Dæmi frá greiningardeildinni!

Eftirfarandi texti er gróft og einfalt dæmi um hvernig Greiningardeild Orðsins mun taka málflutning biskupsefnanna fyrir þegar úrslit fyrri umferðar kosninganna verða ljós.

Auðvitað er vandasamt að flokka og greina – sérstaklega í því samhengi sem á að kallast ábyrgt.  Rök verða að fylgja máli og það getur verið flókið að birta hið augljósa og sjálfsagða.  Aftur á móti þá þarf ekki að gera ráð fyrir því að margir lesi þessa greiningu sem ekki eru inní því máli sem nú ber við himinninn í kirkjunni, kosningabaráttunni til biskupsembættisins yfir Íslandi.  Inn í það samhengi þarf að tala og kannski einfaldast að skoða yfirlitssíðu Fréttablaðsins frá 3.mars.  Þar má finna einfalda flokkun á frambjóðendunum t.d. hvað varðar afstöðu til þáttöku í Gleðigöngu samkynhneigðra.  Fjögur þeirra eru jákvæð gagnvart slíkri athöfn, tvö taka slíku með fyrirvara en tveir taka skýra afstöðu gegn slíku.

Við skulum hér og nú taka okkur það bessaleyfi að setja biskupsefnin á kvarða sem kalla mætti frá frjálslyndi til íhaldssemi – en um leið verður að átta sig á því að inn í þeirri mynd birtast ekki þættir eins og áhersla á hákirkjustefnu (kirkju helgihalds og siða) eða lágkirkjustefnu (kirkja samskipta og verkaréttlætingar).  Við skulum segja að frjálslyndust séu þau Sigríður Guðmarsdóttir, Sigurður Árni Þórðarson og Þórhallur Heimisson. Á hæla þeirra, en af öðrum toga koma Vestfirðingarnir tveir, Örn Bárður Jónsson og Agnes Sigurðardóttir en Kristján Valur Ingólfsson, sem þýddi hjónavígsluritúal íslensku þjóðkirkjunnar myndi ekki taka þátt af tæknilegum ástæðum.  Þórir Jökull Þorsteinsson og Gunnar Sigurjónsson myndu síðan ekki taka þátt af guðfræðilegum ástæðum.

Í raun væri gagnlegt að greina um leið hákirkjulega afstöðu hvers og eins, áherslur á helgihald og formlegheit í mótvægi við áherslu á aðkomu kirkjunnar að þjóðmálum og grasrótarstarfi, til dæmis, en slík flokkun byggir um leið ekki á aðgengilegum svörum að sama skapi og í fyrra dæminu. Greiningardeildin viðurkennir því að eftirfarandi niðurstöður eru auð-véfengjanlegar.  Það má með ákveðinni og grófri einföldun gera því í skóna af svörunum í Fréttablaðinu 3.mars að tvö af kandídötunum, Agnes og Kristján, telja ekki mikilla breytinga þörf á meðan Þórir Jökull kallar eftir hástemmdari og fornari kirkju.  Í hans samhengi er þó um að ræða skipulagsbreytingar með fjölgun fullgildra biskupa, sem er mál sem ekki verður farið út í hér. Þau þrjú getum við því kallað fulltrúa ákveðinnar varðstöðu um ríkjandi skipulag, til mótvægis við hin sem eftir standa.

Fimm telja starf biskpus á næstu árum felast í mikilli breytingastjórnun, mismikilli þó.  Þar mætti telja Sigurð Árna og Þórhall (auk Agnesar) sem vilja fara varlega, þeir tala um að tengja aftur við þjóðfélagið og hefja baráttu til að endurheimta traust.  Sigríður bendir á að starfsmannastefnu þurfi til og notar þar tungumál nútímalegs fyrirtækjareksturs eins og Örn Bárður raunar gerir með sínum áherslum um að kirkjan þurfi að efla sitt starf t.d. með sjálfstæðum tekjustofnum.  Að lokum má nefna Gunnar Sigurjónsson sem vill hreinsa til í hákirkjunni og komast til fólksins á alþýðlegum grundvelli, sem byggir á hugmyndinni um þjóðkirkju sem risavöxnu trúfélagi þar sem biskupinn sé nokkurskonar alltmuligmand sem kunni að tala við alla, eins og hreppstjóri í sérstæðri sveit.

Allt eru þetta góð og gild sjónarmið sem í þessari röð varpa vonandi smá ljósi á muninn á þeirri litúrgísku (hákirkja) stefnu sem hefur verið við lýði og hinni karismatísku (lágkirkja) hreyfingu sem rutt hefur sér rúm með fjölgun sjálfstæðra kristinna trúfélaga á síðustu árum.  Allar athugasemdir við þessa greiningu eru vel þegnar, enda hér ekki um neinn heilagan sannleik að ræða frekar en hjá öðrum greiningardeildum.