Stutt ágrip af sögu Orðsins

Orðið kom fyrst út árið 1965 og fyrsti ritstjóri þess var Heimir Steinsson. Tilgangur ritsins var að vera vettvangur akademískrar umræðu um guðfræðileg málefni, en á þeim tíma var ekkert tímarit sem hafði slíkt að meginmarkmiði. Þannig má segja að Orðið sé elsta akademíska guðfræðiritið hér á landi. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og útgáfa Orðsins gengið upp og niður. Frá upphafi hefur Orðið verið vettvangur þar sem kennarar, nemendur og aðrir hafa mæst. Margar góðar greinar sem þar hafa birst eiga rætur sínar að rekja til ritgerða sem samdar hafa verið í námskeiðum við deildina. Þá hafa kennarar deildarinnar hverju sinni verið ötulir við að láta gamminn geisa á þessum vettvangi — en misötulir þó.

Upphaflega var ætlunin að ritið kæmi út tvisvar á ári, haust og vor. Þetta fyrirkomulag hélst ekki lengi. Samkvæmt hefð og fornum sið hélst það þó alllengi að merkja Orðið með 1. tbl., þó að 2. tbl. fylgdi ekki á eftir.

Margt hefur gengið á í tæplega 50 ára sögu Orðsins. Árgangar hafa fallið úr og aðrir látið bíða eftir sér. Orðið hefur gengið í gegnum margar útlitsbreytingar í gegnum tíðina og má segja að fátt hafi verið mönnum heilagt í þeim efnum. Framan af var stöðluð mynd á útliti Orðsins, en síðar komu árgangar með breyttu útliti. Af einhverjum ástæðum var aftur horfið til fortíðar og eru t.d. 22. og 24. árgangar í stíl við fyrstu árgangana. Miklar breytingar voru gerðar með 27. árgangi Orðsins, hinu svokallaða „rauða Orði“. Fram að því hafði Orðið verið gefið út í blaðaformi en nú var stigið það afdrifaríka skref að gefa ritið út á kiljuformi. Brotið minnkaði og blaðsíðum fjölgaði að sama skapi. Með þessu var reynt að tjá það að Orðið væri fyrst og fremst akademískt guðfræðirit og var það undirstrikað með undirtitli ritsins sem þetta árið var „Rit um guðfræði“ í stað hins óformlega „Rit Félags guðfræðinema“. Útlitsbreytingin hélt sér en undirtitillinn ekki og síðustu árin hefur átt sér stað fágun á útliti og uppsetningu Orðsins sem segja má að hafi náð vissu jafnvægi með 34. árgangi. Á aðalfundi Félags guðfræðinema í mars 1999 var bundið í lög Orðsins að útlit þess árgangs skyldi haldast óbreytt næstu árin og má segja að með því hafi verið stigið stórt skref í áttina til þess að festa Orðið enn frekar í sessi sem alvarlegt guðfræðitímarit og rödd sem heyrist og tekið er mark á í íslenskri guðfræðiumræðu.

Eftir nokkura ára útgáfu hlé vakti Arnaldur Máni Finnsson ritið upp frá dauðum árið 2011 og ritstýrði tvem árgöngum Orðsins.