Biskup Íslands – Hugrekki og þor?

Pétur Rúðrik Guðmundsson – Guðfræðinemi

Ásjóna kirkjunar á Íslandi hefur ýmsar birtingarmyndir og hvernig þú upplifir hana mótast mögulega af því hvaða reynslu þú hefur af henni. Kirkjan hefur ávallt skipað stóran sess í samfélagi okkar og hægt er að nálgast mikið efni frá kirkjunni um boðskap hennar. Þar er áberandi boðskapur Jesú krists og þann kærleika sem hann sýndi í bæði orði og verki. Ég trúi á þann boðskap sem hann boðar og frá mínu sjónarhorni er sá boðskapur í grunninn að allir séu jafnir fyrir Guði og þú átt að sýna umburðalyndi, góðsemi og velvilja í garð náungans. Þó að ég hafi fundið minn sannleika í kristinni trú, þá hef ég ekki fundið SANNLEIKANN. Ég hef ekki rétt á því að reyna sannfæra aðra um mitt ágæti á kostnað þeirra sem eru ekki á sömu skoðun og ég. Ég hef ekki rétt á því að telja þeim trú um að þeirra skoðun leiði til glötunar eða helvítis og/eða að þau eigi minni möguleika á finna frið, von eða kærleika í lífi sínu. Það sem ég hef rétt á er að sýna í þeim í orði og verki hvað ég hef fundið.

Þennan sannnleika hef ég ávallt reynt að fræða börn mín um. Jafnframt reyni ég fræða þau um aðrar skoðanir, önnur trúarbrögð og einnig fólk sem trúir ekki á Guð. Ég bendi þeim á að allar skoðanir séu jafnmikilvægar og að þau þurfa að sýna þeim virðingu þó að þær séu á skjön við þeirra eigin. Ég reyni að vera góð fyrirmynd fyrir þau og sýna umburðalyndi, góðsemi og velvilja í bæði orði og verki. Það tekst ekki alltaf en ég sýni góða viðleitni í að leiðrétta háttsemi sem ég tel ekki viðeigandi út frá þessum boðskap. Þó að viðleitni mín sé góð, þá sé ég ekki alltaf þegar ég hrasa um eigin orð eða verk. Þessi blessaði bjálkur í auga mínu er oft að skyggja mér sýn og ég sé ekki alltaf að það sem ég er að prédika er mögulega ekki það sem ég framkvæmi. Það þarf oft góðan vin til að benda mér á villu vega míns.

Mín von er sú að börnin mín séu enn að upplifa þegar þau verða eldri að sá boðskapur sem ég hef fært þeim hjálpi þeim í gegnum litróf lífsins. Ég veit að það er undir mér komið að svo verði. Ég veit líka að ef ég rækta ekki trú mína í orði og verki, þá munu börn mín leita annað að sannleika sínum. Það verður alltaf á þeirra valdi að ákvarða hvar þau ætla að staðsetja sig í lífinu, hvort sem það er út frá trú eða lífsskoðun.

Ég vona að sá leiðtogi sem tekur við þessu vandasama en jafnframt áhugaverða þjónustuhlutverk að verða biskup Íslands hafi bæði hugrekki og þor til að takast á við breytt samfélag. Ég vona að biskup sjái sér fært að sýna í orði og verki þann boðskap sem Jesús Kristur stóð fyrir. Ef ekki, þá er hætta á því að börn kirkjunar snúi við henni baki og leiti annarrsstaðar að sannleika sínum.

Með vinsemd og virðingu
Pétur Rúðrik Guðmundsson