Raddir! – um meintan umræðuótta og hefðir.

 

Fylgt úr hlaði – um meintan umræðuótta í þjóðkirkjumenningunni.

 

Að gefnu tilefni, vegna ákvörðunar ritstjórnar um að birta hugleiðingar í flokknum „Raddir” án þess að krefjast í öllum tilvikum fulls eigin nafns höfundar.

 

Eftir Arnald Mána Finnsson

 

Í netvæddu nútímasamfélagi hefur umræðuhefð almennings hrakað, jafnvel til þess vel menntað fólk missir rödd sína þegar hæst bylur í þeim sem reiða höggið hátt.  Vissulega er það réttmæt þróun og skiljanleg að með því aukist krafan um að hver og einn komi fram undir nafni og hefur því persónutenging athugasemdakerfa t.a.m. í gegnum “snjáldurskinnið“ eðlilega rutt sér til rúms.  Um leið má benda á að ekki eru allir sammála um þá ímyndarvæðingu sem slíkum kerfum fylgir en púðri skal ekki sáldrað í þann farveg hér utan þess að nefna að þegar nafn og mynd þess sem vill láta rödd sína heyrast er ávalt það fyrsta sem lesandinn sér, þá er hætt við að hin sjálfvirka dómgreindarnefna sem við teljum okkur búa yfir – og er ekki Guðs gjöf heldur arfur uppeldis og félagsmótunar – fari að lita viðhorf okkar til viðhorfa annarra.

En Orðið er ekkert sorprit og þaðan af síður verður hér vegið að heiðri einstaklinga úr launsátri.  Við erum ekki AMX en við erum ekki heldur Studia Theologica, Glíman eða Skírnir.  Við verðum að aðgreina á milli hlutverks netmiðils sem er ætlaður til að virkja og styrkja almenna umræðu og þess prentaða Orðs sem hefð og skylda býður okkur að halda á lífi.  Þó Orðið sé ekki bara fræðirit þá er það heldur ekki prentaður kynningarbæklingur á því sem gerist í guðfræðideildinni.  Heimasíða félagsins er sá vettvangur, já það eru breyttir tímar og sérhæfingin blasir við allsstaðar; en ekki bara hún, heldur það að þar sem myndugt fólk leggur saman hesta sína, þá opnast farvegur fyir þá sem ekki eru sérfræðingar til að tjá sig um málefni sem þau varðar sérstaklega.

Í gamla daga höfðu „útgefendur“ vald.  Sterkur netmiðill eða metnaðarfullt rit, þrátt fyrir allt – á tímum sem þessum – hefur ekkert sérstakt tilkall til þess að vera handhafi umræðu.  Umræðan með stóru Enni, fer ekki fram á einum stað.  Ritnefnd eða ritstjórn Orðsins hefur ekkert vald, ekki einusinni félag guðfræði-og trúarbragðafræðinema gat t.a.m. beitt deildarfund þrýstingi með samþykkt aðalfundar Fisksins á síðastliðnu vori.  Þar var óskað eftir því að kennaraliðið beitti sér fyrir því með sameiginlegu átaki að finna leiðir til að styðja við og efla útgáfugrundvöll ritsins.

Það erum við, nemendur deildarinnar sem erum risaeðlurnar á þessum vettvangi – þrælar hefðarinnar, stoltir merkisberar þess að gagnrýni er þörf í heilbrigðu samfélagi.  Hvar á sú gagnrýni að birtast?  Hvernig verður hreyft við stofnununum í lífum okkar?

Við viljum ekki gefast upp á þessari hefð því hefðir eru mikilvægar og þá sérstaklega í því samhengi sem mörg okkar leitast við að gangast upp í; samhengi kirkjunnar.

 

Guðfræðideildin og gagnrýnin umræða.

Ritnefndin hefur orðið vör við gríðarlegt vanmat, sjálfsgagnrýni – jafnvel ótta – hjá nemendum við að miðla hugsunum sínum í þessu samhengi kirkjunnar.

Háttvirtur prófessor, dr. Hjalti Hugason og sr. Sigrún Óskarsdóttir ávarpa þessa menningu í grein sinni „Kirkja óttans“ á trú.is þann 29. febrúar síðastliðinn http://tru.is/pistlar/2012/2/kirkja-ottans  Á einum degi fékk pistillinn tæpar 400 flettingar.  Það þykir nú bara gott á trú.is.  Þessi grein var brýning til kirkju í aðdraganda biskupskjörs, og hún er góð fyrir sitt leiti.  Hún nær til sinna.  En á grein þar sem fjallað er um skort á lýðræði í þjóðkirkjunni og ótta við umræðu ekki erindi til þeirra 78% þjóðarinnar sem tilheyra þjóðkirkjunni – ja, gott ef ekki til allra Íslendinga þar sem Biskupinn sem kjósa skal ber jú titilinn Biskupinn yfir Íslandi?  Höfum við rétt á að spyrja – hversvegna er greinin ekki í Fréttablaðinu?

Þarf ekki meira til en pistil, prédikun þar sem tekið er fram að kannski sé málað í of dökkum litum, til að koma af stað hreyfingu sem snertir við umræðufælninni?

Hér situr fólk prédikunarkúrsa ár eftir ár en veigrar sér við að láta í sér heyra.  Hér stúderar fólk íslenska kirkjusögu dag eftir dag án þess nokkru sinni að leggja orð í belg um þá sögu opinberlega.  Hér fæst fólk við fræðin dag og nótt, en vill ekki fyrir sitt litla líf miðla þeirri gagnrýnu sýn sem fræðimennskan býður sem persónulegum viðhorfum – heldur sem niðurstöðum fræðanna.  Það tekur nú sinn tíma og er sjaldnast í dynamísu hversdagsins.  Slíkur sérfræðihugsunarháttur dregur svo áfram máttinn úr nemendum til að tjá sig um nokkuð sem viðkemur samfélagslegri umræðu, enda sé hún í hendi sérfræðinga á því sviði – kæri þeir sig á nokkurn hátt um að taka þátt í henni.  Hvaðan þessi ómenning er sprottin vitum við ekki en hún blasir við í guðfræðideildinni, rétt eins og hún blasir við í þjóðkirkjunni, hverjum sem vill hana skoða og henni sinna af alúð, eins og því verki sem ætlað er að miðla sannleikanum.  Kirkjunni – vítt og breitt um alla veröld – er ætlað að miðla Jesú Kristi, voninni á hann og trúnni á þann Guð sem hann birtir.  Það er rödd hennar, hver sem mynd hennar er.  Henni er ekki ætlað að drepa á dreif, hylma yfir og hreykja sér.  Henni er ætlað að leita frelsisins í þeim farvegi sem Kristur hefur bent okkur á, í trúnni á sig.  Gagnrýni á hvaða veraldlega skipulag og mannfélag sem er sem sett er fram í trú á málstað Krists, á málstað smælingjans, á réttlæti sem veigrar sér ekki við að skíta út fötin sín, hvað þá „að fylgja köllun sem ei í mótun straumsins þver“ – sú gagnrýni á rétt á sér.  Og þær hugleiðingar sem fela í sér „óvinsælar hugsanir“ í samhengi þjóðkirkjunnar og guðfræðideildar – þær eiga það líka ef Guð lofar (og ritnefndin).

Hefðin og nafnlaus greinarkorn í Kirkjublaði Þórhalls Bjarnasonar.

Við horfum með velþóknun til fornra rita eins og Kirkjublaðs Þórhalls Bjarnasonar biskups og Hins Nýja Kirkjublaðs, þegar kemur að því að birta efni sem felur í sér gagnrýni.  Og það má ekki líta með neikvæðum forsendum á orðið sjálft „gagnrýni“ – það er barnaskapur umræðuóttans.  Hjá Þórhalli, síður en svo alltaf undir nafni, birtist þverskurður guðfræðilegra sjónarmiða og rökræða kirkjunnar á hverjum tíma.  Hún fór fram athugasemdalaust væri rétt með farið og málefnalega – en með athugasemdum ritstjórans neðanmáls ef eitthvað vantaði uppá fróðleik ritarans eða hallað væri réttu máli.  Rit Þórhalls var bæði vettvangur kynningar á nýjungum í fræðunum og hverdagslegrar kirkjupólítíkur og þar fengu öll sjónarmið að einhverju leyti pláss og gerði ritið kirkju og þjóðlífi þannig mikið gagn.  Það var því allra málgagn og það jafnvel þó svo umdeildar skoðanir kæmu fram nafnlausar.

Vitanlega ber Orðið ábyrgð á öllu því efni sem hér mun birtast, ritnefndin mun hafa um það að segja hvort hallað sé réttu máli og grundvallarreglunum sem settar hafa verið fram skal fylgja í hvívetna.  Orðið og ritnefnd þess eru vanmáttug ein og þess vegna vonum við að þú munir skrifa, lesandi góður, hvort sem er undir nafni eða ekki – og svo er auðvitað öllum velkomið að gera athugasemdir í gegnum facebook.

Verkefnið er að virkja samtalið sem fara þarf fram um komandi biskupskosningar.

Sú hefð að skrifa í nafni ákveðinna sjónarmiða er einnig þekkt úr biblíufræðunum og hafa mörg Pseudo-epigraphisk rit haft mikilsverð áhrif á kenningu kirkjunnar í gegnum tíðina.  Sum bréfa Páls sem og rit spámanna gamlatestamentisins koma þar upp í hugann.  Kristið fólk í dag er ekki í sjálfu sér einsleitur hópur frekar en hinir frumkristnu voru eða spámenn Ísraels og gagnrýni margra verður aldrei samhljóma.  Sem dæmi um þetta má benda á að sum skrif Trito-Jesaja (Jes.56.5-8) má lesa sem beina gagnrýni á einangrunarhyggju Esekíels.  Spennan er stundum tengd áherslum á musterið í Jerúsalem andspænis trúfesti við lögmálið – eða Orðið.  Þetta er spenna á milli bókarinnar og konungshefðarinnar, milli Jerúsalem og landsbyggðarinnar, milli Suðurríkisins og Norðurríkisins.  Skrif spámannanna birta hina sístæðu spennu á milli ólíkra áherslna í afstöðunni til nálægðar Guðs, þar sem víglínur skarast, þverskerast og mætast, á ólíkum forsendum varðandi ólík málefni.  Halldór Elías Guðmundsson segir í pistli á síðu sinni ispeculate.net að mismunandi sýnir á Guð, á helgihaldið og musterið, á félagslegt réttlæti og afstöðunna til „hinna“ virðist oft mótsagnakenndar og að oft sé erfitt að samþætta það sem kemur fram í mismunandi textum.  Hans nálgun felst í því að þetta sé „staðfesting þess að Guð er meiri en svo að við getum skilgreint til fulls.“

Það verkefni sem ég ýti hér með úr vör hér miðar að því að hér sé eitthvað svipað á ferðinni; orðræða og samtal sem ekki verður skilgreint til fulls.  En við getum þó sett ákveðnar mælistikur, umferðarreglur og viðmið sem skrifin þurfa að uppfylla til að teljast birtingarhæf á vefnum.  Ritstjóri Orðsins ber endanlega ábyrgð á þeim samkvæmt lögum þess og fullum trúnaði er heitið gagnvart þeim höfundum sem senda efni til blaðsins sem ekki telst birtingarhæft eða hlýtur samþykki ritnefndar.

Svo lesandi góður – láttu nú vaða.

 

f.h.

ordid.hi.is

Arnaldur Máni

 

Greinar sendist á netfangið ordid@hi.is