Vorheftið 2012 – Biskups brall

Heiðruðu lesendur vefútgáfu Orðsins, okkur ljáðist alveg að tilkynna það hér að Orðið er komið út!

Það er eftir sem áður stútfullt af efni og fjölbreyttur hópur fólks sem leggur til efni.

Vongleði innan kirkjunnar er sannarlega eitthvað sem guðfræðinemar verða fyrir áhrifum af og öflug netútgáfa á biskupskjörs-vorinu mikla bar þess merki að þeir vildu láta til sín taka varðandi málefni líðandi stundar.  Aftur á móti er hið prentaða Orð líka tilbúið og hægt að panta það hjá ame11@hi.is og ordid@hi.is eða nálgast það í Bóksölu stúdenta eða Kirkjuhúsinu við Laugaveg.

Meginefnið kemur öllu kirkjulega sinnuðu fólki við – sem og þeim sem vilja skilja þær aðstæður betur sem uppi eru í þjóðkirkjunni – og er 21 síðna viðtal við hina nýkjörnu biskupu Agnesi Margrétar Sigurðardóttur bæði ítarlegt og fróðlegt. Eins er viðtal við Sigurð Árna Þórðarson að finna í blaðinu, bæn eftir fráfarandi biskup, hr. Karl Sigurbjörnsson og hugleiðingu Kristjáns Vals Ingólfssonar vígslubiskups að finna í ritinu.  Ritið er 185 síður, og að fjórðungi eftir nemendur og um starf guðfræðideildar.

Af öðrum höfundum ber að nefna að þeir eru af öllum stigum, fólk í doktorsnámi og nýgræðingar í guðfræði-og trúarbragðafræðideild, sunnudagaskólabarn sem og ítalskur prófessor í menningarmannfræði við Feneyjarháskóla.  Í ritinu er að finna ljóð og léttmeti sem og trúarlegar hugvekjur og þýðingu úr bókinni Vakandi hugur vökult hjarta eftir Thomas Keating.  Semsagt, eitthvað við allra hæfi.

Fræðahluti ritsins er tileinkaður dr.phil. Jóni Ma. Ásgeirssyni og st.theol. Huldu M. Waddell sem létust í vetur sem leið.

Í síðasta hluta ritsins má sjá hluta þess efnis sem birt var á www.ordid.hi.is í tilefni af biskupskjöri en ástæða þess að því er síðmiðlað á prenti er kirkjusöguleg skrásetning á röddum nemenda. Það er og eðli ritsins.  Allar nánari upplýsingar er að finna á facebook-síðu Orðsins sem og hjá dreifingarstjóra þess og næsta ritstjóra Ástu Elínardóttur (ame11@hi.is).

 

Kveðja – Ritnefnd Orðsins