Pólítík, guðfræði og siðbót.

Pólitík, guðfræði og siðbót

Klofningur Ensku kirkjunnar frá Rómakirkjunni og starf Thomas Cranmers siðbótarmanns á valdatíma Hinriks VIII1

Eftir Elvar Ingimundarson

Inngangur

Hnignun þjóðkirkjuskiplagsins á seinni hluta 20. aldar hefur valdið því að Þjóðkirkjan virðist nú þróast í þá átt að verða aftur hluti af alþjóðlegri kirkju. Þessi þróun merkir ekki afturkomu Rómakirkjuskipulagsins heldur virðist draumur margra siðbótarmanna, um eina almenna siðbætta kirkju, nú vera nær því að rætast en nokkru sinni áður. Dæmi um þessa þróun er aðkoma Þjóðkirkjunnar að gerð Lima skýrslunnar og Porvoo samkomulagsins. Undirritun Porvoo samkomulagsins 1994 styrkti mjög tengsl Þjóðkirkjunnar við Anglíkönsku kirkjuna og má segja að kirkjur þessar séu nú systurkirkjur sem stefna á aukið samstarf sín á milli. Þrátt fyrir það hve nánar þessar kirkjur eru virðist þekking manna á Ensku kirkjunni og uppruna hennar oft afar takmarkaður.

Þetta er skiljanlegt þegar litið er á það hve umdeildur uppruni Ensku biskupakirkjunnar er. Hafa margir viljað rekja uppruna hennar til valdagræðgi og holdlegra fýsna Hinriks VIII og gert lítið úr siðbótarmönnum hennar og áhrifum þeirra. Hefur þetta viðhorf jafnvel gengið svo langt að Hinrik VIII hefur verið talinn upp með Martin Lúther og Jóhannesi Kalvin í þeirri merkingu að Enska kirkjan sé Hinrísk líkt og íslenska kirkjan er Lúthersk og siðbættu kirkjurnar Kalvinískar. Þegar þessu viðhorfi er lýst virðast menn draga þá ályktun að klofningur Ensku kirkjunnar frá Rómakirkjunni hafi einungis orðið af pólitískum ástæðum en ekki guðfræðilegum og því sé rétt að nota nafn pólitísks leiðtoga sem mesta áhrifamanns hennar í stað guðfræðings. Til að rökstðja þetta hefur stundum verið fullyrt að á valdatíma Hinriks VIII hafi ekki orðið neinar stórvægilegar breytingar á Ensku kirkjunni aðrar en þær að konungurinn var höfðuð hennar en ekki páfi.

Sú þróun sem leiddi til klofnings Ensku kirkjunnar frá Rómakirkjunni er hins vegar töluvert flóknari en svo að hægt sé að fullyrða að hún hafi einungis orðið af pólitískum ástæðum. Hún var fremur afar flókin samblanda guðfræði og pólitíkur þar sem pólitískar ákvarðanir voru oft ef ekki alltaf mótaðar af guðfræði eða undir áhrifum af guðfræði.

Siðbótarmenn Ensku kirkjunnar eru dapurlega lítið þekktir og dyggilega hundsaðir í trúfræði- og kirkjusögukennslu á Íslandi. Æðsti vígði þjónn kirkjunnar á valdatíma Hinriks VIII var Thomas Cranmer erkibiskup af Kantaraborg en hann barðist alla ævi fyrir málstað siðbótarinnar og dó á endanum píslarvættisdauða fyrir siðbótarmálstaðinn. Cranmer starfaði sem yfirmaður kirkjunnar í afar pólitísku umhverfi og á valdatíma Hinriks VIII var ríkisvaldið var oft á tíðum fjandsamlegt siðbótarstarfi hans.

Það hversu miklu Cranmer kom til leiðar þrátt fyrir það og sú staðreynd að honum tókst að sleppa við hálshöggvin á tímabili þar sem forustumenn í trúmálum urðu oft fyrir því að verða höfðinu styttri sýnir glöggt hversu sterkur leiðtogi hann var kirkjunni og sýnir okkur einnig hve miklu góður biskup getur komið í verk þrátt fyrir deilur innan kirkjunnar og mótstöðu frá samfélaginu. Nú á dögum, þar sem virðist stefna í það að ríkið verði í besta falli afskiptalaust um málefni Þjóðkirkjunnar og í versta falli hatrammur andstæðingur kirkju og kristni, gæti Þjóðkirkjan brátt þurft á slíkum leiðtoga að halda.

Í grein þessari verður samspil pólitíkur og guðfræði í þróun Ensku kirkjunnar á valdatíma Hinriks VIII skoðaður og fjallað um feril siðbótamannsins Thomas Cranmers. Leitast verður við að svara spurningunum: Hvers vegna klofnaði Enska kirkjan frá Rómakirkjunni og hver var áhrifamesti siðbótamaður Ensku kirkjunnar á valdatíma Hinriks VIII.

Klofningur Ensku kirkjunnar frá Rómakirkjunni

Upphaf þeirrar þróunar sem leiddi til klofnings Ensku kirkjunnar og Rómakirkjunnar má rekja aftur til 1502. Það ár lést Artúr Tudor (1486-1502) elsti sonur Hinriks VII (1457-1509) Englandskonungs. Artúr var kvæntur Katrínu af Aragóníu (1485-1536) dóttur Spánarkonungs. Eftir að Artúr lést ákvað Hinrik VII að trúlofa Katrínu yngri syni sínum Hinriki. Þar sem Katrín hafði verið gift bróður Hinriks bönnuðu kirkjulög hjúskap þeirra. Ensk og spænsk yfirvöld fengu því Júlíus II (1443-1513) páfa til þess að veita undanþágu frá kirkjulögum.2

Eftir að Hinrik var krýndur konungur sem Hinrik VIII gekk hann að eiga Katrínu. Hinriki og Katrínu gekk hins vegar afar illa að eignast börn og fæddust börn þeirra andvana eða létust stuttu eftir fæðingu. Þetta olli því að 1514 hóf Hinrik samningaumleitanir við Vatikanið um að fá hjónabandið ógilt. Hinrik lagði mikla áherslu á það að eignast son sem erft gæti krúnuna eftir hans dag. Þessi áhersla hans á mikilvægi skýrrar erfðaraðar er skiljanleg þegar litið til þess að faðir hans Hinrik VII hafði náð krúnunni á sitt vald eftir blóðugt borgarstríð, Rósastríðið sem hófst vegna deilna um það hver væri réttmætur ríkisarfi. Árið 1516 fæddi Katrín heilbrigða stúlku sem skírð var María. Endurvakti það vonir Hinriks um það að hann og Katrín gætu eignast son.3

Árin liðu en enginn fleiri börn fæddust. Upp úr 1520 fór Hinrik að líta svo á að eitthvað mikið væri að hjónabandi hans. Hann fór að líta svo á að hjónaband hans bryti gegn lögum Guðs eins og þau voru sett fram í 3Mós 18.16 „Blygðun mágkonu þinnar mátt þú ekki bera, það er blygðun bróður þíns“ og 3Mós 20.21 „Taki maður konu bróður síns er það saurgun: Hann hefur berað blygðun bróður síns. Þau skulu verða barnlaus.“ Hann taldi að erfiðleikar hans og Katrínar við að eignast son væri refsing Guðs. Hann fór því að líta svo á að páfinn gæti ekki veitt undanþágu frá lögum Guðs og hjónaband hans væri því ógilt. Hinrik virðist hafa komist að þessari niðurstöðu um það bil tveimur árum áður en hann kynntist Önnu Boleyn (1501-1536) og því ætti ekki að líta á þetta viðhorf hans sem afsökun til að skilja við konu sína heldur frekar sem djúpstæða sannfæringu um að hann hefði brotið gegn Guði og það væri því skylda páfa að lýsa hjónabandið ógilt.4

Til að sýna fram á að páfinn hefði gert mistök þegar hann veitti Hinriki og Katrínu undanþágu frá kirkjulögum til að ganga í hjónaband kallaði Hinrik saman guðfræðinga og háskólamenn til að sanna að fyrrgreind orð þriðju Mósebókar bönnuðu giftingu bróður látins manns og ekkju hans. Páfi lét ekki sannfærast og málstaður Hinriks VIII virtist sífellt vonlausari. Árið 1529 kom Lorenzo Campeggio (1471-1539) kardínáli og sendimaður páfa til London til að hlýða á málflutning Hinriks og dæma um málið. Fundur fulltrúa konungs og fulltrúa páfa átti sér stað í London og var kenndur við Blackfriar eftir klaustrinu sem hann var haldinn í. Thomas Wolsey (1473-1530) kardínáli, erkibiskup af York og fulltrúi páfa á Englandi flutti mál Hinriks en Campeggio neitaði að kveða upp dóm og frestaði málinu sífellt. Enginn niðurstaða fékkst því á Blackfriar-fundinum og vonir Hinriks VIII um skjóta lausn málsins voru að engu gerðar.5

Eftir þessa misheppnuðu tilraun hittust af tilviljun þrír kollegar úr Oxford, í Waltham að öllum líkindum 2. ágúst 1529. Þetta voru guðfræðidoktorarnir Stephen Gardiner (um 1497-1555), Edward Foxe (1496-1538) og Thomas Cranmer (1489-1556). Gardiner og Foxe höfðu unnið með Thomas Wolsey að Blackfriar-fundinum og óttuðust nú að falla í ónáð hjá konungi. Þeir skýrðu Cranmer frá vandræðum sínum og hann kom með þá tillögu að í staðinn fyrir að standa í kostnaðarsömum málaferlum í Róm gætu þeir fengið helstu háskóla Evrópu til að gefa út álit sitt á gildi hjúskaparreglnanna í 3Mós. Allir sem málið skoðuðu hlytu að fallast á það að þar væri að finna fyrirmæli sem ógiltu hjónaband Hinriks. Þegar afstaða stærstu háskóla Englands, Frakklands, Þýskalands og Ítalíu væri skýr gæti páfinn varla neitað því að hjónabandið væri ógilt.6

Álit háskólanna var tekið saman og gefið út árið 1531 í hinu gífurlega stóra riti The Determinations of the most famous and excellent Universities of Italy and France, that it is unlawful for a man to marry his brother’s wife; that the Pope hath no power to dispense therewith. Þessi bók innihélt ekki einungis þau álit sem háskólar Ítalíu og Frakklands höfðu gefið heldur var bætt aftan við þau löngum texta um kirkjufeður, ritninguna og valdsvið páfa7

Páfinn gaf sig þó ekki og neitaði að ógilda hjónaband Hinriks og Katrínar. Hinrik hafði á þessum tíma hafið samband við Önnu Boleyn og í desember 1532 varð hún ólétt af Elísabetu Tudor (1533-1603) sem seinna varð Elísabet I.8 Í janúar 1533 giftu Anna og Hinrik sig.9 Vegna þess að hjónaband Katrínar og Hinriks hafði ekki enn þá verið ógilt var enskur dómstóll kallaður saman til þess að fjalla um málið og kvað hann í maí 1533 upp þann úrskurð að hjónband þeirri hefði verið ógilt. Þann 1 júní var Anna síðan krýnd sem drottning og í september fæddist svo Elísabet.10

Þegar Klemens VII frétti að Hinrik hefði hunsað hann og gifst Önnu Boleyn varð hann æfur og hótaði því að bannfæra Hinrik og alla hans nánustu ráðgjafa ef Hinrik segði ekki skilið við Önnu.11 Hinrik svaraði með því að leggja tvennar löggjafir fyrir enska þingið sem það samþykkti 1534. Önnur löggjöfin var nefnd The Supremacy Act og gerði konunginn, Hinrik VIII, að æðsta leiðtoga ensku kirkjunnar. Þessi lög höfðu í för með sér aðskilnað ensku kirkjunnar og Rómakirkjunnar þar sem páfinn hafði fram til þessa gert tilkall til þess að vera æðsti leiðtogi kirkjunnar á Englandi. Seinni löggjöfin The Treasons Act hafði það í för með sér að gert var að landráðssök að viðlagðri dauðarefsingu að hafna því að konungurinn væri leiðtogi kirkjunnar. Allir kirkjunnar menn þurftu því að gera upp við sig hvort þeir vildu halda tryggð við páfa eða konung.12

Klofningur Enska kirkjunnar og Rómakirkjunnar var nú orðin staðreynd. En klofningur frá Rómakirkjunni jafngildir ekki siðbót. Sá maður sem stjórnaði siðbótinni innan ensku kirkjunnar var ekki Hinrik VIII heldur mun minna þekktur maður að nafni Thomas Cranmer.

Thomas Cranmer: Siðbótamaður Ensku kirkjunnar

Thomas Cranmer fæddist 1489 í Aslockton í Nottinghamshire. Foreldrar hans voru Thomas og Agnes Cranmer. Þau voru í meðalefnum en þó titlaði Thomas Cranmer eldri sig sem hástéttarmann (Esquire).13

Árið 1503 var hinn ungi Cranmer sendur til náms í Jesus College í Cambridge sem var stofnaður 1496, Cranmer var 8 ár að ná Baccalaureus gráðu.14 Nám til Baccalaureus gráðu einkenndist á þessum tíma af námi í skólaspeki, en það var hefð í miðaldaguðfræði sem Tómas Aquinas (1225-1274) og Duns Scotus (1265-1308) aðhylltust og rökfræði Aristótelesar (384-322 f.Kr.). Eftir að hafa lokið gráðunni 1511 hóf hann meistaranám sitt. Þar las hann Erasmusar frá Rotterdam (1466-1536) og „klassískar“ bókmenntir skólaspekinnar.15 Meistaranáminu lauk hann 1515 og hlaut stöðu við stjórn Jesus College.

Stuttu eftir þetta gifti Cranmer sig. Lítið er vitað um eiginkonu hans annað en það að hún hét Joan.16 Þó segir hinn nafnlausi ævisöguritari hans frá 1580 að hún hafi verið af góðum ættum. Vegna hjónabands síns þurfti Cranmer að segja af sér stöðunni í Cambridge og gerðist kennari við Buckingham skóla.17

Skömmu eftir brúðkaupið lést Joan af barnsförum og Cranmer hlaut að nýju stöðu sína í stjórn Jesus College og lauk þar doktorsgráðu 1526.18

Á skólaárum sínum aðhylltist Cranmer biblíulegan húmanisma og var mikill aðdáandi Erasmusar.19

Árið 1527 fór Cranmer til Spánar til að aðstoða Edward Lee (1482-1544) gamlan skólabróður sinn sem þá var sendiherra Englands á Spáni. Þar fékk Cranmer fyrst reynslu af alþjóðlegri pólitík sem átti eftir að verða starfsvettvangur hans um nokkurt skeið.20 Þegar Cranmer snéri aftur heim hlaut hann áheyrn hjá Hinriki VIII í fyrsta skipti og hreifst mjög af honum.21 Á þessum tíma var hið fræga skilnaðarmál konungsins nýhafið. En aðild Cranmers að því átti eftir að koma honum í innsta hring Hinriks VIII.

Það var Cranmer sem átti hugmyndina að því að fá virtustu háskóla Evrópu til að gefa út álit á hjúskaparreglunum í 3Mós og eftir að hugmynd hans var gerð að opinberri stefnu Hinriks VIII var hann tekinn í fylgdarlið Thomas Boleyn (1477-1539) jarls af Wiltshire, sem var faðir Önnu Boleyn og vinur konungs.22

Árið 1530 var Cranmer sendur til Rómar þar sem hann aðstoðaði erindreka Hinriks VIII þar við að safna saman álitum helstu háskóla Evrópu á merkingu texta 3Mós 18 og 20 og kynna þau fyrir páfa. Síðan hélt hann til Bologna ásamt sendinefnd sem sannfæra átti Karl V (1500-1558) Þýskalandskeisara um málstað Hinriks VIII. Að öllum líkindum hafði Cranmer á þeim tíma titilinn hirðprestur konungsins (Chaplain in ordinary).23 Þrátt fyrir að sendinefndin hefði ekki erindi sem erfiði þótti Cranmer hafa staðið sig vel og árið 1530 var hann gerður sóknarprestur (Rector) í Brandon sem var ein af tekjuhæstu sóknunum á Englandi.24 Cranmer virðist ekki hafa heimsótt sóknarbörn sín oft enda sáu kapellánar fyrir þörfum sóknarbarnanna eins og algengt var á þessum tíma.25

Árið 1531 var Cranmer á Englandi og hélt áfram vinnu sinni fyrir málstað Hinriks VIII í skilnaðarmálinu. Mest af tíma hans fór í það að ritstýra bókinni The Determinations of the most famous and excellent Universities of Italy and France…

Árið 1532 var Cranmer skipaður sendiherra Englands við hirð Þýskalandskeisara. Á meðan á dvölinni í Þýskalandi stóð heimsótti Cranmer Nürnberg þar sem lúterska siðbótin hafði náð velli. Þar vingaðist hann við siðbótarmanninn Andreas Osiander. Eiginkona Osianders hét Katrín Preu og kynntist Cranmer frænku hennar sem hét Margrét.26 Þau kynni leiddu til þess að Cranmer giftist Margréti í Nürnberg. Hvort það var til að staðfesta stuðning sinn við siðbótina í Nürnberg er umdeilt en þó er fullvíst að Cranmer var á þessum tíma farinn að hallast að siðbótinni. Cranmer var hins vegar fylgjandi því að prestar giftu sig og taldi til skammar hversu margir þeirra áttu hjákonur.

Cranmer var á þessum tíma prestur í ensku kirkjunni sem enn var hluti af Rómakirkjunni og lagði blátt bann við hjónaböndum presta. Ef fréttir af brúðkaupi hans hefðu borist til Englands hefði hann að öllum líkindum verið sviptur hempunni. Cranmer fór því hljótt með hjúskap sinn.27 Þegar Cranmer hélt aftur til hirðar Karls V, haustið 1532 skyldi hann eiginkonu sína því eftir í Nürnberg og bjóst við því að eiga eftir að dvelja lengi við hirð Þýskalandskeisara.

22. ágúst lést hins vegar William Warham (1450-1532) erkibiskup af Kantaraborg.28 Hinrik VIII valdi í stöðuna mann sem að hann og Boleyn fjölskyldan töldu traustan og áreiðanlegan, þó flestir aðrir skyldu ekkert í vali konungs. Sá sem fyrir valinu varð var hinn nýgifti sendiherra við þýsku hirðina Thomas Cranmer.29 Cranmer var vígður í mars 1533 en þá hafði páfinn gefið út páfabréf þar sem tilnefning Cranmers til erkibiskupsstöðunnar var staðfest.30

Þrátt fyrir að Cranmer væri orðin erkibiskup af Kantaraborg stóð ýmislegt í vegi fyrir endurbótahugmyndum hans. Hinrik VIII tók aldrei skýra afstöðu með eða á móti þeirri nýju guðfræði sem Cranmer og aðrir siðbótarmenn vildu innleiða í ensku kirkjuna. Við hirð konungsins tókust á íhaldsmenn sem stefndu að áframhaldandi tengslum við Róm og siðbótarmenn sem vildu taka upp samstarf við aðra siðbótarmenn í Mið-Evrópu, helst með því að halda sameiginlegt kirkjuþing þar sem samþykkt yrði guðfræði hinnar kaþólsku (í merkingunni almennu) kirkju siðbótarmanna.1543 eða tíu árum eftir að Cranmer var vígður erkibiskup, samþykkti ríkisstjórnin útgáfu Konungsbókarinnar. Í henni voru settar fram nýjar kennisetningar hinnar ensku kirkju og voru áherslur íhaldsmanna ríkjandi. Þessi bók staðfesti það bakslag sem siðbótarmenn höfðu orðið fyrir á seinustu árum valdatíðar Hinriks VIII.31

Siðbótarmenn unnu þó nokkra áfangasigra. 1537 gaf Hinrik VIII leyfi fyrir því að Biblían væri gefin út á ensku. Þessi útgáfa var Cranmer mikið hjartans mál og lagði hann mikla áherslu á það að biblían ætti að vera til á móðurmálinu í öllum kirkjum Englands.32 Útgáfa biblíunnar á ensku olli deilum og reyndu aðalsmenn að beita sér fyrir því að almenningi væri bannað að lesa biblíuna. Cranmer svaraði með því að kæra þá aðalsmenn sem hann taldi beita sér fyrir þessu til Thomas Cromwell (1485-1540) sem þá var kirkjumálaráðherra (Vice gerent) og einn af æðstu ráðherrum konungs með titilinn „Lord Privy Seal“ en Cromwell var aðal stuðningsmaður siðbótarinnar meðal ráðherra konungs og hafði til dæmis fjármagnað útgáfu biblíunnar á ensku að hluta til úr eigin vasa.33

Sama ár var tekið að framfylgja lögum sem aflögðu hátíðir á dögum sem helgaðir voru dýrlingum.34 1540 var síðustu klaustrunum á Englandi lokað. Cranmer vildi láta breyta gömlum klausturbyggingum í skóla en það var ekki samþykkt. Hins vegar fékk Cranmer því framgengt að stofnaður yrði skóli í Kantaraborg sem opinn yrði öllum, en upphaflega áttu einungis synir aðalsmanna að fá aðgang.35

Eftir þetta hallaði hins vegar undan fæti hjá siðbótarmönnum, sérstaklega eftir að Thomas Cromwell féll í ónáð Hinriks VIII og var tekinn af lífi fyrir landráð árið 1540. Cromwell hafði verið valdamesti siðbótarmaðurinn á Englandi og náinn samstarfsmaður Cranmers.36 Frá útgáfu „Konungsbókarinnar“ og fram að dauða Hinriks VIII 1547 voru siðbótarmenn og Rómakirkjumenn álíka valdamiklir og hvorug fylkingin hafði fullan stuðning konungsins.37

Hins vegar er rangt að segja að grundvallar breytingar hafi ekki orðið á Ensku kirkjunni á valdatíma Hinriks VIII. Sú breyting sem hafði hvað mest áhrif á daglegt líf fólks voru lögin sem aflögðu hátíðir á helgidögum dýrlinga. Þessi lög voru bein árás á dýrlingatrúna og bönnuðu meðal annars sýningar á helgum munum og allar föstur og frí á dögum helguðum dýrlingum. Bann við neyslu eggja og mjólkurvara á lönguföstu var einnig afnumið.38

Lokun klaustranna 1540 var ein varanlegasta afleyðing siðbótarinnar á Englandi á valdatíma Hinriks VIII og var jafnframt glatað tækifæri fyrir siðbótina.39 Hús, fé og eignir klaustra og klausturreglna voru gerð upptæk en ekki afhent kirkjunni heldur dreift á milli ríkissjóðs og aðalsmanna við hirðina. Cranmer taldi þessi verðmæta eiga að fara til aðstoðar fátækum og til eflingar menntunnar en hafði ekki næg áhrif við hirðina til að ekki stoppað græðgi konungsins og hans manna.40 Lokunnar klaustranna er því minnst sem sigurs græðgi yfir trú og er blettur á siðbótasögu Englands.

Niðurlag

Aðal ástæða klofnings Ensku kirkjunnar frá Rómakirkjunni var líklega sú þráhyggja Hinriks VIII að Guð hefði bölvað hjónaband hans og Katrínar. Þegar páfinn neitaði að ógilda hjónabandið fór Hinrik að líta á hann sem óvin Guðs sem væri óhæfur leiðtogi kirkjunnar. The Supremacy Act sem gerði konunginn að æsta yfirmanni kirkjunnar var eðlilegt framhald af þessari sannfæringu.

Hundrað árum fyrr hefði það þótt óhugsandi að kljúfa Ensku kirkjuna frá Rómakirkjunni og hefði án efa leitt til blóðugs borgarastríðs en húmanisminn með áherslu sinni á texta biblíunnar og kirkjufeðurna hafði fengið menn til að efast um það að skipulag Rómakirkjunnar væri í samræmi við hina kristnu frumkirkju og að kennisetningar hennar væru í samræmi við kenningar kirkjufeðranna. Stór hluti hinnar menntuðu millistéttar var því fylgjandi klofningnum og siðbót innan kirkjunnar.

Afnám dýrlingatrúarinnar og lokun klaustranna olli miklum breytingum á helgihaldi og siðum kirkjunnar og þó að siðbótinni tækist ekki að ná fram öllum markmiðum sínum á valdatíma Hinriks voru þessar breytingar upphafið að siðbót sem átti eftir umbreyta Ensku kirkjunni varanlega.

Valdamesti og ötulasti siðbótarmaður Ensku kirkjunnar á valdatíma Hinriks VIII og sonar hans Játvarðar VI var Thomas Cranmer erkibiskup af Kantaraborg og Metrópólitan yfir Englandi. Siðbótarstarf Cranmers var ekki fullkomnað fyrr en á valdatíma Játvarðar og væri of yfirgripsmikið að fjalla nánar um það tímabil í þessari grein.

Á valdatíma Hinriks VIII var Cranmer eini siðbótarmaðurinn sem aldrei féll úr náð Hinriks og hlustaði Hinrik á ráð hans jafnvel þegar þeir voru ósammála. Cranmer kom ekki nálægt lokun klaustranna en hann vann ötullega að því að endurskipuleggja helgihaldið og framfylgja banninu á dýrlingatrúnni. Hann kom því til leiðar að biblían væri gefin út í enskri þýðingu og væri öllum aðgengileg í sóknarkirkjum sínum. Cranmer barðist ötullega gegn íhaldsmönnum og átti eftir að gjörsigra þá á valdatíma Játvarðar VI þegar María I náði völdum og kaþólikkar og íhaldsmenn komust aftur til valda var hann dæmdur til dauða fyrir villutrú og dó píslarvættisdauða fyrir siðbótarmálstaðinn. Hómilíubók hans og bænabók hans voru notuð áfram í Ensku kirkjunni allt fram til okkar daga og því er óhætt að segja að hann hafi verið fremsti siðbótarmaður hinnar Ensku kirkju.

 

 

 

 

 

 

Heimildaskrá

Biblían. (2007). Reykjavík: Hið íslenska biblíufélag

Dowling, Maria. (1993). Cranmer as Humanist Reformer. Í P. Ayres og D. Selwyn (ritstjórar), Thomas Cranmer: Churchman and Scholar (bls. 89-114). Suffolk: The Boydell Press.

Höfundur óþekktur. (1580). The Life, State, and Story of the Reverend Pastor and Prelate, Thomas Cranmer, Archbishop of Canterbury, Martyr, Burned at Oxford For the Confession of Christ’s True Doctrine Anno 1556. March 21. Í John Edmund Cox (ritstjóri), The Works of Thomas Cranmer, Vol. 1: Writings and Disputations Relative to the Lord’s Supper (bls. VII-XXIX) Vancouver: Regent College Publishing

MacCulloch, Diarmaid. (1996). Thomas Cranmer: A Life. New Haven, London: Yale University Press.

McGrath, Alister E. (1999). The Reformation Thought: An Introduction. Oxford: Blackwell Publishing.

 

1 Grein þessi er útdráttur úr fyrri hluta B.A. verkefnis míns frá 2011 sem ber titilinn Það er Andinn sem gefur líf:Thomas Cranmer og altarissakramentisskilningurinn í bók hans An Answer

2 MacCulloch, Thomas Cranmer: A Life 1996, s. 41

3 MacCulloch, Thomas Cranmer: A Life 1996, s. 41-42

4 MacCulloch, Thomas Cranmer: A Life 1996, s. 42-43

5 MacCulloch, Thomas Cranmer: A Life 1996, s. 43-44

6 MacCulloch, Thomas Cranmer: A Life 1996, s. 45

7 MacCulloch, Thomas Cranmer: A Life 1996, s. 55

8 McGrath, Reformation Thought: An Introduction 1999, s. 251

9 MacCulloch, Thomas Cranmer: A Life 1996, s. 83

10 McGrath, Reformation Thought: An Introduction 1999, s. 251

11 MacCulloch, Thomas Cranmer: A Life 1996, s. 95-97

12 McGrath, Reformation Thought: An Introduction 1999, s. 251

13 MacCulloch, Thomas Cranmer: A Life 1996, s. 7-9

14 MacCulloch, Thomas Cranmer: A Life 1996, s. 41

15 MacCulloch, Thomas Cranmer: A Life 1996, s. 19-20

16 MacCulloch, Thomas Cranmer: A Life 1996, s. 21

17 Höfundur óþekktur, The Works of Thomas Cranmer, Vol. 1: Writings and Disputations Relative to the Lord’s Supper 1580, s.VII-VIII

18 MacCulloch, Thomas Cranmer: A Life 1996, s. 21-22

19 MacCulloch, Thomas Cranmer: A Life 1996, s. 32-33

20 MacCulloch, Thomas Cranmer: A Life 1996, s. 34-35

21 MacCulloch, Thomas Cranmer: A Life 1996, s. 36-37

22 MacCulloch, Thomas Cranmer: A Life 1996, s. 45

23 MacCulloch, Thomas Cranmer: A Life 1996, s. 48

24 MacCulloch, Thomas Cranmer: A Life 1996, s. 49

25 MacCulloch, Thomas Cranmer: A Life 1996, s. 53

26 MacCulloch, Thomas Cranmer: A Life 1996, s. 70

27 MacCulloch, Thomas Cranmer: A Life 1996, s. 72-73

28 MacCulloch, Thomas Cranmer: A Life 1996, s. 75

29 MacCulloch, Thomas Cranmer: A Life 1996, s. 75-76

30 MacCulloch, Thomas Cranmer: A Life 1996, s. 87-88

31 McGrath, Reformation Thought: An Introduction 1999, s. 251-252

32 MacCulloch, Thomas Cranmer: A Life 1996, s. 197

33 MacCulloch, Thomas Cranmer: A Life 1996, s. 196-198

34 MacCulloch, Thomas Cranmer: A Life 1996, s. 198

35 MacCulloch, Thomas Cranmer: A Life 1996, s. 263-267

36 MacCulloch, Thomas Cranmer: A Life 1996, s. 269-270

37 McGrath, Reformation Thought: An Introduction 1999, s. 251

38 MacCulloch, Thomas Cranmer: A Life 1996, s. 197

39 MacCulloch, Thomas Cranmer: A Life 1996, s. 135

40 Dowling, Thomas Cranmer:Churchman and Scholar 1993, s. 114