„Þarf eitthvað’að?“ – Bæn fyrir betri kirkju.

Um skort á umræðu og þörf á málefnalegu innleggi ; Muniði Móse?

Það er ódauðleg persóna Ólafs Ragnars úr Vakta-seríunni sem hefur að sögn leikarans Jóhanns Péturs á hraðbergi tilsvör Ásgeirs Kolbeins og FM-hnakkanna; þar sem hann segir “Þarf eitthvað að ræða það?  Er ekki málið dautt.”  Stundum líður manni þannig í slagorðasamfélaginu – já og stundum líður manni þannig þegar maður fylgist með biskupskosningum.

En svo er annað, hvernig á þessi umræða að vera – á hverju byggir hún og hvers vegna hefur hún snúist um persónur en ekki málefni?  Af hverju tönnslast fólk í eilífu á þessu orði – leiðtogahæfileikum.  Muniði Móse?

Hefur kirkjan misst traust því innan hennar skorti leiðtogahæfileika?  Nei.

Var það því hún dvaldi eða dvelur við lögmálið?  Nei.

Er það vegna þess að hún tekur ekki þátt í slagorðasamfélaginu?  Nei.

Því hún kann ekki að horfa til framtíðar og horfir bara til baka í hefðina?  Nei.

Hlustar enginn á kirkjuna – því hún kann ekki að hlusta?   Neee…

Við vitum öll að kirkjan er á einhverjum barmi – barmi framtíðarinnar að mínu mati – og við vitum að báðar þær persónur sem hlutu framgang í aðra umferð biskupskosningar bera hana í skauti sér.  Reynt hefur verið að gera mikið úr þeim mun sem á frambjóðendum er á síðustu vikum og hefur sú áhersla verið enn eitt lóð á ómálefnalega umræðu.  Hvers vegna segi ég það?  Nú því hún beinir athyglinni að persónunum en ekki málefnunum – hún dregur fram hleypidóma fólks, birtir hroka og einfaldanir, hrópar á ímyndir og gerir lítið úr manneskjunum inní persónunum; hún birtir skort á virðingu, skort á íhygli, skort á virkri umræðuhefð.  Við búum við kirkjumenningu sem kann ekki að tala saman, kann ekki að sætta ólík sjónarmið.  Við stöndum á kafi í kirkjupólítískum pytti sem dregur dám af stjórnmálaumræðu, um leið og hún þykist vera á allan hátt fjarskyld henni og siðferðislega á allt öðru plani.  Er þetta ekki blekkingarleikur?  Erum við ekki blinduð í eyðimörkinni Móselaus og allslaus?  Streðum við ekki við að bræða gull í kálf, þrátt fyrir að Aron, ættfaðir prestastéttarinnar – öllum sínum kostum og köðlum búinn – streitist við og biðji; „Móse farðu nú að snúa aftur.“   Móse var hugsuður, ekki fjölmiðlafulltrúi.  Hann stóð einn, íhugaði og átti nánd við Guð.  Og gott ef ekki að hann var syndari og ekkert sérstaklega fríður sýnum.

Jæja, kannski er ég farinn að vera hátíðlegur hér – og kannski veit ég ekki alveg hvað ég vil skrifa hérna berum orðum.  En til þess er vettvangur rits félags guðfræðinema.  Og ég velti fyrir mér þessari umræðu um kyn og synd og sakleysi, og flokkadrætti og fjölmiðla.  Og ég velti fyrir mér gáfum og gæðum og menntun og mennsku.  Ég velti fyrir mér mótun og miðlun.  Ég velti fyrir mér mömmum og pöbbum.  Ég velti fyrir mér sundruðum heimilum og samheldnum, kúgun og frelsi, fátækt og tækifærum.  Ég velti fyrir mér hömluleysi og ritskoðun og ég velti fyrir mér fordómum, skammsýni, skorti og gnægð.  Ég velti fyrir  mér tengslum.  Og ég velti því fyrir mér hvers vegna kirkjufólk heldur áfram að geta ekki tjáð sig á almennum vettvangi og ég velti fyrir mér þeim sem skáka í skjóli skotgrafanna og þeim sem eru trúir köllun sinni.  Að tala sannleikann.  Ég velti því fyrir mér hvaða lögmál eru mér mikilvæg og hvert fagnaðarerindið er.  Ég velti fyrir mér náð og blessun – Og ég velti fyrir mér ábyrgð og styrk og veikleika.  Og ég velti fyrir mér trú sem fullkomnast í veikleika.  Og ég velti fyrir mér Guði sem dó á krossi.  Ég velti fyrir mér manni sem reis á þriðja degi upp frá dauðum.  Og ég velti fyrir mér dýrð og valdi og virðingu – sigri og ósigri og píslarvætti og réttlæti.  Ég velti fyrir mér mælsku og hreinskilni, heiðarleika og sjálfhverfu. Ég velti því fyrir mér hvers vegna við erum ekki málefnalegri í umræðunni um hvernig kirkjan muni byggjast upp á komandi tíð, í stað þess að ræða hvort það verði karl eða kona í brúnni.  Ég hef sagt mínar meiningar á þessum vettvangi – burtséð frá persónum.

Ég óttast ekki því ég veit að þegar kosningunni lýkur þá verður biskup í brúnni sem horfir til vald-dreifingar, jafnræðis og jafnvægis, biskup sem ber von í brjósti og mennsku í augnaráði sínu.  Bæði biskupsefnin standa fyrir svo margt sem þörf er á, bæði bera þau áræði, kjark og víðsýni á borð, þó það sé með mismunandi hætti.  Bæði eru þau mótuð af reynslu sem er ekki allra, bæði hafa þau sýna sérstöðu.  Ég get auðveldlega tengt við þau bæði – og ég veit þau eru trú leiðtoganum, hjarta og sál kirkjunnar sem ég þjóna, Jesú Kristi.  Og ég veit þau eru bæði mótfallin því að það verði lognmolla, yfirdrepskapur og tilgerð í bæn okkar fyrir betri kirkju.

Tölum saman.

Arnaldur Máni