af netinu í flokknum Raddir.

Komi upp fræðilegur ágreiningur sé leitað til prófessora guðfræðideildar eftir áliti.

 

Virðingarfyllst; Ritnefnd Orðsins 2012

 

Arnaldur Máni Finnsson

*Arnór Blomsterberg

Ásta Elínardóttir

Sindri Geir Óskarsson