Virðing, hugleiðing úr Kapellu

Við erum í mismunandi hlutverkum í okkar lífi. Við erum nemendur og þar með ættu kennarar að skipa okkur æðri heiðurssess innan þess samfélags. Við getum verið yfirmenn eða undirmenn í starfi og vonandi erum við á jafnræðisplani við okkar maka heima fyrir, þau okkar sem makann eiga. Börnin eiga óskoraðan heiðurssess í okkar hjarta sem og við hjá þeim.
Huglægur heiðurssess er eitt – og eftirsóknarvert. Praktískt titlatog er annað – sem að mörgum þykir einnig eftirsóknarvert. Sumir eru reyndar hrifnari af því að öðlast titil, en að vinna það starf sem að baki titlinum býr.
Orð og gjörðir og góður hugur er það sem ávinnur okkur virðingu. Okkar afstaða og viðbragð hverju sinni gagnvart hverjum manni. Ekki sívíið okkar. Sívíið getur vakið aðdáun, virðingu öðlumst með því að reynast vel, standast prófið, vera til staðar. Aðdáun og virðing er klárlega sitt hvor hluturinn.
Ef að allir hefðu fullkomlega heilbrigða sjálfsmynd og þá æskilegu og nauðsynlegu lífsafstöðu að bera virðingu fyrir náunganum, þá væri lífið líkast til öðru vísi. Einelti væri til dæmis tæpast til. Því að einelti er upphafning eins með niðurlægingu annars.
Og öll gerumst við sek um það annað slagið að koma ekki fram við annað fólk sem skyldi. Við erum breysk og það er nú bara þannig.
Flest höfum við upplifað og munum þessa ónotalegu tilfinningu sem greip okkur stundum í grunnskóla í frímínútum. Gleggst lifir hún kannski í huga okkar sem upplifðum að fara með rútu í skólann. Þar var bókstaflega um heiðurssess, niðurlægingu og upphafningu að ræða.
Kúl krakkarnir sem höfðu hátt, hlógu og yfirtóku aftasta sætið – voru eftirsóknarverð. Eftir á að hyggja, er maður ekki endilega viss hvers vegna.
Þetta heldur áfram út lífið – en þetta er ekki vegna þess að slíkt fólk eigi þessa virðingu skilda umfram aðra, heldur er heiðurssessinn tekinn – unninn með því að breiða úr sér og vera ósigrandi. Í augum sumra.
Á minni ævi hef ég örugglega einhvern tíma horft til slíks fólks með hálfgerðri öfund, en yfirleitt óþoli – því að þetta fer í taugarnar á mér. Kannski hef ég aldrei tilheyrt kúl krökkunum. Og hvern langar ekki til þess. Öfund er vond tilfinning.
Verra er að glata virðingu þeirra sem máli skiptir, okkar nánustu. Og okkur er það svo auðvelt. Með því að særa, með stundarafglöpum, með langvinnu skeytingarleysi, alla jafna ekki af yfirlögðu ráði. – En aftur, þá erum við bara breysk. Vonandi er skaðinn ekki verri en svo að mögulegt sé að öðlast fyrirgefningu.
Og að fyrirgefningunni, mikilvægu tæki til sálarrór, jafnvel til lífsafkomu: Takist okkur að tileinka okkur fyrirmæli Krists um fyrirgefninguna, um breytni og kærleik, öðlumst við virðingu og heiðurssess hjá þeim sem öllu máli skiptir, eða skipta. Ef okkur tekst að láta Krist, orð hans og gjörðir og guðfræði, að láta allt hans skipa heiðurssess í okkar hjarta og lífi, þá erum við bókstaflega hólpin.
Við eigum öll skilið að vel sé komið fram við okkur. Verum fyrri til að taka skrefið.

 

Oddur Bjarni Þorkelsson

Flutt í kapellu HÍ, 4. október 2011