Prestaskóli

Nú þegar tími nýnema við Háskóla Íslands er í hámarki er ekki úr vegi að velta fyrir sér ímynd guðfræðideildarinnar sem prestaskóla. Í fyrra tók ég á móti nýnemum sem formaður nemendafélagsins, einn þessara nýnema sinnti því starfi í ár að taka á móti nýnemum. Hann deildi með mér af því tilefni minningarbroti um móttökurnar sem ég bauð upp á.

ég var að rifja upp nýnema fundinn frá því í fyrra, ég hélt að þú værir úper lífs þakkláta hressa í stuði með guði týpan, það var þegar ég hélt að ég væri genginn í prestaskóla, ég er glaður að þú ert ekki sú týpa

Þetta minningarbrot vakti hjá mér kátínu. Ef að ég get verið ímynd prestaskóla, hver er þá ímynd fræðilegrar deildar? Ég fletti upp nótunum sem ég hafði með mér inn í fundinn í fyrra og sá að ég talaði mikið um að eiga saman samfélag. Ég taldi mig vera mjög hlutlausa í umfjöllun minni, reyndi að benda á fjölbreytileika námsins og þá ólíku viðburði sem við stöndum fyrir. Ætli ég hafi samt ekki mest talað um vikulegu messurnar, partý sálmasöngva, fiskisúpukvöld og náið samfélag.

Þegar ég hugsa til baka í nýnemakynninguna sem ég fékk þegar ég byrjaði. Þá var ég sannfærð um að ég væri kominn inn í eitthvað stórfurðulegt prestaskóla samfélag og það tók rúmt ár að sannfæra mig um að svo væri ekki. Það virðist benda til þess að hugmyndin um deildina sem prestaskóla hafi meira að gera með væntingar einstaklingsins áður en hann kemur inn heldur en deildina sjálfa. Ekki er langt síðan ég hefði tekið heilshugar undir þetta sjónarhorn en nú tel ég þetta vera flóknara. Ég sé hvernig ég var innlimuð inn í deildina, þar sem ég fékk þátttökurétt og lærði rétta hegðun í því samfélagi sem deildin byggir á. Orðið sem ég er að leita að er félagsmótun.

Í ár ákvað stjórnin að setja saman lítinn kynningarbækling fyrir nýnema. Stórskemmtileg hugmynd og ánægjulegt frumkvæði.

Á forsíðunni stendur : Félag Guð – og Trúarbragðafræðinema. Nú held ég að almennt plássleysi hafi valdið því að skiptingin var á Guð- en ekki guðfræði- eins og venjan er. Einnig held ég ekki að um einbeittan brotavilja hafi verið um að ræða þegar ákveðið var að hafa stóran staf í Guð sem og í Trúarbragðafræðinema. Það breytir því þó ekki að eitt það fyrsta sem grípur augað á forsíðunni er Guð. Þrjár myndir prýða svo forsíðuna, ein úr kennslustofu, ein af tónleikum og ein af dómkirkjulofti. Fyrir neðan myndirnar kemur svo almenn kynning á stjórninni og smá um viðburði félagsins. En tekið er fram að “Fiskurinn er venjulegt félag…”

Í miðjuopnun er svo að finna dálk þar sem birt eru ýmis svör nemenda við spurningunni : Ertu í guðrfæði? Og hvað, ætlar þú þá að verða prestur? Svörin fela í sér kímni og eiga að sýna fram á hversu lítið utanaðkomandi fólk veit um námið. Ekkert svaranna ber með sér raunverulega útskýringu fyrir spyrjandanum á því hvað fólk sé að læra. Fyrir neðan þennan dálk koma svo að sögn nokkrar gagnlegar upplýsingar fyrir nýnema. Tvennt stóð upp úr þar fyrir mér; að guðfræðinemar eru með messur á miðvikudögum og svo línan “Hafðu engar áhyggjur, þú ert ekki mætt/ur í prestaskóla heldur frjálslynda og akademíska guð- & trúarbragðafræðideild.” Með messunni er þá verið að skipta upp nemendum í guðfræðinema og svo trúarbragðafræðinema því ég veit ekki betur en að félagið sem heild sjái um þessar messur. Í hinu seinna er verið að gefa í skyn að prestaskólar geti ekki verið frjálslyndir og akademískir. Þýðir það þá að þeir sem eru í prestnámi við deildina verði að sætta sig við það að læra undir merkjum frjálslyndi og akamdemíu? Einnig má sjá myndir af kennurum við deildina ásamt fræðasviði þeirra. Yfirskriftin segir – hvaða yndi eru svo að kenna við deildina? 13 kennarar, 3 konur og 10 karlar. Einn kennarinn er í hempu á myndinni sinni. Fræðasviðin birtast sem eftirfarandi í þessari röð; trúarheimspeki, trúfræði, kirkjusaga, kennimannleg guðfræði, nýja testamentið, siðfræði, kirkjusaga, sálgæsla, gamla testamentið, gríska og að lokum íslam.

Baksíðan birtir kveðju frá deildarforseta þar sem hún talar meðal annars um að vera hluti af góðu og uppbyggilegu samfélagi deildarinnar. Svo er stutt lýsing á lífinu í deildinni þar sem einnig er lögð áherlsa á góða samfélag deildarinna. Að lokum er svo birtur stuttur listi yfir áhugavert efni á netinu. Þar má sjá tengil inn á orðið.hi.is, trú.is og fésbókarsíðu fisksins. Til að sýna að stutt er í húmorinn er einnig að finna tengil inn á vantrú.is og svo á twittersíður páfans.

Nú er þessi bæklingur mjög skemmtilegur og upplífgandi. Hann býður upp á umræðu með gleði á lofti þar sem allir koma saman í góðu samfélagi. Þar sem leyfilegt er að vera ósammála og rökræða því það halda allir áfram að vera vinir í þessu dásamlega samfélagi. Hann fékk mig samt til þess að velta enn frekar fyrir mér þessari orðræðu sem er að finna innan deildarinnar. Hvernig hún birtist mér sem einn sterkasti hluti félagsmótuninnar. Orð eins og : samfélag, gott, yndislegt, dásamlegt, venjulegt, frjálslyndi og akademík. Þegar mér var orðið tamt að nota þessi orð varð ég hluti af deildinni og fór að bera mig meira fram við að útskýra hvernig deildin væri ekki prestaskóli.

Vangavelta dagsins : Er hægt að vera hlutlaus um svokallaðan prestaskóla ef viðkomandi er hluti ef félagslegu neti hans?

Ásta Elínardóttir – ritstjóri