Frelsi Þjóðkirkjunnar og trúarlegur jöfnuður


Hin evangelíska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi,
skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum.

 

77% Íslendinga tilheyra trúfélaginu Þjóðkirkja Íslands og  72% þjóðarinnar vilja aðskilnað ríkis og kirkju. Ég tilheyri báðum þessum hópum.

 

Kristin þjóð – kristin gildi?
Saga Íslensku þjóðarinnar er samofin kristni og þó að fólk deili um hvort Þorgeir Ljósvetningagoði hafi verið kristinn eða ekki þá væri það sögufölsun að gera lítið úr tengslum kristinnar trúar og þjóðlífs frá 11. öld fram til okkar tíma. Grágás lögbókin okkar frá 13. öld hefst á Kristinna laga þætti: „ Það er upphaf laga vorra að allir menn skuli kristnir vera á landi hér og trúa á einn Guð foður og son og helgan anda…“ Húslestrar voru viðhafnir á hverju heimili og fólu í sér ritningalestur, bænir og sálmasöng auk þess sem prestar höfðu umsjón með menntun og skólamálum. Samfélagsþróun undir formerkjum Lúterisma hefur skilað okkur Íslendingum, Svíum, Norðmönnum, Dönum og Þjóðverjum góðu félagslegu kerfi þar sem samfélagsvitund og mannvirðing er mikils metin. Hugsanlega er það vegna þeirrar þróunar sem 72% þjóðarinnar vilja ekki að einu trúfélagi á Íslandi sé gert hærra undir höfði en öðru. Íslendingar eru frjálslyndir á heimsmælikvarða og ég vil þakka Lúterismanum það að vissu leyti.

 

Þjóðkirkjan í ríkishlekkjum
Að tala um aðskilnað ríkis og kirkju er erfitt, sérstaklega þegar rætt er við fólk sem annaðhvort ekki skilur eða vill ekki leggja sama skilning í hugtökin þjóðkirkja og ríkiskirkja og ég geri.
Samkvæmt skilgreiningu hefur Þjóðkirkjan verið frjálst trúfélag frá árinu 1997 en sjálfstæðis- og frelsisbarátta hennar nær töluvert lengra aftur tengist sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Við fengum þjóðkirkju með stjórnarskránni 1874 og afskiptum Dana af trúmálum okkar átti þar með að vera lokið. Í gegnum 20. öldina var Þjóðkirkjan undir hæl Alþingis um ytri mál sín en fékk frelsi í innri málum 1931. Árið 1997 samþykkti Alþingi svo rammalöggjöf um Þjóðkirkjuna og skilgreindi hana sem sjálfstætt trúfélag.  Þjóðkirkjan er eina trúfélagið á Íslandi sem þarf að lúta ákveðnum lagabálki, Lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, þar er ákvæði um það hverjir geti fengið aðild að þjóðkirkjunni, ákvæði um skiptingu landsins í biskupsdæmi, ákvæði um að forseti Íslands skipi biskup Íslands, ákvæði um starf og skyldur biskupsins, ákvæði um kirkjuráð og prestastefnu. Íslenska Þjóðkirkjan er að þessu leyti heft af ríkinu, ófrjálsari en önnur trúfélög í landinu og sannarlega tengdari ríkinu en önnur trúfélög.
Ég vil sjá aðskilnað ríkis og kirkju að því leyti að engin sérstök lög séu til um Þjóðkirkjuna umfram önnur trúfélög, ég vil að Þjóðkirkjan verði jafn fráls og óháð ríkinu og önnur íslensk trúfélög.

 

Stjórnarskrárákvæðið burt.
Ég mun kjósa gegn þjóðkirkjuákvæði í nýrri stjórnarskrá vegna þess að ég er á móti þeim trúarlega ójöfnuði sem ég tel 62. grein núverandi stjórnarskrár valda.
Ég mun kjósa gegn þjóðkirkju ákvæði vegna þess að ég tel að án þjóðkirkjuákvæðis í stjórnarskrá muni margir þeirra sem kalla eftir aðskilnaði ríkis og kirkju sættast og traust til Þjóðkirkjunar muni aukast.
Það virðast ekki allir gera sér grein fyrir því að þótt að 62. grein stjórnarskrárinnar verði felld út mun Þjóðkirkjan starfa áfram. Tilvist hennar er ekki bundin við stjórnarskrárákvæði, hinsvegar fellur það út að hin evangelíska lúterska kirkjudeild sé þjóðkirkja Íslands. Fyrir mér liggur trúarójöfnuðirinn í því að hinni evangelísku lútersku kristnu kirkjudeild sé gefin sérstaða í stjórnarskrá.
Þeir sem kalla eftir aðskilnaði ríkis og kirkju eru að berjast fyrir ákveðnum jöfnuði og réttlæti. Markmið þeirra eru ólík en ég hugsa að fæstir vilji fella og jarða Þjóðkirkjuna þó að það sé draumur einhverra.
Margir sem kalla eftir aðskilnaði eru meðlimir í Þjóðkirkjunni, starfa jafnvel innan safnaða og styðja starf hennar. Þetta fólk er ekki að reyna að vinna Þjóðkirkjunni mein heldur vill það einungis gæta að jafnrétti í samfélaginu.
Ég tel það vera baráttumál Þjóðkirkjunnar sjálfrar að krefjast raunverulegs frelsis frá ríkinu, raunverulags jafnréttis trúfélaga og að hún ætti að eyða minni tíma í að verja sérstöðu sína.

 

Galatabréfið 5:13
þið voruð kölluð til að vera frjáls. Misnotið ekki frelsið í þágu eigin girnda heldur þjónið hvert öðru í kærleika.

 

Í kærleika
Sindri Geir