Lög Fisksins

 

Lög ΙΧΘΥΣ

Lög félagsins
með breytingum frá 27. mars 2012

INNGANGUR
1. grein: Nafn, aðsetur og tilgangur

1.1 Félagið heitir Félag guðfræði- og trúarbragðafræðinema.
1.2 Aðsetur og varnarþing félagsins er í Háskóla Íslands.
1.3 Félagar eru þeir sem stunda nám við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands.
1.4 Tilgangur félagsins er að auka kynni og samheldni stúdenta í guðfræði- og trúarbragðafræðideild vegna sameiginlegra hagsmuna og áhugamála þeirra. Liðir í starfi félagsins skulu vera að halda umræðufundi þar sem stúdentum gefst kostur á að ræða guðfræði- og trúarbragðafræðileg efni og skiptast á skoðunum, gangast fyrir helgihaldi og stuðla þannig að aukinni trúrækni háskólastúdenta. Félagið skal gæta í hvívetna hagsmuna innritaðra stúdenta í guðfræði- og trúarbragðafræðideild. Félagið gengst fyrir útgáfu tímaritsins Orðsins og annarri útgáfustarfsemi. [Sjá nánar sérstök lög um Orðið.]

 

STJÓRN FÉLAGS GUÐFRÆÐI- OG TRÚARBRAGÐAFRÆÐINEMA
2. grein: Skipan og verksvið
2.1 Í stjórn Félags guðfræði- og trúarbragðafræðinema sitja fimm einstaklingar: Formaður, ritari, gjaldkeri og tveir meðstjórnendur. Meðstjórnendur eru formaður kirkju- og kapellunefndar og formaður fundanefndar.
2.2 Gangi stjórnarmaður úr stjórn skal nýr kosinn í hans stað á almennum félagsfundi. Skal sá fundur haldinn innan tveggja vikna frá því að stjórnarmaður lætur af störfum og auglýstur á áberandi stað í húsakynnum deildarinnar með að minnsta kosti einnar viku fyrirvara. Nú liggur skólahald niðri af einhverjum ástæðum og skal þá almennur félagsfundur haldinn innan tveggja vikna frá því að skólahald hefst að nýju.
2.3 Láti aðrir embættismenn af störfum skipar stjórn nýja í þeirra stað. Hið sama gildir um slík embætti sem ekki tekst að manna á aðalfundi. Stjórnin skal gefa stúdentum kost á að sækja um slík embætti og veita til þess hæfilegan frest.
2.4 Stjórnin tekur til umræðu og afgreiðslu öll mál sem koma til kasta félagsins og felur viðeigandi nefndum framkvæmd þeirra. Stjórn skipuleggur starf félagsins í grófum dráttum og hefur yfirumsjón með framkvæmd stærri atburða á vegum félagsins, svo sem árshátíðar og messu 1. desember. Auk þess skal hún standa fyrir kynningarfundi í byrjun haustmisseris og á aðalfundi að vori.
2.5 Stjórnin skal gæta þess að starfsemi félagsins fari jafnan fram í húsakynnum þess eða deildarinnar og ber hún ábyrgð á að gögn sín séu varðveitt og afhent næstu stjórn þegar hún tekur við.
2.6 Stjórnin skal sjá um skipulagningu og framkvæmd allra ferðalaga félagsins og skal tekið mið af óskum meirihluta félagsmanna um áfangastað eins og frekast er kostur.
2.7 Stjórn félagsins ákveður ársgjald félagsins og annast innheimtu þess. Jafnframt skal hún sjá um styrkumsóknir á hverju ári til starfsemi félagsins.

3. grein: Stjórnarfundir
3.1 Stjórnarfundi skal halda eins oft og þykja þarf. Fundurinn er löglegur ef að minnsta kosti þrír stjórnarmenn sækja hann. Stjórn er heimilt að kalla á fundinn fólk utan stjórnar sér til ráðuneytis, til dæmis fulltrúa nefnda félagsins.
3.2 Formaður boðar til stjórnarfunda og stýrir þeim. Fari að minnsta kosti tveir stjórnarmenn fram á að fundur skuli haldinn í stjórn ber formanni að halda slíkan fund án tafar.

3.3 Á stjórnarfundi skulu erindi til félagsins tekin fyrir og afgreidd og starfsemi félagsins skipulögð.

4. grein: Formaður
4.1 Formaður Félags guðfræði- og trúarbragðafræðinema kemur fram fyrir guðfræði- og trúarbragðafræðinema og hann er málsvari félagsins út á við. Hann boðar til og stýrir stjórnarfundum, almennum félagsfundum og aðalfundi.
4.2 Formaður félagsins skal sitja deildarfundi guðfræði- og trúarbragðafræðideildar. Þar skal hann jafnan hafa hag guðfræði- og trúarbragðafræðinema að leiðarljósi. Að öðru leyti skal hann fylgja sinni sannfæringu.
4.3 Lýsi að minnsta kosti fjórðungur félagsmanna Félags guðfræði- og trúarbragðafræðinema vantrausti á formann þess, skal skrifleg atkvæðagreiðsla um vantraustsyfirlýsinguna fara fram innan tveggja vikna frá því að hún berst skriflega stjórn félagsins. Skal atkvæðagreiðslan eigi vera í umsjá formanns. Greiði meirihluti félagsmanna vantraustinu atkvæði skal formaður víkja úr embætti og kosið til þess að nýju, eins og grein 2.2 kveður á um.

5. grein: Ritari
5.1 Ritari Félags guðfræði- og trúarbragðafræðinema er jafnframt varaformaður þess.
5.2 Ritari skráir fundargerðir stjórnarfunda og kemur á framfæri fréttum af starfsemi félagsins. Hann skal annast gögn félagsins og sjá um að fundagerðarbók sé haldin, þar sem færðar skulu inn allar fundargerðir og skýrslur félagsins. Ritari skal einnig gæta þess að skráð séu öll bréf og tölvupóstur sem stjórnin sendir. Ritari sér um að koma öllum gögnum áfram til næstu stjórnar.
5.3 Í forföllum ritara skal gjaldkeri annast hlutverk hans.

6. grein: Gjaldkeri
6.1 Gjaldkeri Félags guðfræði- og trúarbragðafræðinema sér um fjárreiður og félagatal þess. Hann er jafnframt varaformaður félagsins í forföllum ritara.
6.2 Gjaldkeri heldur dagbók um tekjur félagsins og gjöld þess og hefur umsjón um bankareikning þess. Á aðalfundi félagsins skal gjaldkeri birta endurskoðaða reikninga félagsins.
6.3 Gjaldkeri skal hafa yfirumsjón með öflun félaga í Félag guðfræði- og trúarbragðafræðinema og innheimta félagsgjöld í samvinnu við aðra stjórnarmeðlimi. Hann skal gangast fyrir útgáfu félagsskírteina.

 

NEFNDIR
7. grein: Fundanefnd
7.1 Í fundanefnd eiga sæti tveir fulltrúar: formaður og meðstjórnandi.
7.2 Fundanefnd stendur fyrir málfundum af ýmsu tagi, svo sem hádegisfundum, almennum málfundum og samdrykkjum. Fundanefnd skal að minnsta kosti halda þrjá fundi á hvoru misseri. Nefndin skal ákveða fundarefni og auglýsa fundi með góðum fyrirvara. Hún skal útvega framsögumann ef þurfa þykir, svo og fundarstjóra.

7.3 Auk þess skal formaður fundanefndar gegna hlutverki fulltrúa stjórnar í ritstjórn Orðsins.
8. grein: Kirkju- og kapellunefnd
8.1 Í kirkju- og kapellunefnd eiga sæti fjórir fulltrúar: formaður og þrír meðstjórnendur.
8.2 Kirkju- og kapellunefnd hefur umsjón með helgihaldi í kapellu Háskóla Íslands, þ.á.m. vikulegri messu á meðan á kennslu stendur. Ber nefndinni að útvega prest til að annast messurnar og aðra til að koma að helgihaldinu, leika eða lærða.
8.3 Hinn 1. desember ár hvert skal kirkju- og kapellunefnd, í samvinnu við stjórn Félags guðfræðinema, gangast fyrir messu í kapellu Háskóla Íslands.
8.4 Kirkju- og kapellunefnd annast fjölritun og samningu allra messuskráa sem deildin stendur fyrir og sér um að auglýsa þær innan háskólans. Hún útvegar prédikara eftir þörfum og er tengiliður guðfræðideildar og kristinna safnaða.
8.5 Kirkju- og kapellunefnd skal standa vörð um kapelluna sem Guðs hús. Nefndin skal eftir bestu getu sjá til þess að kapellan og munir hennar séu umgengnir með tilhlýðilegri virðingu.
9. grein: Skemmtinefnd
9.1 Í skemmtinefnd eiga sæti þrír fulltrúar sem kosnir eru á aðalfundi félagsins ár hvert, skipta þeir með sér verkum innan nefndar að aðalfundi loknum.
9.2 Skemmtinefnd stendur fyrir skipulagningu á almennum gleðskap, karla- og kvennakvöldi sem og árshátíð Félags guðfræði- og trúarbragðafræðinema. Nefndin skal ákveða stað- og tímasetningu karla- og kvennakvölds sem og árshátíðar í samráði við stjórn félagsins. Ennfremur sér nefndin um miðasölu fyrir bæði kvöldin.

9.3 Allar áætlanir skemmtinefndar skulu bornar undir stjórn til samþykktar.

10. grein: Ritnefnd Orðsins

10.1 Í ritnefnd eiga sæti þrír fulltrúar: ritstjóri Orðsins, formaður fundanefndar, og vefstjóri.

10.2 Ritnefnd skal sjá um efnisval, umsjón og útgáfu Orðsins. (sbr. lög Orðsins)

 

 

EMBÆTTISMENN
11. grein
11.1 Þrír fulltrúar eiga sæti á deildarfundi guðfræði- og trúarbragðafræðideildar. Þrír fulltrúar eru til vara.
11.2 Formaður situr sjálfkrafa sem fulltrúi á deildarfundi. Tveir fulltrúar nemenda á deildarfundi eru kosnir til eins árs.

11.3 Framboðin eru óaðgreind og teljast þeir tveir sem flest atkvæði hljóta aðalfulltrúar en þeir þrír sem næstir koma varafulltrúar.
11.4 Fulltrúar nemenda á deildarfundi skulu þar jafnan hafa hag guðfræði- og trúarbragðafræðinema að leiðarljósi. Að öðru leyti fylgi þeir sinni sannfæringu.

11.5 Fulltrúar nemenda á deildarfundi skulu eftir bestu getu gera nemendum guðfræði- og trúarbragðafræðideildar grein fyrir starfi sínu með reglulegum fréttaskotum.

12. grein: Nemendaráðgjafar
12.1 Nemendaráðgjafar eru tveir, en leitast skal við að það séu karl og kona. Þeir eru jafnframt trúnaðarmenn.
12.2 Nemendaráðgjafar eru kosnir til eins árs.
12.3 Hlutverk nemendaráðgjafa er að hafa yfirsýn yfir starfshætti og uppbyggingu greinarinnar. Þeir veita ráðgjöf samnemendum sínum, ekki síst þeim sem styttra eru komnir, við skipulagningu náms síns og annars sem viðkemur námi í deildinni.
12.4 Nemendaráðgjafar skulu sjá til þess að samnemum þeirra veitist auðvelt að ná sambandi við þá með ráðgjöf í huga, t.d. með föstum viðtalstíma í húsakynnum deildarinnar.
13. grein: Endurskoðendur
13.1 Endurskoðendur Félags guðfræði- og trúarbragðafræðinema eru tveir.
13.2 Endurskoðendur eru kosnir á aðalfundi Félags guðfræði- og trúarbragðafræðinema. Þeir skulu yfirfara bókhald og aðrar fjárreiður félagsins fyrir næsta aðalfund, gæta þess að það sé rétt fært og veita því áritun og umsögn. Einnig skulu þeir yfirfara bókhald kaffistofustjóra. Hvorki gjaldkeri Félags guðfræði- og trúarbragðafræðinema né kaffistofustjóri skulu gegna stöðum endurskoðenda.
14. grein: Íþróttafulltrúi
14.1 Íþróttafulltrúi sér um skipulagningu og framkvæmd alls sem lýtur að íþróttastarfi á vegum Félags guðfræði- og trúarbragðafræðinema. Hann skal leitast við að efla áhuga guðfræðinema á íþróttum og útivist. Hann skal kynna nemendum þá íþróttastarfsemi sem í boði er í Háskóla Íslands.
15. grein: Umsjónarmaður Íslandskorts
15.1 Umsjónarmaður Íslandskorts hefur umsjón með korti sem hangir uppi á kaffistofu guðfræði- og trúarbragðafræðinema. Hann annast uppfærslu þess og heldur því snyrtilegu. Á Íslandskortinu skulu prestaköll landsins auðkennd á áberandi hátt með þar til gerðum flöggum og aðgreind eftir því hvort þar sitji prestur eða þau séu laus til umsóknar.
15.2 Umsjónarmaður Íslandskorts skal hafa tiltæka skrá um prestaköll landsins þar sem fram koma nöfn presta, fæðingarár þeirra og hlunnindi þau sem fylgja prestakallinu, séu þau einhver.
16. grein: Kaffistofustjóri
16.1 Hlutverk kaffistofustjóra er að sjá um að ávallt sé til kaffi og te á kaffistofu guðfræði- og trúarbragðafræðinema. Hann hefur jafnframt yfirumsjón með kaffistofunni og þeim tækjum sem þar eru.
16.2 Hann varðveitir og kaffisjóð. Að hausti skal hann ákveða árgjald í sjóðinn og verð á stökum kaffi- eða tebollum. Hann veitir ársgjöldum í sjóðinn viðtöku og skal gæta þess ennfremur að þeir einir fái kaffi eða te sem fyrir það hafa greitt. Í því skyni skal hann sjá um að listi sé tiltækur á kaffistofu með áskrifendum.
16.3 Honum er heimilt að fjármagna rekstur kaffistofu með öðrum hætti en aðeins kaffisölu.
16.4 Hann skal færa bókhald og gera grein fyrir því fyrir kosnum endurskoðendum félagsins sem síðan staðfesta á aðalfundi að það sé rétt fært. Á aðalfundi skal kaffistofustjóri gera grein fyrir stöðu sjóðsins. Sé afgangur af tekjum sjóðsins í lok skólaársins er honum heimilt að kaupa veitingar af einhverju tagi fyrir hann enda sé þeim sem greitt hafa í sjóðinn gefinn kostur á að gæða sér á þeim.
17. grein: Vefstjóri
17.1 Vefstjóri skal kosinn hvert ár.
17.2 Vefstjóri sér um heimasíðu og facebooksíðu Félags guðfræði- og trúarbragðafræðinema og ber jafnframt ábyrgð á henni. Hann skal uppfæra síðuna reglulega í samráði við stjórn Félags guðfræði- og trúarbragðafræðinema. Vefstjóra er heimilt að fá sér til aðstoðar einn eða fleiri vefara.

17.3 Vefstjóri skal einnig sitja í ritnefnd Orðsins (sbr. lög Orðsins) og sjá um rafræna hlið útgáfu þess.

 

AÐALFUNDUR OG KOSNINGAR
18. grein: Aðalfundur
18.1 Aðalfundur skal haldinn ár hvert í síðari hluta marsmánaðar eða fyrri hluta aprílmánaðar og er hann löglegur ef minnst þriðjungur félagsmanna, sem greitt hafa árgjald félagsins, situr fundinn og sé til hans löglega boðað. Til aðalfundar skal boðað með auglýsingu í húsakynnum deildarinnar með minnst tveggja vikna fyrirvara. Nú er aðalfundur ekki löglegur vegna ónógrar fundarsóknar og skal þá boðað til hans aftur með að minnsta kosti þriggja daga fyrirvara og er hann þá löglegur án tillits til fundarsóknar.
18.2 Dagskrá aðalfundar er eftirfarandi: 1. Formaður, sem jafnframt er fundarstjóri, setur fundinn. 2. Skýrsla fráfarandi stjórnar lesin. 3. Skýrsla fundanefndar og kirkju- og kapellunefndar lesnar. 4. Endurskoðaðir reikningar fráfarandi stjórnar lagðir fram til umræðu og bornir undir atkvæði. 5. Tillögur til lagabreytinga ræddar ef einhverjar eru og atkvæði um þær greidd. 6. Kosningar embættismanna. 7. Önnur mál.
19. grein: Kosningar
19.1 Embættismenn Félags guðfræði- og trúarbragðafræðinema eru kosnir á aðalfundi þess. Atkvæðisrétt hafa og kjörgengi einungis félagar í Félagi guðfræði- og trúarbragðafræðinema sem greitt hafa árgjald félagsins. Þó hafa allir innritaðir stúdentar í guðfræði- og trúarbragðafræðideild atkvæðisrétt og kjörgengi í embætti fulltrúa á deildarfundi og nemendaráðgjafa.
19.2 Í aðalfundarboði skal tilgreint hvaða embætti kosið verður um. Þegar kosning hefst í hverju embætti fyrir sig rennur framboðsfrestur út í því embætti. Heimilt er að stinga upp á frambjóðanda í embætti sé viðkomandi staddur á aðalfundi. Nú er frambjóðanda ekki unnt að sækja aðalfund og er honum þá heimilt að bjóða sig fram enda hafi stjórn félagsins verið afhent skriflegt framboð fyrir fundinn.
19.3 Á aðalfundi Félags guðfræði- og trúarbragðafræðinema skulu hvert ár eftirfarandi kosnir í eftirfarandi röð: 1. Formaður Félags guðfræði- og trúarbragðafræðinema. 2. Ritari. 3. Gjaldkeri. 4. Formaður fundanefndar. 5. Formaður kirkju- og kapellunefndar. 6. Fulltrúi í fundanefnd. 7. Þrír fulltrúar í kirkju- og kapellunefnd. 8. Tvo fulltrúa á deildarfundi og þrjá til vara (sbr. 11.2.).  9. Tveir nemendaráðgjafar (sbr. 13.2.). 11. Tveir endurskoðendur. 12. Íþróttafulltrúi. 13. Umsjónarmaður Íslandskorts. 14. Kaffistofustjóri. 15. Vefstjóri.

19.4 Frambjóðendum skal heimilað að kynna sig og gera grein fyrir stefnumálum sínum. Þó er allur áróður bannaður á meðan kosning stendur yfir.
19.5 Ritari Félags guðfræði- og trúarbragðafræðinema dreifir kjörseðlum og skal hann einnig telja atkvæðin og greina frá úrslitum. Nú er ritari sjálfur í framboði og skal þá gjaldkeri annast framkvæmd kosningar.
19.6 Á kjörseðli skal einungis rita nafn eins frambjóðanda. Heimilt er að skila auðum seðli.
19.7 Kosning embættismanna á aðalfundi skal vera óhlutbundin og leynileg. Nú eru atkvæði jöfn við kosningu. Skal þá þegar kosið að nýju og eru þá aðeins þeir sem voru jafnir í framboði. Séu atkvæði enn jöfn skal hlutkesti ráða. Sé aðeins einn í kjöri er hann sjálfkjörinn og ekki þarf að kjósa leynilega. Þó skal ávallt fara fram leynileg kosning um embætti formanns, óháð því hve margir eru í framboði.
19.8 Nýkjörnir embættismenn skulu taka við embættum sínum þegar að aðalfundi loknum. Þó taka fulltrúar á deildarfundi og nemendaráðgjafar ekki við sínum embættum fyrr en í upphafi næsta skólaárs.

GILDISSVIÐ
20. grein: Gildi laganna
20.1 Breytingar á þessum lögum verða að vera gerðar á aðalfundi Félags guðfræði- og trúarbragðafræðinema og þarf 2/3 hluta atkvæða til að samþykkja tillögur um lagabreytingar. Breytingartillögur skulu hafa borist stjórn félagsins skriflega fimm dögum fyrir aðalfund. Tillögurnar skulu liggja frammi á kaffistofu að minnsta kosti þremur sólarhringum fyrir aðalfund.
20.2 Lög þessi öðlast þegar gildi.