Gildishlaðnar skilgreiningar

Ásta Elínardóttir – trúarbragðafræðinemi og femínisti

Ég datt inn á umræðu um fóstureyðingarvandann svokallaða inn á facebookspjallsíðunni Við kjósum okkur biskup fyrir nokkrum dögum. Upphafsspurningin sem og fyrstu svörin virtust saklaus til að byrja með en umræðan var furðu fljótt að taka upp einkenni pro-life og pro-choice baráttu. Upphaflega spurningin snerti semsagt hvort að komandi biskup myndi beita sér fyrir því að koma upp stöðu félagsráðgjafa innan kirkjunnar sem myndi aðstoða konur við að halda fóstri, annað hvort með ýmsum stuðningi eftir að barnið fæðist eða þá með aðstoð við ættleiðingarferli. Fljótlega var vakin athygli á því að hjá kirkjunni starfi nú nokkrir félagsráðgjafar nú þegar og að þeir gætu að sjálfsögðu sinnt þessum málefnum sem öðrum. Þá kom fljótlega í ljós sú áætlun að þessi tiltekna ráðgjafastaða ætti eingöngu að sinna vanfærum konum og aðstoða þær við að forðast fóstureyðingar. Tók þá einn frambjóðandinn af skarið og benti á að slík staða fæli í sér mjög gildishlaðna flokkun. Því þá væri ekki verið að bjóða aðstoð til allra vanfæra kvenna, þar sem að þær sem kysu fóstureyðingu mættu bara fara annað að sækja aðstoð. Með því að skipta vanfæru konunum niður kæmi upp sú staða að kirkjan setti sig snarlega á móti fóstureyðingum.

Þarna var kominn tími til að endurskoða aðeins spurninguna og hlutverk félagsráðgjafans. Það væri augljóslega mjög gott fyrir kirkjuna að bjóða upp á ráðgjöf fyrir vanfærar konur í vanda en að einskorða sig fastlega öðru megin við pólinn pro-life eða pro-choice er ekki eitthvað sem kirkjan ætti að gera. Enda á kirkjan að teljast þjóðkirkja. Það er kannski það orð sem mest er gildishlaðið í allri umræðunni. Þjóðarhlutinn af þjóðkirkjunni. Sífellt er verið að hamra á því í umræðunni um aðskilnað ríkis og kirkju að þjóðkirkjan eigi rétt á sér því hún sé fyrir alla þjóðina. Að allir séu velkomnir inn fyrir hennar dyr. Því hefur þó stundum farið ofan garðs og neðan hjá kirkjunni. Vandræði með samkynhneigða, vandræði með aðra trúarhópa, vandræði með brotamenn og brotaþolendur, vandræði með konur. Hver má vera í þjóðkirkjunni og hver má gera hvað innan þjóðkirkjunnar.

Í þessari fóstureyðingarumræðu voru konur, sem valið hafa þá leið að fara í fóstureyðingu einhverra hluta vegna, ekki velkomnar í kirkjuna. Þær þurfa að velja leið lífsins svokallaða og ganga fulla meðgöngu og gefa svo barnið í ættleiðingu ef ekki er vilji til að halda barninu. Það sem einkennir þessar umræður eru oft rangtúlkanir og misskilningur. Samkvæmt hinum ýmsu skýrslum sem gerðar hafa verið hérlendis af landspítalanum, sem og skýrslum frá samtökum og stofnunum á borð við World Health Organization og Sameinuðu Þjóðirnar þá er ekki nóg að bæta umræður um ættleiðingar og fjárhagsaðstoð. Það sem vantar er opnara samtal um getnaðarvarnir og rétt notkun á þeim. Það vantar aukna fræðslu um kynheilsu og kynverund í öllum kimum þjóðfélagsins. Þessa fræðslu vantar þá inn í skóla, inn á heimili, inn á heilsugæslustöðvum og í hinu almenna rými. Er það kannski einmitt þar sem að kirkjan ætti frekar að koma sér inn. Það er að segja að auka áherslur á forvarnir og fræðslu til heilla þeirrar þjóðar sem hún er svo gildishlaðið tengd í nafni sínu.

Í það minnsta ættu frambjóðendur og kjörmenn að hugsa sig tvisvar um það í ummælum sínum, hvort að konur séu hluti af kirkjunni og enn fremur hvort að aðeins þær konur sem hafa réttar skoðanir séu hluti af kirkjunni.