Að draga trúarbrögðin til ábyrgðar?

Að eiga skoðanaskipti á netinu getur verið góð skemmtun, uppbyggilegt eða alveg hræðilegt. Það getur sérstaklega reynst erfitt þegar reynt er að ræða við marga á sama þræði um mismunandi sjónarhorn málefnisins því þá verður umræðan gjarnan samhengislaus og leiðir frekar til misskilnings.


Dear Religion,

This week I safely dropped a man from space while you shot a child in the head for wanting to go to school.

I kinda feel like you need a better hobby.
Yours, Science. 

Þetta bréf hefur farið eins og eldur í sinu um netið í dag og birtist svo í newsfeedinu mínu á facebook í dag með kveðjunni lítið bréf til trúarbragða“. Hugsanlega hef ég misst húmorinn við það að hefja nám í guðfræðideild en ég sé ekkert fyndið við þetta, ég sá ekkert rökrétt við framsettninguna og mér þótti þetta ósmekklegt.

Facebook vinurinn sem setti þetta inn, kallaði myndina lítið grín, fyrir mér er þetta grín þá á pari við nauðgana og ofbeldisbrandara. Tökum bara brandarann „hvað er líkt með konum og grasi?“ sem dæmi. Hvorutveggja þarf að slá annaðslagiði. Þarna er djókað með kynbundið ofbeldi og það normaliserað að konur séu barðar, brandarinn hvetur kannski ekki til ofbeldis en leiðir til skeytingarleysis gagnvart þeirri staðreynd að konur eru beittar ofbeldi.
Ef að myndin er ætluð með brandari þá leiðir hún til normaliseringar á því að öll trúarbrögð séu álitin ofbeldisfull, ofstækisfull og samþykk þessari hræðilegu árás í Pakistan. Ef að sá póll er tekinn að hægt sé að láta trúarbrögð sem heild sæta ábyrgð á árásinni á Malala Yousafzai þá þarf það sama að ganga yfir vísindin og þau þar með gerð ábyrg fyrir öllum þeim hræðilegum vísindatilraunum sem unnar hafa verið á mönnum og dýrum í gegnum aldirnar.

Ef að gert er ráð fyrir að myndin ávarpi aðeins Íslam, trúarbrögð talibananna sem skutu Malala, erum við þá eitthvað nær sönnum geranda. Er hægt að segja að Íslam sem heild sé ábyrgt fyrir árásinni? Nei, múslimar um allan heim eru harmi slegnir yfir atburðinum og fordæma ofbeldismennina.

Fólk vinnur slæm verk, ekki trúarbrögð. Fólk vinnur slæm verk í nafni trúarbragða, trúarbrögð eru í sjálfu sér óhæf um að vinna nokkuð verk yfir höfuð. Vísindamenn sem gera hræðilegar tilraunir á mönnum eru ábyrgir fyrir gjörðum sínum, ekki vísindin.

Svona mynd heimskar umræðuna og normaliserar það viðhorf að trúarbrögð séu einhver heild sem er heimskuleg og ill. Röksemdafærsla myndarinnar gengur ekki upp, myndin er ekki fyndin og hún móðgar þau 99% trúaðra sem lifa í friði við náungann og samfélag sitt, eru ekki ofstækisfull, eru ekki samþykk skotárás á 14 ára skólastelpu en þurfa að sitja undir því að vera flokkuð sem slík.

Ábyrgðin á heima hjá brotamanninum, engum öðrum.

 

Í kærleika
Sindri Geir