Munur á kirkju og kirkju.

Ásta Elínardóttir – trúarbragðafræðinemi og femínisti

Mikilvægi einingar er ótvíræð innan kristinnar kirkju, Það að vera ein undir Guði. Flest öll þau kirkjuráð sem hafa komið saman ef ekki öll hafa lagt mikið upp úr þessum hluta. Ein með Guði. En er rétt að láta mikilvægi þess að vera stór og sterk saman grafa undir mikilvægi þess að allir séu jafnir frammi fyrir Guði. Að guðsríki sé allra óháð stöðu einstaklingsins og nú það mikilvægasta í umræðunni, óháð kyni einstaklingsins?

Innan feminískrar guðfræði má finna hugmyndir um að Guð sé vissulega ekki aðeins að finna innan fastmótaðra stofnanna eða kirkjulegra hefða. Það má finna átölur um að ef kirkjur eyddu minni tíma í að grúfa yfir minniháttar reglum og smáatriðum varðandi stöður fólks innan kirkjunnar og gæfu sér meiri tíma í að hlú að boðskapnum og nýta sér sköpunarkraft fjölbreytninnar til að koma guðspjallinu út á meðal manna, þá væri kirkjan í mun betra jafnvægi og nánari einingu en hún er nú. Hér er vissulega verið að tala um feminíska guðfræði í hinum stóra heimi en hana má vel yfirfæra á íslenska grundu nú um mundir. Hér má sjá margar mismunandi raddir rísa upp í kringum þessar biskupakosningar. Sumar þeirra samróma en aðrar mjög ólíkar. Vangaveltur um heillindi kirkjunnar og hverjir það eru sem mega tilheyra henni eru býsna háværar. Það sem vekur þó eilítið áhuga minn og varð kveikjan að þessari grein var umræðan sem nýtti sér þær feminísku hugmyndir sem ég minntist á hér ofar. Það er að segja að í stað þess að vesenast með ákveðnar reglur og smáatriði þá þyrfti kirkjan kannski helst að einbeita sér að því að sameinast. Að verða ein með Guði.

Í þeirri samræðu verð ég að spyrja sjálfan mig og um leið ykkur kæru lesendur. Er þá ekki kirkjan og þá einnig Guð að samþykkja kynjamisrétti í ákveðnum aðstæðum? Í ákveðnu ljósi. Samþykkir kirkjan þá ekki að sumir séu jafnari en aðrir? Er mikilvægara fyrir þjóðkirkjuna á Íslandi að vera ein, sameinuð og stór frekar heldur en réttsýn, sanngjörn og heiðarleg?

Rétt áður en lokafrestur til að tilkynna framboð rann út sendi ég bréf á mjög sterka konu innan kirkjunnar. Þar sem ég vildi forvitnast hversvegna hún hefði ekki boðið sig fram. Ég gat ekki annað en velt því fyrir mér hvers vegna nú á tímum jafnréttis og frelsis skyldu aðeins tvær konur gefa kost á sér til biskups. Tvær sterkar konur vissulega sem báðar hafa mikið til brunns að bera á mjög ólíkan hátt. En val á milli tveggja verður seint kallað fjölbreytni. Fjölbreytnin liggur því greinilega karlamegin við línuna í þessum kosningum með sex frambjóðendur.

Greinarhöfundur er mikill aðdáandi fjölbreytni, skoðanaskipta og margbreytileika. Það skal þó aldrei koma fram á kosnað réttsýni, sanngirni og heiðarleika. Við erum öll jöfn í fjölbreytninni og ótrúlegt en satt þá geta konur líka verið biskupar.