Biskup á hælaskóm!

Þegar við vinkonurnar sáum atriðið þar sem fyrsti dagur Margrétar Thatcher í breska þinginu er settur á svið í myndinni The Iron Lady datt okkur í hug annar vettvangur og annar tími en Bretland árið 1979. Myndavélinni er beint að skóm þingmannana þegar hersingin gengur inn í þingsalinn. Innan um aragrúa af þessum týpísku svörtu karlmansskóm stungu hvítir og svartir hælaskór Thatchers í stúf.  Við fáum líka innsýn inn í hversu mikill karlaklúbbur þingið var á þessum tíma með því að sjá þær vistarverur sem ætlaðar eru konum, lítil kitra með einum stól og strauborði. Á þeim 33 árum sem liðin eru  hafa stjórnmálin tekið miklum breytingum. En gæti þessi mynd átt við þjóðkirkjuna í dag?

Á undanförnum árum hefur Kirkjan þurft að takast á við breytt þjóðfélag og hefur henni stundum reynst það erfitt. Aðeins þarf að nefna tvö nýleg dæmi. Tillaga hóps presta um að þjóðkirkjan yrði skrefi á undan löggjafanum um að samþykkja rétt samkynhneigðra til hjónabands náði ekki fram að ganga.  Á prestastefnu árið 2010 lagði 91 prestur fram tillögu þess efnis að prestastefna lýsti yfir stuðningi við lagafrumvarp dóms- og mannréttindamálaráðherra um ein hjúskaparlög á Íslandi. Var þá sameiginlegt ritual samþykkt. Eins voru viðbrögðin við biskupsmálinu svokallaða klaufaleg og frekar eins og varnarleikur í stað skjótra og skeleggra viðbragða sem þær konur sem komu fram með reynslu sína áttu svo sannarlega skilið.

Þó svo að tæplega einn þriðji þjóna kirkjunnar séu konur þá er stundum eins og við séum ennþá í gömlum karlaklúbbi. Við þurfum einhvern sem þorir að kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Kynferðisofbeldi er synd og með því versta sem hægt er að hugsa sér. Kynferðislegt samband tveggja fullveðja einstaklinga af sama kyni er það ekki.

Segja má að þjóðkirkjan hafi misst traust. Vissir samfélagshópar hafa ekki fundið sig velkomna innan kirkjunnar og kannski er ekki að undra að fólk hafi sagt skilið við kirkjuna.

Sigríður Guðmarsdóttir hefur komið þannig fram undanfarið að hún er okkur mikilvæg fyrirmynd. Hún er réttsýn, sanngjörn og er óhrædd við að taka sér stöðu með því sem hún telur vera réttan málstað.  Þess vegna hefur hún stundum verið talin róttæk. Hún hefur líka allt til brunns að bera til þess að sætta, vinna traust og byggja brýr. Við teljum það vera nákvæmlega það sem kirkjan þarf núna. Við þurfum ferska vinda og hugrakkan leiðtoga.

Ef þjóðkirkjan á að vera kirkja þjóðarinnar þurfum við biskup sem er í takt við það þjóðfélag sem við lifum í núna. Árið 2012 er ekki hægt að líta framhjá þeirri staðreynd að aldrei hefur kona verið kosin biskup eða vígslubiskup. Við höfum allar hugsað okkur að starfa innan kirkjunnar í framtíðinni. Þess vegna biðlum við til þeirra sem kjósa í biskups kosningunum að íhuga val sitt vandlega og hlusta á rödd samfélagsins og nýrrar kynslóðar innan kirkjunnar sem kallar eftir breytingum.

 

Eva Björk Valdimarsdóttir

Halla Rut Stefánsdóttir

Jóhanna Gísladóttir

Höfundar eru allar prestnemar