Hver erfir kirkjuna?

Sindri Geir Óskarsson – guðfræðinemi

 

Ef til vill er ég dramatískur, en í mínum huga munu komandi biskupskosningar skipta sköpum varðandi það hvort að Þjóðkirkjan „deyji” og verði endanlega stimpluð sem afturhaldssöm og gamaldags. Það er nokkuð greinilegt að þjóðkirkjan gengur ekki í sama takti og þjóðin þar sem að traust Íslendinga í garð kirkjunar mælist nú 28%. Það er því ærið verk fyrir presta í dag og presta framtíðarinnar að ætla að draga kirkjuna upp úr þeirri for sem að hún liggur í. Vissulega fer fram gott starf í mörgum söfnuðum og starf kirkjunar er þjóðinni mikilvægara en flestir átta sig á en það sem að fólk einblínir á eru mistök og afturhaldssemi kirkjunar og þjóna hennar.

Hvað þarf kirkjan núna? Nýtt fólk, einhvern sem að er hvorki innmúraður í valdaklíkur né íhaldsklúbb þjóðkirkjunar, einhvern sem kemur inn með nýja guðfræði og er óhræddur við að taka slaginn við ríkjandi sjónarmið presta og leikmanna kirkjunar. Það eru aðeins tveir í framboði sem að ég treysti fyrir framtíð kirkjunar þrátt fyrir að hinir frambjóðendurnir séu án efa vel meinandi og góðir einstaklingar.

Spurning mín er þó: hver erfir kirkjuna?

Eins og í umræðunni um náttúruvernd og vistspor mega prestar og valdahafar innan kirkjunar velta því fyrir sér í hvaða ástandi þeir tóku við kirkjunni og í hvaða ástandi þeir skila henni til komandi kynslóða. Á hvaða vegu eru hugsjónir þeirra og guðfræði uppbyggileg fyrir traust fólks á kirkjunni og hvort að þeir stuðli á einhverja vegu að frekara vantrausti og ádeilu á kirkjuna. Framþróun á alltaf að vera grundvallar markmið og ef starfandi prestar ætla að skila af sér betri kirkju með sterkri sjálfsvirðingu og góðri ímynd til komandi kynslóða þurfa þeir að velta fyrir sér hvaða áhrif þeir eru að hafa á kirkjuna í dag.

Það eru ekki bara við í guðfræðináminu sem erfum kirkjuna heldur líka sóknarbörn framtíðar og þjóðin öll. Það eru ekki starfandi prestar eða ríkjandi valdhafar sem erfa kirkjuana, þeir móta hana þó hvort sem það er meðvitað eða ómeðvitað og því er það skylda þeirra að taka mark á röddum þeirra sem eiga eftir að lifa í og með kirkjunni.

Mér þætti réttast að biskupskjör færi fram meðal alls þjóðkirkjufólks því að biskupinn þjónar jú öllum í kirkjunni ekki bara prestunum. Annað sjónarmið er að þjóðin öll fái að kjósa, þar sem um er að ræða þjóðkirkju þar sem biskupinn er embættismaður ríkisins, í raun ríkisstarfsmaður. Auk þess held ég að það væri skref í rétt átt fyrir kirkjuna að guðfræðinemar hefðu atkvæðavægi. Nú hafa 6 fastráðnir kennarar við Guðfræðideildina kosningarétt og hefur það verið svo frá því að biskupskosningar hófust. Vissulega eru guðfræðikennararnir mótandi fyrir framtíð kirkjunar en frekar vildi ég að þessi sex atkvæði tilheyrðu guðfræðideildinni í heild og að í gegnum kosningar meðal guðfræðinema og kennara væri hægt að deila þessum atkvæðum á milli frambjóðenda.

Orðið gerði könnun meðal guðfræðinema sem að stóð frá 5-7 mars, 66 nemar kusu og niðurstöðurnar voru eftirfarandi.

 

Sigríður Guðmarsdóttir 34
Gunnar Sigurjónsson 8
Kristján Valur Ingólfsson 6
Agnes M. Sigurðardóttir 5
Sigurður Árni Þórðarson 4
Örn Bárður Jónsson 2
Þórhallur Heimisson 2
Þórir Jökull Þorsteinsson 1
Annað 4
(6% kjósenda kusu einhvern sem að ekki var í kjöri, fékk Jesú Kristur tvö atkvæði, Arnfríður Jónsdóttir eitt auk þess sem að ein uppástunga kom um að leggja embætti biskups niður.)

samtals 66

Álit þjóðarinnar á kirkjunni hefur aldrei verið lægra og meirihluti þeirra sem að tóku þátt í könnuninni sjá framtíð kirkjunar best borgið í höndum Sigríðar Guðmarsdóttur. Það erum við guðfræðnemar og verðandi guðfræðingar sem eigum eftir að þurfa að byggja upp ímynd kirkjunar og skapa henni traust og virðingu. Því bið ég þá sem eru á kjörskrá í biskupskosningunum að skoða sitt „vistspor”, hvaða áhrif þeir hafa haft á kirkjuna, skoða hvernig hugmyndir þeirra tóna við kröfur samfélagsins og hvort að atkvæði þeirra sé ekki best varið í að kjósa einstakling sem að mun virkilega skapa kirkjunni betri ímynd.

 

Góð kona er góð gjöf, hún mun gefin þeim sem óttast Drottin. (Síraksbók 26:3)