Vígslubiskupskjör.

Það er að mörgu leyti mjög leitt hversu hljótt fer um biskupskjörið á Hólum en um leið er það skiljanlegt.  Það spennufall sem varð við að kona væri kjörin biskup hefur einhvernveginn litað alla umræðu síðan.  En þarna er um mikilvægt starf að ræða ef vel á að halda uppi kirkjulegum prófíl á staðnum sjálfum.  Orðið blandar sér því hér með aðeins í umræðuna. Það hljómar eins og nokkur atriði séu veigamest í málflutningi þeirra þriggja frambjóðenda sem sitja vilja Hólastað og þjóna kirkju sinni þannig með meiri vegsemd. Starf Hólabiskups er “sumarlegt” starf og það er erfitt starf. Hr. Jón Aðalsteinn Baldvinsson hefur sinnt því með miklum sóma eins og hr. Bolli Pétur Bollason forveri hans gerði á meðan honum entist heilsa til. Aftur á móti þá kalla þrengingar í þjóðkirkjurekstrinum almennt á annan hugsanagang en hefur verið og það sem gert verður á Hólum í framtíðinni þarf nauðsynlega að framkvæmast í góðu samstarfi við aðra aðila. Orðin „andleg miðstöð Norðurlands“ hafa heyrst í þessu samhengi, en um leið má segja að slíkar hugmyndir séu nokkuð langsóttar nema samstarfið við Hólaskóla, sem þó hefur verið gott, verði stóraukið.  Þegar talað er um ráðstefnuhald, næringarmiðstöð fyrir sjálfboðaliða og sóknarnefndir, kyrrðardaga og þvíumlíkt, má í raun og veru spyrja hvað sé átt við?  Kirkjan er ekki ein á þessum stað eins og í Skálholti og býr ekki að neinum húsakosti á eigin vegum eins og þar.  Hvar á fólkið sem sækir hið kirkjulega starf að gista, má spyrja sig, þegar aukin ferðaþjónusta á Hólum byggist upp?            Fyrsta spurningin er þar af leiðandi:

Hvernig sérð þú fyrir þér að kirkjan komi að uppbyggingu ferðaþjónustunnar á Hólum í samstarfi við heimafólkið þar?

Önnur spurning varðar þá uppbyggingu sem hefur orðið um starf hr. Jóns Aðalsteins varðandi Hóla sem miðstöð miðaldatónlistar, Ríkinifélagið heldur þar árþing sitt og tónleikahaldi hefur verið sinnt allar helgar yfir sumartímann. Merkilegir fornleifauppgreftir bæði á staðnum og við Kolkuós styrkja þessar þreifingar – en um leið er þetta svipuð stefna og í Skálholti.  Á Hólum eru merkir munir sem tengjast kaþólskum sið og kirkjusögunni, kirkjan sjálf er merkilegt hús og altarisbríkin með eldri fornmunum í landinu.  En þarna er líka hestamannaskóli með fiskeldis- og ferðaþjónustubraut, frægur bjórklúbbur og hótel á sumrin sem þjónar margskonar fólki og kirkjuna sjálfa sækja þúsundir ferðamanna heim.  Þetta er fjölbreytileg menning og kirkjan ræður minnstu um það hvernig hún þróast.  Eða hvað?

Hverjar eru þínar hugmyndir um stöðu Hóla í menningarlífinu?

Þriðja og síðasta spurningin er kannski þríþætt en hvert atriði varðar stöðu vígslubiskups og vald hans til að svara spurningum á eigin forsendum og hafa skoðanir á málefnum sem snerta hinar dreifðu byggðir Norðurlands og Austfjarða.  Á svæðinu eru nokkrar kirkjumiðstöðvar sem raunar falla undir tilsjón biskups og helsti þéttbýliskjarninn auðvitað Akureyri.   Má spyrja þig að því hvernig eigi að byggja kirkjumiðstöðvarnar og æskulýðsstarfið upp í þessu árferði – eða hverja þeirra á að slá af svo að hinar verði byggðar upp með nokkrum sóma?  Má spyrja þig að því hvort og þá hvernig Biskupinn á Hólum, sem af mörgum er talin “hálauna-embættismanneskja lengst útí sveit með óljósar starfsskyldur” getur lagt sitt af mörkum varðandi andlega leiðsögn í kreppu þarsem pólítískar deilur skipta fólkinu á svæðinu í andstæðar fylkingar vegna afstöðu til hitamála sem varða landið allt?  Þessir þættir spurningarinnar koma raunar saman í þriðja liðnum: Getur þú, sem Hólabiskup tekið aðra afstöðu í málum innan kirkjunnar en þær sem biskup og hefur að loknum biskupa- og kirkjuráðsfundum?

Með kveðjum að sunnan –

 

Þess má geta að Sólveig og Kristján hafa svarað á sínum kynningarvefjum.

 

ritstjórn Orðsins.