Hugvekja úr fyrstu messu vetrarins

Hugvekja flutt í messu stúdenta 5.september 2012

Kæru skólasystkin – Velkomin til náms.

Þegar við horfum á fréttirnar sjáum við hvað heimurinn sem við búum í getur verið hrikalegur. Óbreyttir borgarar líða vegna átaka, hörmuna og erfiðleika víða um heim.  Bara núna síðast í morgun fréttir af skotárás í Kanada þar sem tveir létu lífið.

En málið er að við heyrum svo oft af svona ömurlegum atburðum og aðstæðum að við erum næstum því orðin vön þessu.  Við fáum af því fréttir að hungursneyð ógni heilli þjóð, var sungið árið 1985 og það á ennþá við.  Þá hjálpaði íslenska þjóðin annarri sem átti efitt, sem var minni máttar.

Í dag höfum við fleiri tækifæri en nokkurn tímann til þess að hjálpa, kannski er það miður og ekki neitt til að fagna en sem betur fer eru til fjölmörg samtök sem hjálpa okkur við það að rétta öðrum hjálparhönd: Rauði krossinn, Fjölskylduhjálpin, Hjálparstarf kirkjunnar svo fá ein séu nefnd.

Við heyrðum lesna frásögnina af því þegar lögvitringurinn spurði Jesús: „Hver er þá náungi minn?“ eftir að þeir höfðu sammælst um að lögmálið boði að hver maður eigi að elska Drottinn Guð sinn af öllu hjarta, sálu, mætti og huga.  Spurningunni svaraði Jesú þannig að manni beri jafnframt að elska náungann eins og sjálfan sig.  Þessi spurning lögvitringsins á alltaf við, jafnt nú í dag og þarna fyrir tvö þúsund árum: Hver er þá náungi okkar?

Jesús útskýrði svarið með dæmisögunni um miskunsama Samverjann sem við þekkjum vel.  Í augum Samverjans var gyðingurinn, sem var útlendingur, náungi hans.  Maðurinn í næsta húsi er því náungi þinn, einstæð móðir í Rimahverfinu er náungi þinn og munaðarlaus börn á Indlandi og þyrstar ömmur í vatnslaust þorp í Afríku er náungi þinn.

Síðasti sunnudagur var dagur díakóníunnar, kærleiksþjónustunnar, og til að fagna kærleiksþjónustunni og vera minnug þess að við elskum náunga okkar og hjálpum minni máttar ætlum við að taka upp aftur þá venju sem var til magra ára í þessum messum og hafa samskot. Í vetur ætlum við að hafa miskunsama Samverjann að leiðarljósi og safna fyrir náunga okkar, bæði hér heima og erlendis.  Við munum fá Hjálparstarf Kirkjunnar til þess að koma því sem við söfnum þangað sem þess er þörf.  Í hverri messu látum við bastkörfu ganga á milli kirkjugesta og þau okkar sem eru aflögufær setja það sem þau treysta sér til í hana.  Ef safna á fyrir einhverju sérstöku þá segjum við frá því fyrirfram.

Guðspjall dagsins endaði á þessum orðum: „„Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni sem féll í hendur ræningjum?“  Hann mælti: „Sá sem miskunnarverkið gerði á honum“.  Jesús sagði þá: „Far þú og ger hið sama!““  Við skulum einnig gera eins og Jesús bauð.

Aðalheiður Rúnarsdóttir

 

-Myndin sem fylgir með er af miskunsama samverjanum eftir Jan Wijnants (1670).