Um umræður og umdeilt fólk

Um umræður og umdeilt fólk

eftir Arnald Mána Finnsson.

Yfirstandandi biskupskosning hefur sérstakt yfirbragð á sér.  Eins og myndin Paradísarbörnin eftir Marcel Carne.  Fyrir þeim sem reyna eftir fremsta megni að fylgjast með umræðunni sem er í gangi virðist hið annars gamla og góða orð „samtal“ vera orðið að gildishlöðnu orðskrípi sem eigi að lýsa þeim látbragðsleik sem fram hefur farið. Í kirkju þar sem mér vísara fólk greinir umræðuótta (sjá tru.is) hefur kosningabaráttan því ekki verið kölluð sínu eigin nafni heldur Samtal við þjóðina. Ég kalla það látbragðsleik því lögmál hans er þetta: leikarinn leikur og inntakið næst, en það heyrist ekki neitt.

Jú, vissulega hefur kynning á þeim sem bjóða sig fram verið með ágætum ef miðað er við aðkomu kirkjunnar að þeim málaflokki og borið saman við biskupskjörið sem fram fór árið 1997.  Og vissulega var opnað á einhverskonar umræðu með opnum hópi á facebook þar sem þeir sem hafa áhuga á slíku netspjalli gátu borið fram spurningar til biskupsefnanna.  Og jú, allir eru kandídatarnir í takt við tímann og taka þátt í kynningu á netinu. Og vissulega geta þöglar myndir verið áhugaverðar, list í hæstu hæðum.  En manni er spurn þegar kemur að hinni almennu umræðu – er þetta samtal við þjóðina að gera sig?  Það er nefnilega þannig að þegar þjóðin öll er ekki kosningabær heldur aðeins 502 einstaklingar þá beinist umræðan og samtalið fyrst og síðast að þeim.  Einhver hefði haldið að fjölmiðlarnir myndu loga, almenningur sem hafa vildi áhrif á kjörmenn myndi skerpa undir pennum sínum og rita í blöðin.  Jafnvel að RÚV myndi leggja einn þátt á góðum sjónvarpstíma undir umræður – eins og t.a.m. var raunin árið 1997.  En nei, fyrir utan útvarp Sögu hafa fjölmiðlar sýnt því forvali sem raunar er að fara fram afskaplega lítinn áhuga.  Og almenningur hefur lítið gert til að þrýsta á fjölmiðlana um að sinna þessari umfjöllun.  Áhugi almennings virðist vera lítill.  Samtal við þjóðina hjóm.

Sú spurning hefur vaknað í huga þess sem þetta ritar hvort að hér sé um merki þess að ræða sem kallað hefur verið „rof á milli kirkju og þjóðar“?  Er það staðreynd að áhugi almennings sé svo lítill á þessu kjöri að það sé ekki raunveruleg þörf á umfjöllun eða samtali biskupsefnanna og fjölmiðlanna (sem fulltrúa almennings)?  Við þessar spurningar vakna enn fleiri spurningar um hlutverk kirkju og guðfræði, jafnvel okkar sem guðfræðinga (eða guðfræðinema); hvort að „okkur“ – samtímaguðfræðingum – hafi mistekist að varpa ljósi á og fjalla um það sem máli skiptir í þessu kjöri svo það nái eyrum almennings, veki áhuga þeirra, komi af stað samræðu.  Maður veltir því fyrir sér hvort ástæðan geti mögulega verið afmörkuð við það að almenningur fái ekki að kjósa – nema óbeint í gegnum fulltrúalýðræðið.  Hefði það breytt þessu ferli?

Í nágrannalöndunum hafa almennar kosningar verið reyndar þegar kemur að því sem við getum kallað einu nafni kirkjupólítík.  Í Svíþjóð bjóða raunar flokkspólítískir listar fram til kirkjuþings en í Noregi er kerfið aðeins frábrugðið og kosið er meðfram sveitarstjórnarkosningum.  Skoðum í fljótu bragði reynsluna frá Noregi – en sú tilraun er liður í lýðræðisvæðingu kirkjunnar og varð að frumkvæði ríkisins í ljósi þess að aðskilnaður ríkis og kirkju væri í uppsiglingu.  Þar er þáttaka í kosningunum til kirkjuþingsins sáralítil, á bilinu 10-15% og þó má segja að kirkja og kristni setji að miklu leiti mun meiri svip á norskt þjóðfélag heldur en Þjóðkirkjan á hið íslenska.

Getum við gert ráð fyrir því að almenn kosning í biskupskjöri hefði skilað betri kjörsókn en raun ber vitni í þessu dæmi frá Noregi?  Að vísu mætti halda því fram að góðs árangurs hefði mátt vænta ef kosningin hefði verið látin fara fram í samhengi þess forsetakjörs sem við væntum í sumar, en sú hugmynd kom aldrei upp og því verðum við að horfast í augu við spurninguna eins og um sjálfstæða kosningu hefði verið að ræða.  Ég held að svarið við henni yrði það að almenn kosning hefði borið svipmót þeirrar umræðu sem þegar hefur farið fram, hún hefði orðið gífurleg vonbrigði og lág kosningaþáttaka hefði varpað upp erfiðum spurningum um stöðu þjóðkirkjunnar og samleið hennar með þjóðinni.  Jú vissulega hefði þá sá hluti hennar sem áhuga hefði haft kosið þann biskup sem tæki við, og þar með væri líklegra að samleið þjóðar og kirkju yrði meiri í kjölfarið, en um leið er alls ekki sjálfgefið að kirkjan sjálf hefði farið vel útúr kosningunni.  Kosningabaráttan hefði orðið harðari, jafnvel blóðug og fylkingar innan kristindómsins á Íslandi ef til vill orðið svo skýrar í augum almennings að einhverskonar undirróður um klofna kirkju færi á kreik.  Í raun er mun betra fyrir mig – og kirkjuna – og mig sem hluta af kirkjunni að geta ekki beitt mér, þurfa ekki að taka afstöðu með eða á móti frambjóðendum, því að eins og fyrirkomulagið er í dag þá get ég valið mér það að leggja traust mitt á dómgreind þeirra sem fara með atkvæðin og ég get valið mér það að fylkja mér – sem hluti af kirkjunni – einhuga að baki þeim kandídat sem verður valinn og vígður til biskups.  Ef ég get sætt mig við það að Kristur sé sá sem hann er og að ég breyti honum ekki að mínum hentugleika, hversvegna ætti ég þá ekki að sætta mig við það að kirkjan er sú sem hún er og henni breyti ég ekki úr prestakirkju í lýðheilsustofnun í einni svipan?

Eitt er það sem hefur þó angrað mig sérstaklega í þeirri kosningabaráttu sem fram hefur farið á síðustu vikum og virðist stafa af þeim umræðuótta sem áður var nefndur.  Hann er að mínu mati skyldari lífstílsmenningu dagsins í dag og áherslunni á uppbyggilega egó-sálfræði sem hún litast af, heldur en að umræðuóttinn sé í raun öfugnefni á þöggunarhugtakinu.  Það er ekki einhver þöggun í gangi sem kemur í veg fyrir að gagnrýni á ríkjandi skipulag nái upp á yfirborðið.  Það er miklu frekar vemmileg tilhneiging til þess að telja alla gagnrýna umræðu bera vott um neikvæðni einstaklinganna sem hana bera fram eða árásargirni.  Það er þegar að þeir sem krefjast eða boða breytingar eru stimplaðir sem einhverskonar óánægjulýður sem geti ekki litið glaðan dag án þess að taka út reiði sína á einhverjum sakleysingjum.  Það er óþarfi að nefna nöfn en margir einstaklingar hafa mætt andstöðu fyrir það eitt að gagnrýna, mætt mótbyr því að þau fylgdu réttlætiskennd sinni í tilteknum aðstæðum og hafa mátt þola þær ávirðingar síðan „að vera umdeild“.  Eigum við ekki að láta af þeim ósóma að kalla umdeilt fólk „hættulegt“? Það er viðtekin söguskoðun að það hafi verið mikil blessun fyrir íslensku þjóðkirkjuna á síðustu öld þegar mjög umdeildur prestur sigraði í biskupskosningum með naumum meirihluta og leiddi inn á nýjar brautir.  Og það er viðtekin söguskoðun að böl hennar hafi aukist mjög þegar algjörlega óumdeildur prestur gekk að biskupstign sinni vísri – og þá hafi ákveðinn armur kirkjunnar gerst hatrammur og vegið að viðkomandi úr launsátri.  Það er ekki mitt að fást um þessar viðteknu söguskoðanir, en ég get mótmælt því eins hátt og kyrfilega og mér er framast unnt að gagnrýnin umræða sé birtingarmynd neikvæðni og biturðar.  Gagnrýnin hugsun er frumþörf og frumhvöt, nauðsynlegur hluti af íslenskri sjálfsbjargarviðleitni eins og hún gerist grískust, hún er forsenda hreyfingar, framþróunar og þroska.  Hún er forsenda sjálfstæðis og sjálfstæði er forsenda þess að geta tekið þátt í jafningjasamfélagi, forsenda þess að vera myndugt kristið fólk í gefandi kirkjusamfélagi.  Guði sé lof fyrir hana.  Í henni birtist náð hans og kraftur – já, gott fólk – hvar sem tveir eru samankomnir í Jesú nafni, hvort sem þeir eru að takast á um veraldlegt skipulag eða kenningarleg mál, þar er hann og mitt á meðal þeirra.  Minnug þess sendum við á sextugt djúp sundurlyndisfjandann.

Í vinsemd og með fullri virðingu fyrir öllum hinum frambærilegu kandídötum!

Arnaldur Máni Finnsson, ritstjóri.