Ákall til kjörmanna í Biskupskosningu 2012

Eftir Arnór B. Blomsterberg – guðfræðinema

Á næsta leyti verða kosningar sem munu skera úr um hver verði næsti biskup yfir íslensku þjóðkirkjunni. Meirihluti landsmanna tilheyrir þjóðkirkjunni og eru margir sem eðlilega hafa skoðun á hver eigi að verða biskup yfir henni.

Á undanförnum misserum hefur kirkjan, sem stofnun, orðið fyrir mikilli gagnrýni. Sumt hefur átt rétt á sér, annað hefur verið óvægið og margt af þeim toga að maður veltir fyrir sér hvað fólki gengur til með málflutningi sínum. Margir segja núverandi biskup hafa sýnt af sér klaufagang í ákveðnum málum á meðan aðrir hafa staðið þétt við bakið á honum og risið til varnar fyrir hann. Látum það allt saman liggja á milli hluta.

Ég er hluti af þjóðkirkjunni. Ég er almennur leikmaður og hef ekki kosningarétt í biskupskjöri. Þar af leiðandi get ég ekki haft bein áhrif á það hver verður næsti biskup. Það breytir ekki því að ég get reynt að beita óbeinum áhrifum á þá sem koma til með að kjósa biskup fyrir mína hönd. Það ætla ég að reyna að gera með þessari grein.

Margir sem láta sér hag kirkjunnar varða, velta nú fyrir sér hverju kirkjan þarf á að halda. Hvaða kosti þarf næsti biskup að bera svo kirkjan haldi velli? Hvað þarf næsti biskup að gera svo almenningur snúist á sveif með kirkjunni að nýju? Það er næsta víst að komandi kosningar eru þær mikilvægustu innan kirkjunnar í langan tíma. Við verðum að hugsa til þess hvers íslenska þjóðin þarfnast, íslenskur almenningur – sauðsvartur almúginn. Ef ekki, þá er ansi hætt við að skútan steyti á skeri.

Hver ósköpin á fætur öðrum hafa dunað yfir íslensku þjóðina. Fólk er að missa lífsviðurværi sitt. Í framhaldi af því fer boltinn að rúlla, heimilið fer, hjónabandið, geðheilsan og svo koll af kolli. Með því að lesa ummæli almennings við fréttir sem fréttamiðlar bjóða uppá, sést svart á hvítu að í þjóðarsálinni grasserar stórt ómeðhöndlað krabbamein. Krabbamein sem stjórnvöld hafa ekki áhuga á að meðhöndla, krabbamein sem gæti að lokum tvístrað þjóðinni og um leið kirkjunni.

Íslenska þjóðin þarf sárlega á andlegum leiðtoga að halda. Leiðtoga sem heldur utan um þjóðina. Leiðtoga sem fer ekki í manngreinarálit og vílar ekki fyrir sér að tala máli litla mannsins. Leiðtoga sem vinnur að bættri geðheilsu almennings án þess að veraldlegt vald komi þar nærri. Í raun væri best ef Kristur sjálfur birtist, holdi klæddur og rifi þjóðina upp á afturlappirnar og kenndi fólki að hugsa í lausnum, framhjá öllum hindrunum. Það er ekki í boði en í boði er að kjósa manneskju til forystu sem hefur sýnt það á orði og borði að hún lifir og starfar eftir boðskap frelsarans. Manneskju sem tekur náungakærleik og umburðarlyndi alvarlega. Manneskju sem hugsar í hverjum aðstæðum með sér: „hvað myndi Jesús gera?“ og haga breytni sinni eftir því.

Ef slík manneskja verður kosin til biskups, þá þurfum við ekki að óttast um framtíð þjóðarinnar og framtíð kirkjunnar. Þjóðkirkjan næði fyrri hæðum í huga þjóðarinnar og sú óheillaþróun sem við höfum orðið vitni að á undanförnum árum innan og utan kirkjunnar myndi heyra sögunni til.

Ég vil biðja þá sem kjósa næsta biskup fyrir mína hönd að láta alla kirkjupólítík lönd og leið og hugsa þess í stað hvers íslenskur almenningur þarfnast.