Mikilvægi trúmálaréttar fyrir 21.öldina.

Trúmálaréttur fyrir 21. öld                                             e. Hjalta Hugason

Trú og lífsskoðanir eru meðal þess sem okkur er heilagast. Það er réttur hvers einstaklings að vera frjáls trúar sinnar og skoðana. Trú- og skoðanafrelsi er því meðal frumlægra mannréttinda sem standa ber vörð um. Að þessu leyti eru trú og lífsskoðanir einkamál sem hið opinbera ætti ekki að vera með puttana í.

 Trúmálaréttur mikilvægur

Á þessu máli er þó annar flötur. Í landinu starfa kirkjur, trú- og lífsskoðunarfélög. Mörg þeirra hafa starfað hér lengi og standa styrkum fótum í samfélaginu og velta miklu félagslegu og menningarlegu „kapítali“ auk beinharðra peninga. Þá koma þau að lífi stórs hluta þjóðarinnar á viðkvæmustu stundunum í lífi okkar í gleði og þraut og starfa öll á afar viðkvæmum sviðum lífsins jafnvel þar sem við liggjum flötust fyrir. Af þeim sökum hafa trúar- og lífsskoðunarmálefnin hlið sem mikilvægt er að hið opinbera setji leikreglur um. Það þarf að vera mögulegt að vernda einstaklinga fyrir kirkjum, trú- og lífsskoðunarfélögum en það þurfa líka að gilda reglur sem gera þessum félögum kleift að sýna sínar bestu hliðar. Það gera þau m.a. með því að fylla út í grófa möskva íslenska velferðarkerfisins ekki síst eftir Hrun. — Hver viðurkennir ekki að Samhjálp, Hjálparstarf kirkjunnar, Hjálpræðisherinn og ýmis trúarleg velferðarsamtök önnur hafi ekki gert sitt gagn?

Einmitt af þessum sökum er mikilvægt að í gildi sé vandaður trúmálaréttur í landinu. Með því er átt við stjórnarskrárákvæði, lög og reglugerðir sem gera það að verkum að hluti en aðeins hluti trú- og lífsskoðunarmálefnanna heyri undir opinberan rétt. Það tryggir að hið opinbera hafi innsýn og jafnvel íhlutunarrétt í þennan afar viðkvæma málaflokk — ekki síst starf kirknanna, trú- og lífsskoðunarfélaganna.

Þá má og benda á annað atriði sem einnig kallar á vandaðan trúmálarétt. Íslenskt samfélag þróast nú hratt úr einsleitu lúthersku samfélagi yfir í fjölhyggjusamfélag. Trúarbrögðum í landinu fer fjölgandi, trúarleg einstaklinghyggja fer stórum í vöxt og þeim fer fjölgandi sem aðhyllast veraldlegar lífsskoðanir í stað trúar. Í náinni framtíð mun því trúar- og lífsskoðunarlegum kimum fjölga mjög í landinu og fjölhyggja aukast. Vandaður trúmálaréttur stendur ekki síst vörð um minnihlutahópa.

 Ásarnir í íslenskum trúmálarétti

Frá 1874 er við fengum okkar fyrstu stjórnarskrá hafa ásarnir í íslenskum trúmálarétti verið tveir: trúfrelsi og þjóðkirkjuskipan. Á grundvelli hans hefur öllum verið frjálst að iðka, tjá eða boða þá trú eða lífsskoðun sem hann eða hún aðhyllist einslega eða með öðrum, jafnvel stofna um slíkt félög. Eigi að síður hefur eitt trúfélag, Þjóðkirkjan, verið tekið út fyrir sviga og veitt sérstaða í trúmálaflórunni.

Allt til þessa hafa gild rök verið talin fyrir því að standa þannig að verki. Þjóðkirkjan nær til margfalt stærri hluta þjóðarinnar en nokkurt annað trúfélag, hún starfar á fleiri stöðum, veltir meiri fjármunum og gegnir fleiri félags- og menningarlegum hlutverkum en nokkurt annað trúfélag. Eftir meira en 450 ára samfellda sögu með þjóðinni hefur Þjóðkirkjan einfaldlega það mikla sérstöðu að réttlætanlegt hefur þótt að hún hafi opinberari stöðu en nokkurt annað trúfélag. Þessi sérstaða hennar hefur tvær hliðar. Annars vegar nýtur hún óneitanlega meiri stuðnings og verndar ríkisvaldsins en önnur trú- eða lífsskoðunarfélög. Hins vegar býr hún við mjög skert frelsi miðað við þau þótt sjálfstæði hennar og sjálfsstjórn hafi vissulega aukist rétt fyrir síðustu aldamót.

Fjölga þarf víddum trúmálaréttarins

Nú er kominn tími til að fjölga ásunum í trúmálaréttinum um a.m.k. einn. Það þarf að halda áfram að útvíkka trúfrelsið en það hefur verið í hægfara þróun frá 9. áratugi 19. aldar er fyrstu lög um utanþjóðkirkjufólk voru sett hér á grundvelli stjórnarskrárinnar frá 1874. Það þarf að þróa þjóðkirkjuskipanina áfram annað tveggja með aukinni aðgreiningu ríkis og þjóðkirkju eða einhverjum róttækari skrefum sem kallast oft aðskilnaður ríkis og kirkju. Loks þarf að bæta þriðja hjólinu undir vagninn og auka jöfnuðinn milli Þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga, sem og milli þeirra og félaga sem stofnuð eru um veraldlegar lífsskoðanir. — Mikilvægt er að gefa því gaum að ekki er mótsögn milli þessara þriggja vídda. Trúfrelsi og þjóðkirkjuskipan getur vel farið saman og innan þjóðkirkjuskipanar er hægt að ganga langt í átt að jöfnuði, jafnri stöðu og jöfnum rétti þjóðkirkju og annarra samtaka sem gera sig gildandi á vettvangi trúar og lífsskoðana. Það er einfaldlega verkefni líðandi stundar að stilla af innri hlutföll milli þessara þriggja vídda: trúfrelsisins, þjóðkirkjuskipanarinnar og jöfnuðarins.

Svo vel vill til að einmitt nú stendur yfir mikil vinna á þessu sviði. Samkvæmt þingsályktun sem samþykkt var s.l. vor er stefnt að ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu í haust þar sem m.a. verður spurt hvort ákvæði um þjóðkirkju skuli áfram vera að finna í stjórnarskrá okkar eða ekki. Hvort sem svarið verður eða Nei er ástæða til að endurskoða þjóðkirkjuskipanina, m.a. lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997. Þá liggur fyrir Alþingi frumvarp innanríkisráðherra um breytingar á lögum um skráð trúfélög nr. 108/1999. Samkvæmt því skal lífsskoðunarfélögum sem óska skráningar og standast tilskilin formskilyrði tryggður sami réttur og skráðum trúfélögum. Verði frumvarpið að lögum sem vonandi er verður stórt spor stigið í átt að jöfnuði milli trúar og veraldlegra lífsskoðana. Því skal þessu frumvarpi fangað.

 Efasemdaraddir

Margir hafa lagst gegn þeirri breytingu sem nefnt frumvarp boðar og telja að óljóst sé hvað átt er við með lífsskoðunarfélögum. Sér-íslenskt áhyggjuefni hefur jafnvel skotið upp kollinum sem felst í að menn kunni í framtíðinni að taka feil á lífsskoðunarfélögum og mótorhjólagengjum eða öðrum þeim félagsskap sem leiðst gæti út í skipulagða glæpastarfsemi. Þetta eru óþarfa áhyggjur. Auðvelt er að setja fram skýr skilyrði fyrir hvaða félög geti kallast lífsskoðunarfélög og hlotið skráningu sem slík. Það má t.d. gera á eftirfarandi hátt:

Skilyrði fyrir skráningu lífsskoðunarfélags er að um sé að ræða félag sem byggist á veraldlegum lífsskoðunum, miðar starfsemi sína við ákveðin siðferðisgildi og fjallar um siðfræði (og þekkingarfræði ef þurfa þykir) með skilgreindum hætti. Þá er það jafnframt skilyrði fyrir skráningu að um sé að ræða félag sem ástundar mannrækt og sér um athafnir á ævihátíðum, svo sem nafngjafir, fermingar, giftingar, útfarir eða aðrar hliðstæðar athafnir.

Sérfræðinganefnd ætti síðan að skera úr um hvort félag standist þessar kröfur áður en Innanríkisráðuneytið tekur afstöðu til umsóknar um skráningu. Óþarft er að benda á að afar fá félög geta uppfyllt þessi skilyrði á trúverðugan hátt. Jafnvel þótt mörg félög séu hugsanlega stofnuð um eitthvað sem kalla má veraldlega lífsskoðun eða til mannræktar eru afar fá sem geta með góðu móti boðið upp á athafnir sem séu ígildi trúarlegra athafna á ævihátíðum. — Hér virðist því engin hætta að ferðum.

Aðrir benda á að fátítt sé að lífsskoðunarfélögum sé veitt sama staða og trúfélögum og á Norðurlöndum sé hliðstæðu aðeins að finna í Noregi. Þetta er rétt en þó liggja sérstakar ástæður því til grundvallar að fara einmitt þessa leið þar, sem og hér á landi.

 Bregðast þarf við sérstökum aðstæðum

Þar sem ekki er þjóðkirkjuskipan og/eða ekki er kveðið á um stöðu skráðra trúfélaga með sama eða svipuðum hætti og gert er hér í lögum nr. 108/1999 er tæpast nokkur þörf á að grípa til ráðstafana af því tagi sem frumvarp innanríkisráðherra gerir ráð fyrir. Eins og fram er komið hefur þjóðkirkjuskipanin hér mjög mótað þróun trúmálaréttarins og svipuðu máli gegnir um Noreg þar sem evangelísk-lúthersk trú hefur samkvæmt stjórnarskrá verið opinber ríkisátrúnaður fram til þessa. Nú er breyting að verða á í því efni þar sem stefnt er að því að festa í sessi þar í landi þjóðkirkjuskipan í líkingu við okkar.

Þá ber og að gæta þess að óvíða er eins hátt hlutfall barna skírt og gerist hér á landi og í Noregi. Þá gegnir ferming óvíða sama sameiningarhlutverki heils árgangs unglinga og í þessum tveimur löndum. Hlutfall kirkjulegra hjónavígslna er þar líka óvenjuhátt og borgaralegar útfarir heyra til algjörra undantekninga. Þar sem svo háttar til er mikilvægt að til sé borgaralegur eða veraldlegur valkostur við þessar athafnir sem standi þeim til boða sem ekki óska eftir trúarlegum athöfnum á ævihátíðum. Það er eitt af helstu hlutverkum lífsskoðunarfélaga að standa að slíkum athöfnum og jafnframt helstu rökin fyrir að breytingin sem innanríkisráðherra leggur til að verði gerð. Af þessum sökum mæla gild rök með lögum af því tagi sem frumvarpið gerir ráð fyrir hér á landi þrátt fyrir að hliðstæður í nálægum löndum kunna að vera fáar.

 Spennandi tímar

Hér skal því fagnað að nefnt frumvarp skuli komið fram. Það er sérstaklega áhugavert að þessi vinna skuli vera í gangi nú þar sem Stjórnlagaráð eða meirihluti þess lagði ekki í að fara þessa leið í frumvarpi sínu. Að því leyti náði vilji þess til jöfnuðar ekki nægilega langt — eða hvað?

Þá eru kosningar á komandi hausti jafnvel ekki áhyggjuefni fyrir Þjóðkirkjuna sjálfa. Þótt svarið við spurningunni um þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskránni kunni að verða Nei merkir það ekki lok heldur upphaf aðskilnaðarferlis milli kirkju og ríkis sem óneitanlega býður upp á mörg spennandi viðfangsefni. Aðskilnaður af því tagi er aldrei ein gefin stærð heldur málefni sem marka verður stefnu og skapa sátt um og vinna síðan að stig af stigi. Sú vinna býður upp á mörg spennandi viðfangsefni sem skapað geta Þjóðkirkjunni sóknarfæri. — Svo er auðvitað alls ekki er gefið að svarið verði Nei! Það getur allt eins orðið . Tengsl kirkju og ríkis er aðeins ein afleiðingin af tengslum kirkju og þjóðar. — Atkvæðagreiðsla í haust verður óhjákvæmilega vísbending um hvernig þeim tengslu er í raun og veru farið!

Hjalti Hugason er prófessor í Kirkjusögu við Háskóla Íslands.