Látum ekki samtalið enda í…

Gamaldags kirkjupólítík.

eftir Arnald Mána Finnsson

Um þessar mundir stendur yfir kosningabarátta.  Barátta um að komast í þjónustuhlutverk í kirkjunni – hlutverk jú sem felur í sér nokkuð vald.  Kannski er munur á því hvernig fólk skoðar það vald.  Hvort það metur það í ljósi reynslunnar eða í ljósi laga og reglugerða kirkjunnar.  Í upphafi þessa ferlis var lögð mikil áhersla á jákvæða ímynd þess, kynningarfundir fóru fram og við vildum kalla þetta köllunarferli til biskupsþjónustu í stað kosningabaráttu um biskupsembættið.  En það er að harðna á dalnum og átakalínur sífellt að verða ljósari.  Þessar átakalínur eru ekki umfjöllunarefni þessa pistils, greining á þeim felur í sér gildismat; hvað eina sem við segjum og gerum skapar spennu, í því er fólgin áhætta.  Við hjá Orðinu höfum verið að reyna rísa upp undir þessu álagi og höfum kallað eftir umræðum um málefni í stað persóna.  En persónurnar eru í forgrunni, því verður ekki breytt.  Og varðandi málefnin þá má segja að þau séu sammála um miklu fleira heldur en það sem ber á milli.  Meira að segja atriði eins og að breytingar á prófastsdæmunum hafi gengið of langt er atriði sem kandídatarnir báðir hafa tiltekið, enda er sú niðurstaða afrakstur hlustunar sem báðir kandídatarnir eru mjög færir um.  Þau eru bæði mjög hæf á sínum sviðum.  Þau hafa bæði sterka sjálfsmynd.  Þau yrðu bæði góðir leiðtogar í kirkjunni.

Ábyrgðin liggur hjá þeim sem taka þátt í þessari orðræðu um hvernig kirkjan kemur út úr þessum kosningum, ekki út á við heldur inn á við.  Að fella dóma án þess að tiltaka rök er ekki góður siður – þessvegna er minna skrifað opinberlega heldur en rætt er einslega.  Þessvegna trönum við okkur ekki fram hér hjá Orðinu nema við teljum okkur vera leggja málefnaleg rök til samræðunnar um biskupsefnin.  Þessi orð eru rituð af tvennu tilefni; í fyrsta lagi til brýningar á því að halda ekki einhverju fram án þess að geta fært gild rök fyrir máli sínu.  Í öðru lagi til að árétta að útsendarar Orðsins reyna hvar sem þeir koma að halda uppi málefnalegri umræðu og þeir reyna að komast sem víðast og tala sem oftast.  Kirkjan þarfnast þess.  Orðið þarfnast þess.  Þessvegna mættum við á stuðningsmannafundi þeirra beggja!

Talað er um kyn og talað er um vald og talað er um framtíð kirkjunnar.  Talað er um sókn og vörn, æskulýðsstarf og sérþjónustu, prestana og djáknana, leikmennina og kirkjustofnunina.  Talað er um kirkjuþing og kirkjuráð.  Auðvitað er munur á biskupsefnunum og áherslum þeirra, hversu mótaðar hugmyndir þau ganga með um hitt og þetta, hversu róttæk eða íhaldssöm þau eru og svo framvegis.  Ég held þau séu hvort um sig róttækari en hitt, hvort á sínu sviði.  Íhaldsamari en hitt á sama hátt.  Við skulum ekki falla í þann pytt að halda einhverju fram um annan hvorn aðilan að óathuguðu máli.  Agnes er ekki svona því hún er kona og Sigurður er ekki þannig því að hann er karl.  Sigurður er ekki svona því hann er alinn upp í KFUM og Agnes er ekki þannig því hún er prestabarn af landsbyggðinni.  Sigurður er ekki einhvernveginn því hann sé þrígiftur og Agnes er ekki hinsegin því hún hafi ekki giftst aftur eftir sinn skilnað.  Agnes er ekki eins og allir ambættismenn því hún er prófastur og Sigurður er ekki eins og sumir prófessorar því hann er doktor.  Það er ekkert jafn einfalt og af er látið og fæst er jafn flókið og einhverjir halda fram.  Og hið góða er auðskilið.

 

Ykkar einlægur – Arnaldur Máni