Önnur umferð; hrós undir rós.

Orðið hrósar í biskupskjöri!

Jú, hið ótrúlega getur gerst!  Hið æði harðorða  vefrit guðfræðinema hefur ákveðið að vekja athygli á því sem gagnlegast hefur verið gert að mati ritnefndarinnar í tengslum við biskupskjörið sem nú fer fram.  Það mun að minnsta kosti gagnast greiningardeild Orðsins sérstaklega vel að hafa aðgang að svörum biskupsefnanna við spurningum þeim* og svörum sem birt hafa verið á hinum ágæta vef www.prestar.is.  Vissulega er um nokkuð sérhæfðar spurningar að ræða og oft á tíðum nánast kirkjupólítískar.  Aftur á móti er þar um efni að ræða sem guðfræðinemum ættu að vera kunnug og/eða ljós og því hvetjum við þau sem áhuga hafa á því hvert kirkjan stefnir að skoða svörin.  Af svörum þeirra Agnesar Margrétardóttur Sigurðardóttur og Sigurðar Árna Þórðarsonar er margt hægt að greina um hvert kirkjan stefnir nú þegar.  Eins má þar sjá hvar þau eru ósammála eða hafa mismunandi áherslur.  Þær spurningar sem bornar hafa verið upp við biskupsefnin og svörin við þeim hafa einnig verið sett upp á handhægri síðu sem nálgast má hér.  Vilji fólk kynna sér áherslur þeirra enn frekar en af svörunum þar bendum við vissulega einnig á heimasíður þeirra sem nálgast má hér (AMS) og hér (SAÞ).

Hér setjum við fram örstutt dæmi um hvernig má skoða þetta tvennt með hliðsjón af vefnum www.prestar.is .   Spurningar vefsins eru flokkaðar í 7 undirflokka sem varða; persónulega hagi, kirkjuskipanina, biskupsþjónustuna, sambandið við ríkið og þjóðina, embætti presta og prófasta, kærleiksþjónustuna og fjölmenningarmál.

Ef lagðir eru saman liðir þar sem þau Agnes og Sigurður eru sammála, eru þar vissulega margir snertifletir.  Sem dæmi má nefna að þau telja bæði að prestar eigi áfram að vera opinberir starfsmenn ríkisins (sjá V.h) og að halda eigi fast í samviskufrelsi presta (sjá VII.a).  Það er fróðlegt, enda hlýtur þá sú krafa að vera gerð til þeirra að gera grein fyrir því hvernig þau telja það samrýmast að vera opinber starfsmaður en mega neita ákveðnum aðilum þjónustu vegna persónulegrar sannfæringar.  Eins má nefna í þessu samhengi að þau eru sammála um að fjárstjórnarvald kirkjuráðs eigi að færast til kirkjuþings (sjá II.e) svo ljóst er að hreyfing hlýtur að verða í þá áttina á næstu misserum hvernig sem kjörið sjálft fer.  Af svörum þeirra varðandi fjárstjórnina (t.a.m. II.e) má nefna að Agnes sér fram á að ráð sé að draga úr fjárútlátum, efla sjálfboðaliðastarf og sækja sóknargjöldin að fullu til ríkisins – og þar eru þau Sigurður nokkuð sammála þó hann beini athyglinni fyrst og fremst að sóknargjaldamálinu.  Athygli vekur að hvorugt þeirra setur í raun út á það hvernig málum hefur verið háttað í fjárreiðum kirkjunnar hingað til.  Það er kannski bara vel og í anda þeirrar kosningabaráttu sem fram hefur farið.  Ef við aftur á móti gerumst svo djörf að draga það hér fram í hvaða efnum þau eru ósammála eða hafa gjörólíka kirkjusýn þá má nefna IV lið spurninganna: Samband við þjóðina, Ríki og Kirkja.  Þar sjáum við annarsvegar í Agnesi fulltrúa landsbyggðarkirkjunnar sem hvílir í traustu umhverfi þar sem kirkjan er sjálfsagður hluti af lífi og menningu þjóðarinnar.  Svör Sigurðar birta okkur hinsvegar fulltrúa kirkju sem sótt er að í borgarmenningunni, um endurkomu hennar í hversdegi fjölskyldnanna og þá sókn sem hefja þurfi í barnastarfinu.  Vissulega má tiltaka fleiri mál þar sem þau eru sammála eða greinir á, en Greiningardeildin mun leggjast yfir þau mál í framhaldinu, hvort sem þær breytur sem unnið verður með er að finna í spurningalista vefsins eða annarstaðar.  En svo það sé á hreinu.  Til hamingju www.prestar.is og séra Flóki!

Greiningardeildin.

* Að gefnu tilefni er það tekið fram að umræðan hér að neðan gerði það að verkum að við uppfærðum textann að hinu sanna, þ.e. að spurningarnar voru ekki á vegum Prestafélags Íslands.  Greiningardeildinni var ljóst að vefurinn sjálfur væri framtak sr. Flóka Kristinssonar ritstjóra Kirkjuritsins, en útgefandi þess er Prestafélag Íslands.  Sá misskilningur að spurningalistarnir væru framtak félagsins hefur væntanlega sprottið af því að nokkrir mikilvægir hagsmunahópar sendu biskupsefnunum spurningalista, sbr. Djáknafélag Íslands og Félag íslenskra organista.   Slík vöntun var á spurningunum frá prestastéttinni að við (sem fylgjumst með kjörinu af brennandi áhuga) gerðum þá leiðu skyssu að gera ráð fyrir því að þarna væru spurningar hennar komnar fyrir sjónir almennings, enda er hagsmunum prestanna haldið sérstaklega á lofti í sumum þeirra  (t.d. II.b-d og III.b-i).  Þessar leiðandi spurningar um áhrif prestastefnu og aðkomu leikra að kenningarlegum málefnum, en kannski  sérstaklega svör frambjóðendanna við þeim, villtu um fyrir Greiningardeildinni og er það miður.  En áður hefur verið sagt að Greiningardeildin er langt í frá fullkomin!  Við þökkum innilega fyrir það að við séum leiðrétt og enn kærlegar hefjist af útlistununum umræður.  Greiningardeildarflokkur Orðsins er hlutlaus umfjöllun í eðli sínu um áþreifanlegar stærðir, ólík þeim sem bankarnir beittu fyrir sig.  Þér og þínum er velkomið að leggja til málanna á þeim forsendum sem kynntar voru í Manifestoi Orðsins.  Greining sendist á ordid@hi.is. Leggjum öll í púkkið!  Takk fyrir leiðréttingar og umræðu PBÞ og GJó!

Takk aftur Takk.     Deildin.