Frú Biskupinn yfir Íslandi

Í tilefni af tilkynningu um úrslit kjörs til embættis biskups birtir Orðið – rit félags guðfræðinema – tvö brot úr væntanlegu viðtali við Agnesi Margrétar Sigurðardóttur, nýkjörinn biskup yfir Íslandi.    Til hamingju Agnes.

Framboð til biskups – önnur nálgun kvenna á forystuhlutverk?

Það vakti athygli hvernig þú hefur brugðist við kallinu um að bjóða þig fram í þetta embætti með auðmýkt og þakklæti. Þeir þykja dyggð í fari karlmanna sem leiðtoga í anda hinnar þjónandi forystu, en að einhverju leyti hafa þeir kallað fram þau viðbrögð að þú sért kannski ekki nógu afgerandi leiðtogi, en þess þarfnist kirkjan í dag. Nú verður þú fyrsta konan í embætti biskups á Íslandi; hvernig svarar þú þessari gagnrýni og telurðu að það muni sjálfkrafa breyta hugmyndum fólks um biskupsembættið að þú ert kona?

Það breytir ýmsu að skipt sé um kyn, við sáum það þegar konur vígðust fyrst sem prestar. Ég kann margar sögur af því hvaða umbreyting varð, en þær skipta kannski ekki öllu máli í þessu samhengi. Það verða auðvitað breytingar með öðrum áherslum, stjórnunarstíll kvenna er öðruvísi – hvernig sem við viljum eða reynum að vera kynblind í þeim efnum. Ég horfi á þetta eins og á heimili. Þar eru allir í sömu fjölskyldunni og systkini, eins og við viljum horfa á kirkjuna okkar sem einingu þrátt fyrir að það séu ekki allir eins. Og það þurfa ekki allir að vera eins. Áhugasviðin eru misjöfn og aðferðirnar eru misjafnar hjá heimilisfólkinu við að halda skikki á heimilinu. Og oftast er það húsmóðurinnar að hafa eitthvað lag á því, einhverskonar yfirumsjón. Og sem húsmóðir þá veit ég að það eru til mismunandi aðferðir til dæmis við það að taka til. Það er hægt að afgreiða ýmsa óþægilega hluti, kannski því þeir eru svo flóknir að maður hefur ekki tíma og bráðum koma gestirnir, með því að stinga þeim bara ofaní poka og koma þeim einhvernveginn fyrir í geymslunni. Og svona er stundum gert og það ítrekað og einn daginn fer að flæða útúr geymslunni eða maður kemur ekki fleiri pokum fyrir í henni. Þessvegna er mikilvægt að kunna fleiri aðferðir og hin, sú sem er alltaf æskileg, er sú að fara í gegnum skápana og grysja og finna pláss og flokka og raða. Með þessu er ég alls ekki að segja að hingað til hafi öllu verið stungið inn í geymslu eða að ekki hafi verið tekist á við það sem hefur reynst óþægilegt. En þegar það er búið að skapa plássið fyrir það sem er nýtilegt, til dæmis það sem liggur í reiðileysi fyrir allra fótum, þá má koma því fyrir á réttum stað, sínum stað. Það má nefnilega ekki gleyma því að í raun og veru þá eigum við slíka fjársjóði í kirkjunni að það má ekki gleyma þeim í pokum inní geymslu. Allt sem við erum að fást við inná þessu heimili er einhvers virði og varðar líf fólks, og flest af því er mikils virði – þó ekki nema sögulega séð eða í ljósi hefðar. Og þá á það að eiga sér stað í þar til gerðum skáp þar sem má draga það fram þegar gesti ber að garði sem langar til að fá að sjá einhverja gamla gersemi. Í þessu samhengi verðum við að skoða það að það þýðir ekkert að bjóða öllum bara alltaf inní stássstofu þar sem allt er í kristal og ekki má snerta neitt, því að í raun og veru erum við oftast í eldhúsinu í kirkjunni. Við sitjum oftast í eldhúskróknum og ræðum saman í einlægni og um hjartans mál, og í eldhúsinu er þessi tilfinning sterkust að við séum öll jöfn og sitjum við sama borð. Það er mér hjartans mál og ég hef þá einlægu trú að það jákvæða samtal sem hefur farið fram í aðdraganda þessa kjörs er einhverskonar góður ilmur úr eldhúsinu. Og eins og á jólunum þá gleður sá ilmur alla í húsinu.

Það verður krefjandi verkefni að eiga trúnað prestanna og hvað þá þjóðarinnar. Í ljósi þess að hafa ekki verið andlit í fjölmiðlum áður en ferlið hófst og standa við hlið frambjóðenda sem voru slíkum fundum kunnugri, þá kom fram sú gagnrýni að þú værir heldur „dauf“ og fólk efaðist um leiðtogahæfileikana sem þurfi til að rétta af ímynd kirkjunnar. Hinni hliðinni á spurningunni má líka velta enn frekar upp, vegna þess að stjórnsýslueining kirkjunnar hefur verið gagnrýnd fyrir að vera stöðnuð og full af já-fólki og aðgengi að henni arfaslæmt. Er þetta þín reynsla og ert þú manneskja sem getur brotið þessa ímynd upp ef þú ætlar þér mikinn tíma í að skoða hana í þaula fyrst um sinn?

„Þessu hefur svo sem verið haldið á lofti við mig sjálfa og það er bara allt í lagi. Enginn er fullkominn og það þarf enginn að vera fullkominn, ekki einu sinni biskupinn. Við eigum ekki að reyna að verða Guð þó að við viljum líkjast Jesú eða fylgja í fótspor hans. Það er hvergi sagt að við eigum að verða Jesú og hlutverk mitt sem prests breytist ekki í eðli sínu þó þarna fari fram innsetning í embætti að lútherskum skilningi, til þess að verða prestur prestanna. Mín reynsla er ekki endilega sú að aðgengi að biskupnum hafi verið slæmt og margt er ómaklegt í gagnrýni á hann og hans störf. Heilmargt hefur verið gert mjög vel og unnið að mörgum málum sem eru mjög nauðsynleg, enda hefur þetta ferli verið í gangi þar sem vald ríkisins yfir stofnuninni hefur færst til sjálfstæðs trúfélags sem hefur réttindi og skyldur að lögum. En það hefur líka verið sagt meira um mig í þessu ferli en að ég sé ekki nógu hress eða frísk, en ég er nú bara ekki þannig manneskja að mér sé tamt að tala þannig um sjálfa mig. Og bara svo ég nefni þó eitthvað þá er sagt að ég sé ekki með stórt egó, en að það sé kostur. Og svo náttúrulega að ég sé hógvær,“ bætir hún við brosandi. „Svo eru líka margir sem gleyma því þegar þeir býsnast yfir því að það þýði ekkert að hafa hógværa kellingu í þessu djobbi, að ég er Vestfirðingur.“

Þér hefur verið lýst sem traustri manneskju sem sért tilbúin til að hlusta á aðra, nýta þér þekkingu þeirra og ráðgjöf en jafnframt sem staðfastri þegar það þarf að fylgja eftir þeim ákvörðunum sem þú hefur tekið. Er þetta „vestfirzk þrjóska“ sem þú vísar þá þarna til eða ertu að vísa í önnur ummæli um þig í þessu samhengi?

„Ég veit að sjálfsmynd mín er sterk, hvernig sem ég kann að koma fram í fjölmiðlum og hluti af sterkri sjálfsmynd er meðvitund um hverjir veikleikar manns eru. Ég vil leyfa hæfileikum annarra að njóta sín og tel mig hafa getu til að virkja fólk til starfa með því til dæmis að deila verkefnum og ábyrgð. Ég held að fólk innan kirkjunnar trúi því að ég sé fær um það, ekki bara vegna fyrri starfa á ýmsum sviðum kirkjunnar heldur vegna þess að ég þykist ekki hafa allar lausnirnar nú þegar. Það stuðlar ekki endilega að virkjun og eflingu fólksins í kirkjunni að dreifa valdi með valdsmannslegum hætti. En það að opna og bjóða fólk velkomið til að efla sjálft sig, það færir fólki vald – þó það sé jafnvel ekki nema valdið yfir sjálfum sér. Ég fagna öllum vaxtarbroddum starfsins í kirkjunni og vona að það sé hægt að ná eyrum fólks með nýjum hætti.“

 

Með kveðju – ritstjórn Orðsins.