Hjarta, sál og hugur; hin sanna trú

Í nafni Guðs föður – hins óumræðanlega og eilífa – sem í einingu ríkir með Kristi Jesú fyrir heilagan anda um aldir alda, ég bið þig að blessa þessa stund.

Kæru foreldrar og fermingarbörn, góðu kirkjugestir. Hér erum við saman komin í dag, á sunnudegi eftir kosningar um hvers virði drög að nýrri stjórnarskrá eru í hugum okkar. Stjórnarskrár eru merkilegur hluti af menningarsögu heimsins og í raun sá grundvöllur sem skapar samfellu í lífi mannanna og þróun. Þær hafa þróast með menningu mannsins, burtséð frá því hvort sum samfélög telji sig halda að mestu leyti við guðleg lög og reglur sem ramma um sín samfélög. Við erum í sífellu að leita að sáttmála sem er hafinn yfir tíma rúm og persónur – en hinar fyrstu stjórnarskrár fela það einmitt í sér, að ekki einu sinni sá sterki, sá sem valdið hefur, konungurinn, keisarinn eða annar álíka, getur komið sér undan því að fylgja grundvallarsáttmála samfélagsins. Texta dagsins völdum við í þessu samhengi; þann fyrsta úr 5.mósebók þar sem dregin eru fram aðalatriðin í kringum það að Móse tók á móti “fyrstu lögum” Ísraelsmanna, Annar textinn er síðan brýning Páls til hinnar sömu þjóðar um að það þýðir ekki að fylgja slíkum reglum eða lögum aðeins í orði heldur verður maður að framkvæma í samhengi: Það er hugarfarið sem gildir hvert sem lögmálið er: Páll var sá postulanna sem vann harðast að því að útvíkka það samhengi sem Eingyðistrú gyðinga spratt úr og boða fullnustu trúarbragðanna í boðskap Jesú Krists, í menningu fjölgyðistrúarbragðanna.

Það er þessi munur sem skiptir okkur mestu í hinu veraldlega samhengi þegar við veltum því fyrir okkur hver grundvöllur samfélagsins er. Sá grundvöllur sem sprettur af þeirri hugsun að það sé bara einn Guð en ekki margir felur í sér þá fullvissu að það sé til réttlæti og viska sem er algild, að það sé til Guð sem dæmir og að það sé til Guð sem fyrirgefur, og að hið veraldlega sé allt aðeins hverfull heimur sem sé einskis virði ef hann tileinkar sér ekki þetta réttlæti, ef hann keppir ekki eftir þessari visku. Og réttlæti að mennskum skilningi og viska að mennskum skilningi er réttlæti og viska Guðs, því að Guð elskar sköpun sína og vill okkur vel. Þessvegna tileinkum við okkur hugmyndir sem eru sprottnar úr Eingyðistrúnni, því að í fjölgyðistrúnni er allt jafn hverfult og ekkert eilíft.

Fjölgyðistrúin felur ekki í sér eitthvert eilíft gildi, engann grundvallarramma þó henni fylgi stundum hugmynd um siðferðislegt líf og ábyrgð. Goðin eða guðirnir eru mennskar verur og oftast aðeins birtingarmyndir ákveðinna afla í náttúrunni, þær eru breyskar og í þeim speglum við okkur sjálf. Á meðan eingyðistrúin gerir okkur kleift að horfa á okkur sjálf sem andlegar verur, sálir sem búa í holdi og eru hluti af andardrætti heims og Guðs. Heims sem lýtur ákveðnum reglum, grunngildum, gildum sem byggja á kærleika, trausti, virðingu og frelsi. Örlög okkar eru ekki ráðin, heldur höfum við vilja og við eigum von – og alla þessa bjartsýni getum við tileinkað okkur með sannri trú.

Sönn trú.

Nú þykir okkur kannski öllum erfitt að heyra minnst á hugtak eins og sanna trú. Og það er vissulega alls óljóst og óvíst fyrir hvað það stendur. Í gegnum tíðina er ljóst að fólk hefur deilt mikið um hvað sé sönn trú og hver sé ósönn. Um það snýst rifrildið í gegnum kirkjusöguna, hverjir hafi réttustu kenninguna, hinn rétta skilning, hverjir þóknast Guði á réttari hátt en hinir. Hin sanna kirkja og hinir. Hið rétta atferli við Guðsdýrkunina og fordæmingin yfir þeim sem gera öðruvísi.
Mín tilfinning fyrir þessu öllu saman er sú að góðar manneskjur geta lifað í sannri trú vegna þess að þau lifa eftir hinni sönnu breytni. Páll nefnir þetta í pistli sínum en það sem meiru skiptir er að um þetta fjallar Guðspjallið. Við höfum öll heyrt söguna af miskunnsama Samverjanum milljón sinnum – eða álíka – eins og sagt er. En það skiptir miklu máli hvernig við túlkum þessa sögu; fókuserum við á gullnu regluna eina og sér eða boðskap hennar í heild. Ég las t.d. eina túlkun hennar í síðustu viku í grein eftir mann sem var að ræða stjórnlagaþings-tillögurnar og kosninguna í gær. Þar sagði: Þó að ekki verði kveðið á um þjóðkirkju í nýrri stjórnarskrá þýðir það ekki að íslenskt samfélag hverfi frá kristnum gildum og því fordæmi miskunnsama samverjans að koma fram við náungann eins og við viljum að komið sé fram við okkur. Og þarna er kjarnaatriði kristindómsins varpað fram – sagan er túlkuð útfrá þessari ágætu og almennu “gullnu” reglu; og þegar við segjum tvöfalda kærleiksboðið þá er það því miður oft svo að við meinum þetta eitt; að við eigum að koma fram við aðra eins og við viljum að þeir komi fram við okkur. Tvöfalt… því að í boðinu er kærleikur á milli tveggja aðila; mín (okkar) og náungans (hinna)?

Fyrri hluti sögunnar fjallar um mann sem vill réttlæta sjálfan sig og leggja próf fyrir Jesú, hann vill vita hvort hann svari einhverju öðru en það sem lögmálið segir. Lögmálið felur í sér þetta svokallaða tvöfalda kærleiksboð. Síðan er dæmisagan af samverjanum góða, útlendingi í landinu þar sem samræðan fór fram; sá sem er opinn, víðsýnn og ber virðingu fyrir náunganum, mætir honum í neyð hans með kærleika, það er sá sem þeir eru sammála um að sé hræsnurunum og góðborgurunum fremri, prestinum og lögspekingnum sem eru fastir í fornum kreddum… og síðari hlutinn fjallar um þetta boð Krists; far þú og gjör hið sama. Eigum við ekki að spyrja aðeins nánar og ítarlegar; hvaða sama er það sem við eigum að gera? Presturinn hélt fast við lögmál sitt og lög sem honum voru sett, hann vildi ekki óhreinka sig, Guð hans hafði boðið honum þetta. Lögvitringurinn lifði í menningu sem var mótuð af þessum sama presti, sömu guðsdýrkuninni og hinum sama lokaða og fordæmandi Guði. Samverjinn aftur á móti – en þess má geta að þeir dýrkuðu sama Guð, Jahve, og voru af sama kynstofni en einskorðuðu sig ekki við regluverk musterisins – hann hafði opna og kærleiksríka Guðsmynd. Hann fylgdi tvöfalda kærleiksboðorðinu sem er tvöfalt því það snýr annarsvegar að Guði og síðan að okkur sjálfum, manneskjunum. Elska skalt þú Drottinn Guð þinn af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti, af öllum huga þínum… Þ.e.a.s. þú átt að vera heill í sjálfum þeir í heillri og sannri trú – og með því að vera heill sýnir þú sjálfum þér fyrst sanna virðingu, eða elsku – og síðan átt þú að elska náungann á sama hátt. Þetta er hin nýja túlkun Jesú. Hin útvíkkaða mynd – hún er þessi: Hver er náungi þinn? Er það bara sá sem trúir eins og þú… eða er hann hver sá sem er skapaður af sama Guði, hefur hann sömu þrár og vonir, sömu möguleika? Elskar Guð hann kannski eins og þig – og átt þú þá ekki að deila þeim sama kærleika með þessum manneskjum; sérstaklega þeim sem gætu þurft á þér að halda? Þetta eru varnaðarorð gegn hræsni og útilokun.
Þetta er hvatning til að lifa opnu lífi, frjálsu kærleiksríku lífi, fullu af möguleikum fyrir alla. Við eigum ekki að takmarka okkur í þeim efnum. Og við eigum að endurskapa gildin okkar í takt við hina nýju möguleika, á hverjum tíma.

Fyrir mörgum sem tala um nauðsyn nýrrar stjórnarskrár vakir að möguleikar allra séu jafnir að því leyti sem því verður við komið. Sá sem er dæmdur til að sitja hjá í samfélaginu t.d. í fangelsi vegna lögbrots á samt að hafa sín réttindi þar. Sá sem er öðruvísi en hinir á ekki að líða fyrir sérstöðu sína. Þetta er allt í takt við nútíma hugsun um mannréttindi, sem er ávöxtur merkilegs ferlis sem hófst með Upplýsingunni, hér í Norður-Evrópu með siðskiptunum og nýju fyrirkomulagi á samskiptum ríkis og kirkju. Á 19.öldinni varð trúfrelsi almennt viðmið, og þess njótum við t.a.m. í dag þó við tilheyrum enn evangélískt lútersku samfélagi við trúariðkun okkar. En við verðum að hafa varann á þegar þeir sem herskáastir eru í að veraldarvæða samfélagið okkar með “nýjum grunngildum” vilja að öll trú sé á sviði einkalífsins og megi ekki vera sýnileg í hinu opinbera rými. Þeir sem eru trúaðir verða að njóta sinna mannréttinda líka, og fá að iðka trú sína í friði. Við getum verið mótfallin hinu og þessu í túlkun annarra, við getum verið ósammála kennisetningum múslíma eða orthodoxra og kaþólskra um samkynhneigða, til að nefna dæmi, en það er kannski hættulegt að láta þau sjónarmið skerða almennan rétt fólks til að ganga með kross um hálsinn, eða í búrkum, í opinberum störfum.

Fjölbreytileikinn er svar við hinni kristilegu kröfu um að allir njóti mannvirðingar, hvort sem þeir eru í neyð við vegarkantinn eins og í dæmisögu Jesú, eða ef þeir hafa verið aldir upp í menningu og við siði sem við kunnum ekki að meta. Af frelsinu höfum við nóg nú þegar, þó við lifum við gamla stjórnarskrá frá kristnum kóngi, við höfðum frelsi í lögunum til að fara með allt hér í farveg sem bar enga virðingu fyrir manneskjum, heldur bara peningunum þeirra. Við höfum val og möguleika til að móta og eflast með heilbrigða sjálfsmynd, að lifa í samræmi við okkar eigin heilögu grunngildi sem koma lögum og stjórnarskrá ekkert við – í sjálfu sér. Það stendur ekkert í stjórnarskrá um að bera virðingu fyrir foreldrum okkar eða að það sé bannað að ljúga. Það stendur ekkert um að við eigum að hafa einn Guð eða trúa á réttlætið. Og það stendur ekkert um að við eigum ekki að dæma aðra, því að þannig dæmum við okkur sjálf. Og það stendur ekkert um að við ættum að njóta sannmælis í samskiptum við aðra. En samt reynum við að fylgja þessum gildum í einkalífinu.
Við viljum lifa eftir góðum gildum til að vera opnar og góðar manneskjur, við viljum lifa í opnu og réttlátu þjóðfélagi og við viljum að fyrir okkur sé borin virðing. Og Guð blessar þá þrá okkar.

Hvað þýðir þetta á unglingamáli?

Þýðir þetta kannski að við viljum að fólk hafi tíma fyrir okkur og spurningarnar okkar?
Þýðir þetta að unglingar vilja fá að taka ábyrgð á því sem eru þeirra eigin skoðanir?
Þýðir það að unglingarnir geta haft aðrar hugmyndir um réttlætið, um manngildið, um Jesú?

Hvað er þetta – sem við spyrjum um í fermingunni – að gera Jesú að leiðtoga lífs síns?
Þýðir það að við ætlum að hlýða boðinu sem dæmisagan felur í sér: að fara og gera hið sama?
Og hvernig hefur sagan breyst og hvernig getum við endursagt hana í nútímasamhengi?

Svörin við öllum þessum spurningum byggja á skilningi okkar. Hvernig við skiljum og hvernig við erum skilin. Við þurfum skilning og virðingu til að kunna að skilja og virða aðra. Við þurfum að þroska með okkur hæfileikann til að setja okkur í annarra spor, eins og Samverjinn í dæmisögunni.
Reyndu að setja þig í annarra spor – segir sagan okkur. Jafnvel þó þið talið ekki sama tungumálið, prófaðu þá að þegja með þeim sem þú skilur ekki. Og heyr, eruði þá ekki í sömu þögn?

Við þurfum að upplifa frelsi leik og áhyggjuleysi til að geta tengst öðrum vináttuböndum. Rétt eins og börn sem hittast og reyna ná sameiginlegum grundvelli í leik. Við viljum vera eins og börnin sem hlusta og meta aðstæður af einlægni og miðla því sem þau hafa að gefa. Hugsa börn bara um að koma sínu á framfæri? Eða leita þau í raun og veru sjálfkrafa einhvers jafnvægis?
Við verðum að þekkja rætur og ástæður ákvarðanna okkar þegar við verðum fullorðin, og bera ábyrgð á vali okkar. Það val byggir ekki bara á eðlisávísun heldur menningunni og uppeldinu, hvernig við erum nestuð af kærleika og hæfileikum til að bera virðingu fyrir öðrum. Það er blessun – vona ég – í okkar lífum að njóta samfélags friðar og upplifa hreina náttúru og menningu fjölbreytileika án gríðarlegra öfga stéttaskiptingar. Við erum heppin þjóð í gjöfulu landi. Og við skulum vera þakklát fyrir það.
Við skulum sýna þakklæti okkar í verki með því að reyna gera þjóðfélagið sífellt betra fyrir alla.
Eins og miskunnsami Samverjinn, sem elskaði Drottinn Guð sinn af öllu hjarta sínu, með allri sálu sinni af öllum mætti sínum og af öllum huga sínum – og náungann eins og sjálfan sig.
Friður Drottins sé með okkur öllum, í Jesú nafni. Amen.

Arnaldur Máni Finnsson
Flutt í Fríkirkjunni, 21. október 2012