Upphafsleiðari – aðrir straumar

Láttu ekki svona þetta er eins og að læra hjóla á einhjóli, miklu erfiðara en það sýnist og rosalega gefandi. -Bessie við bróðir sinn Ben í 32. þætti af annarri þáttaröð The mighty Bee.

Svona ímynda ég mér að árið mitt verði sem ritstjóri Orðsins í vetur. Ég hef prufað ýmis hlutverk innan deildarinnar, hef tekið að mér málfundastjórn, verið formaður nemendafélagsins og sinnt störfum í ritstjórn. Þegar ég hóf nám við deildina 2008 vissi ég ekki almennilega hvert ég væri komin. Eftir að hafa eytt fyrsta árinu í óöryggi yfir því að falla ekki inn í hópinn tók ég málin í mínar eigin hendur og ákvað að til þess að vera hluti af hóp þyrfti ég að taka þátt. Ég bauð mig fram í fyrsta skipti og ferðin hefur verið spennandi. Allt mitt starf innan félagsins og deildarinnar hefur stefnt að því að opna upp deildina. Að enginn þurfi að upplifa það óöryggi sem ég fann í mínum fyrstu skrefum. Að fólk fengi smá hlutdeild í þessu dásamlega samfélagi sem skapast hefur innan guðfræði- og trúarbragðafræðideildar háskóla Íslands. Að sýna út á við hvað námið gengur út á, hvernig fólkið er sem stundar námið, hvað er eiginlega guðfræði, hvað er trúarbragðafræði og síðast en ekki síst er þetta bara prestaskóli? Ég kom inn í deildina með ákveðnar heimsmynd og hún hefur gleðilega þróast áfram innan deildarinnar. Það held ég eigi við um marga sem komið hafa inn á fræðisvið trúarbragðafræðinnar og guðfræðinnar. Þetta langar mig að opna fyrir fleirum.

Í vor hófst prufuleikur á vefnum þar sem þáverandi ritstjórn, sem ég var hluti af, fylgdi eftir biskupskosningunum af miklum áhuga. Þetta var stórkostleg reynsla fyrir okkur. Að vera lifandi þáttur í umræðunni. Í ljós kom mjög mikill áhugi nemenda við deildina á að koma sínum skoðunum á framfæri sem og áhugi annarra á að vita téðar skoðanir. Verkefni minnar ritstjórnar verður svo nú að athuga hvort hægt verði að toga þennan áhuga og vilja yfir á önnur málefni. Þetta er spennandi verkefni sem við byrjum með bros á vör.

Framtíðarsýn mín á ritinu stefnir hraðbyr inn í umræðu fjölmenningar. Toga sterkar inn umræðuna um trúarbragðafræðina sem skortir svo mikið og auka fjölbreytnina í guðfræðilegum nálgunum. Mín sýn felur líka í sér að koma með fleiri létta pistla. Nýta vefinn ekki aðeins til að opna umræðuna um fræðin heldur einnig til að gefa innsýn inn í námið og fólkið sem stundar það. Birta léttar kynningargreinar, hugleiðingar og predikanir nemenda, áhugaverðar námsritgerðir, fræðigreinar, létt grín og skapandi skrif. Ég vil auka þáttöku nemenda, fá innsýn frá útskrifuðum einstaklingum, frá kennurum og ekki síst frá áhugafólki um fræðin utan deildarinnar. Á næstu dögum mun vefurinn einnig ganga undir útlitsbreytingar sem ætlaðar eru til að einfalda notkun hans.

Í stuttu máli er ég skrítinn, trúlaus, róttækur femínisti með óbilandi trú á góðmennsku náungans. Ég vona að við munum eigum gott ár saman og sköpum stórkostlegan vettvang virkrar umræðu.

Ásta Elínardóttir – ritstjóri Orðsins