Af sjálfsmynd kirkju og forystu hennar.

Um sjálfsmynd kirkju og forystu hennar.

eftir Arnald Mána Finnsson

Það er ljóst að varðandi komandi biskupskosningar þykir mörgum mikilvægt að huga að ímynd kirkjunnar.  Sú ímynd sem hún varpar fram er að sjálfsögðu nátengd sjálfsmynd þjóðkirkjunnar og um leið hugmyndinni sem býr að baki biskupsembættinu í sögu og samtíð.

En hver er þessi „nýja“ ímynd – þarf kirkjan nýja sjálfsmynd?

Kirkjan rétt eins og aðrar stofnanir, þarf öflugt fólk í sína forystusveit til að byggja upp trúverðugleika í kjölfar þeirra áfalla sem orðin eru af mannavöldum.  Sú tíð er liðin þar sem biskupinn yfir íslensku þjóðkirkjunni er andlegur leiðtogi þjóðarinnar.   Þó margir ætlist til slíks af næsta biskup – og margir frambjóðendanna gefi í skyn að það verði sitt hlutverk hljóti þeir kosningu – þá stendur krafa samtímans jafnframt frammi, um að aukin valddreifing eigi sér stað meðal annars með því að aðskilja hlutverk biskups sem framkvæmdastjóra kirkjunnar og hins andlega hlutverks sem „hirðir hirðanna“.

Sjálfsmynd biskupsins getur ekki lengur hvílt í því að hann eða hún hafi endanlegt kennivald eða framkvæmdavald yfir öllu sem fram fer í kirkjunni.  Í því samhengi sérstaklega ber að endurskoða hlutverk og vægi hinna svokölluðu vígslubiskupa, því sjálfsmynd biskups samkvæmt núverandi löggjöf hvílir á því að þeir fari einungis með biskupsvald í nefnds umboði.  Er það eðlilegt og enn fremur, er það nauðsynlegt eða heillavænlegt?  Mín skoðun er sú að það sé enn mikilvægara en að kvenpersóna verði valin til einhvers af biskupsembættunum, eins og talað er um til að bæta ímynd kirkjunnar, að tækifærið sé notað til þess að móta ímynd kirkju sem byggir á hugmyndafræði valddreifingar þar sem jafnstaða er tryggð á milli biskupa hennar.  Ímynd kirkju þar sem almenningi er ljóst að niðurstaða í málefnum hennar komi af vettvangi þar sem málin hafa verið rædd, skoðuð frá ólíkum hliðum og séu sameiginleg sýn þriggja einstaklinga sem gegna embættum biskupa í Reykjavík, í Skálholti og á Hólum.

Það vekur almenna athygli í umræðu þegar talað er um að bæta þurfi ímynd kirkjunnar – enda er það nauðsynlegt – en ég leyfi mér að fullyrða að það verði örðugt verk fyrir einn einstakling, hversu skorinorður eða sveigjanlegur sem sá sami kann að verða.  Aftur á móti tel ég að þrír samhentir biskupar megi lyfta grettistaki í þeim efnum.  Með öðrum orðum er ályktun mín sú að það sé tímaskekkja að ætla að hér sé einn Biskup yfir Íslandi og tveir undirskipaðir aðstoðarbiskupar á hinum fornu biskupsstólum.  Aðeins er tæpur aldarfjórðungur síðan stólarnir hófust að ráði úr dróma og vígslubiskuparnir fóru að sitja hvorn staðinn um sig, Skálholt og Hóla.  Um þessi embætti hefur verið deilt, sumir segja þau tildur en aðrir virða mikils að hefðinni sé komið á að nýju.  Persónulega hef ég mikla ánægju af því að málsmetandi menn sitji staðina og efli þannig þjónustu kirkjunnar og undirstriki mikilvægi hennar á landsbyggðinni.  Þeirri spurningu er hér með beint til biskupsframbjóðendanna; hvernig er hægt að efla þessi embætti og gera þau trúverðug?