Vísindaferð Fisksins í Kvennaathvarfið

Fimmtudaginn 20.sept var fyrsta vísindaferð haustsins. Fiskurinn hélt þá í Kvennathvarfið þar sem 14 nemendur mættu á svæðið til að hlusta á það sem Sigþrúður Guðmundsdóttir fræðslu- og framkvæmdastýra hafði að segja okkur um starfsemi athvarfsins. Í ljós kom að 20% kvenna þjóðarinnar hafa leitað til þeirra en það er þó aðeins brot þeirra kvenna sem verða fyrir ofbeldi árlega miðað við tölfræðina.

Hér gefur að líta nokkrar staðreyndir um starfsemi Kvennaathvarfsins;

Það var stofnað 1982 og fengu húsnæði 6 mánuðum síðar. Strax fyrsta kvöldið mætti ein kona með barn sitt. Í upphafi var það almenningsálit að starfsemi Kvennaathvafsins myndi fljótt leggjast niður þar sem líklega væri ekki mikil þörf á því. Annað hefur komið í ljós og er húsnæðið þeirra alltof lítið í dag. Samtökin hafa stækkað við sig nokkrum sinnum á þessum 30 árum og hafa þau alltaf sprengt af sér húsnæði. Í núverandi húsnæði er svefnpláss fyrir 24 einstaklinga en engum er vísað frá svo að stundum er þröngt á þingi. Kvennaathvarfið rekur hjálparsíma og ráðgjöf allan sólarhringinn og hjá þeim er alltaf einhver á vaktinni. Um 3400 konur og 2800 börn hafa leitað til kvennaathvarfsins á sl. 30 árum – allt frá aldrinum 16 ára og upp í 78 ára. Það eru ekki bara eiginkonur sem koma, heldur líka konur sem eru beittar ofbeldi af hendi foreldra eða barna sinna. Hér er um að ræða bæði andlegt og líkamlegt ofbeldi og ristir hið andlega ofbeldi oft mun dýpra því þau sár sjást ekki og taka lengri tíma til að gróa.

Hvorki eru til ákveðnar steríótýpur af ofbeldismönnum né þolendum. Þetta getur gerst á öllum stigum þjóðfélagsins, í öllum aldurshópum og þarf áfengi eða vímuefnaneysla ekki að vera tengt ofbeldinu. Sumir ofbeldismenn vilja leita sér hjálpar á meðan aðrir eru hjálparlausir – Til er meðferðarúrræði fyrir karla er nefnist Karlar til ábyrgðar en þar vinna sálfræðingar með ofbeldimönnum sem hafa vilja til að breyta hegðun sinni.

Um 50% kvennana eru af erlendum uppruna og má leiða líkur að því að þeirra hlutfall sé svo hátt því að þær eigi færri aðstandendur hérlendis og því minna tengslanet sem hægt er að leita til. Ættingjar og vinir hringja stundum inn til að kanna hvernig þau geta hjálpað aðstandendum sem eru í ofbeldisfullu sambandi en af einhverjum aðstæðum yfirgefa ekki ofbeldismann sinn. Fyrir því geta verið ýmsar ástæður; búið að hóta þeim lífláti, að þær geti ekki reitt sig af án ofbeldismannsins, að þær munu ekki fá að sjá börn sín framar o.s.frv. Sem sagt hvers kyns kúgun og niðurlæging. Það þarf mikið hugrekki og viljastyrk fyrir þessar konur að leita sér hjálpar og því mikil þörf á starfsemi Kvennaathvarfsins.

Kvennaathvarfið fær um 50% af sínu fjárframlagi frá Ríkinu, annað kemur í formi styrkja frá félagasamtökum, fyrirtækjum og einstaklingum.

Þessi ferð tók um eina og hálfa klst og eftir þessa afar fróðlega og áhugaverða heimsókn gerði stór hluti hópsins sér ferð á eitt af elstu öldurhúsum borgarinnar, þar sem sest var að snæðingi og lífsins hlutir ræddir fram eftir kveldi.

Anna Katrín Guðmundsdóttir