Gagg eða Gagnrýni?

Gagnrýni eða gagg-rýni?

Það er jú svo að satt reynist að ekki verði öll rýni til gagns – og í tíðaranda takmörkunar, upphrópana og dómhörku virðist margt af því gagg sem er borið á borð undir formerkjum gagnrýninnar.  Undirrituðum hefur verið tíðrætt um greiningu Hjalta Hugasonar og Sigrúnar Óskarsdóttur sem fram kom í aðdraganda biskupskjörs í umdeildum pistli á www.tru.is .  Þar var nefndur á nafn umræðuótti í kirkjusamfélaginu sem við hjá Orðinu höfum af veikum mætti reynt að bregðast við með innleggi í umræðuna um biskupskjörið sem nú fer fram.  Á kaffistofu guðfræðinema hefur verið sagt sem svo að  við tölum svo mikið um umræður – eða óttann við þær – að við virðumst ekki hafa tíma til að fjalla um málefnin sjálf eða biskupsefnin.  Á móti spyr undirritaður – hvernig fáum við þig til að miðla til okkar þinni skoðun?

Kannski tekst okkur ekki að reita þig til reiði yfir því að hafa ekki rödd og ekki vettvang, að stugga við þér svo þú sjáir að þessi farvegur er þér jafn opin og öðrum.  Kannski finnst þér þú ekki hafa nægt vit á þessu málefni eða hinu, kannski óttastu að verða leiðrétt/ur á opinberum vettvangi.  Kannski finnst þér að aðrir ættu að skrifa um þetta eða hitt.  Kannski óttastu að verða leidd/ur á bás og þér gerðar upp skoðanir, kannski býstu við því að dragirðu taum eins málsvara þá vomi yfir þér illtunga hins.  Kannski viltu ekki verða aðili að flokkadráttum, kannski var erfitt að tjá sig þegar valkostirnir voru of margir til greint yrði á milli þeirra með yfirveguðum hætti.  Kannski ráða tilfinningarnar ekki för.  Kannski kannski kannski.  Ritnefnd Orðsins brýnir þig lesandi góður til að segja ekki Nei! heldur kannski kannski kannski.

Og nú er talað um að snarpur umræðutími sé fyrir höndum; kjörseðlar verða sendir út eftir eina viku!  Þeim skal skilað fyrir 14.apríl.  Og í kjölfarið verður ljóst hvort þeirra biskupsefna sem eftir standa hlýtur vígslu á Jónsmessunni.

Það þarf ekki að draga dul yfir að baráttan er að herðast að einhverju leiti, enda hefur hún hingað til verið afskaplega kurteisisleg.  Við ætlum okkur að halda henni þannig á síðum þessa vefrits.  Aftur á móti þá erum við ekki mótfallin því að fjalla um orðræðu sem er harkaleg, takmörkuð, full af upphrópunum og dómhörku.  Við gerum engum rangt til með því að nefna hana sínu nafni.  Hún hverfur ekki með því að þegja um hana.  Og eina leiðin til að uppræta hana er að leyfa henni að standa í ljósinu.  Þegar fullyrt er opinberlega að annar aðilinn standi fyrir þessi gildi, en hinn aðilinn “þau” – án þess að rökstuðningur fylgi – þá erum við að gleyma því sem máli skiptir; því sem þau standa sameiginlega fyrir.  Fögnum því að kirkjan sé í startholunum.  Báðir kandídatarnir í framboði, hvort þeirra sem tekur við af sr. Karli biskup, hafa boðað siðbót, valddreifingu, uppörvun.  Látum ekki eins og við vitum hvernig annað fólk muni gera hlutina eða beita sér.  Lofum lífinu – eins og þar segir… eða eins og Páll Óskar segir; “Þá er bara að loka augunum og leyfa Guði…”

Undirritaður sat í Borgarleikhúsinu um daginn á sýningunni Fanný og Alexander (og mælir sterklega með henni) þar sem aðalpersóna er biskup; píetísk ímynd heilagleika og hjálpsemi – en áhorfandinn hefur kynnst mannlegri/breyskari hlið hans, dómhörku og valdhroka, upplifað tvískinnungshátt hans og þó um leið séð á hans djúpa innsæi á sálarlíf manna.  Þetta er dramatísk sýning – um hana mun ekki fjallað frekar hér og nú, þó þörf væri á – þar sem lítið fer fyrir hrópum og klappi… Undirrituðum brá því í brún þegar hann upplifði viðbragð fjöldans við ákveðinni senu þar sem fulltrúi hispursleysisins, andstæða siðseminnar, kvikt og lifandi týpos mannlegra breiskleika brýst út í vandlætingarræðu yfir þessum biskup og hræsni hans, svo klækir hins breyska virðast um stund jafnvel dæmi um dýrkeypta réttlætiskennd.  Það fór um mig þegar áhorfendaskarinn braust út í hrópi og klappi, slíkur var feginleikurinn yfir því að þessum uppskrúfaða biskup væri sagt til syndanna.  Slík reiði býr þarna “úti”.  Þessar tilfinningar bærast í brjóstum fólks sem hefur enga rödd.

Sem dæmi um gaggrýni viljum við bera á borð ykkar dæmi til umhugsunar – jafnvel umræðu sem ekki er leyfð á vef viðkomandi – því í gagginu birtist oft dómur þess samfélags sem við hrærumst í.  OG við dómum þess verðum við sem kirkja, í sameiningu, að bregðast  þegar þetta köllunarferli til biskupsþjónustunnar hefur runnið sitt skeið.  Það er hinn frómi rithöfundur og háðfugl Guðbergur Bergsson sem ritar á síðu sinni pistil sem fjallar um endurmat samtímans.

Prest langar að hækka í tign og verða biskup. Háseta langar ekki einu sinni til að verða skipstjóri. Það eina sem honum væri æskilegt er að kaupið verði það hátt að hann geti farið í búðina og keypt handa konu, krökkum og sjálfum sér of mikið til þess að þau geti torgað því með góðu móti og hann iðrist ekki að eitthvað fari í ruslatunnuna. Aftur á móti hefði prestur ekkert á móti því að verða biskup þótt guðsorðið færi í glatkistuna eða stjórnmálamaður að hann kæmist á Alþingi þótt kjaftæði hans kafnaði í pontunni.

Til er sjúkdómur lærðra karla og kvenna sem fer leynt í bælinu en líklega væri hægt að kalla embættissýki.

Valdabaráttan er afleiðing embættissýkinnar.

Geta þannig sjúklingar staðið að endurmati heimsins hvort sem þeir eru karl- eða kvenkyns?”

 

Nú er það ykkar að segja.  Dæma þessi ummæli sig ekki sjálf?

 

Í Guðs friði.

Arnaldur Máni Finnsson