Um vefritið

Vefrit Orðsins fór í loftið veturinn 2009-2010 með það fyrir augum að auka virkni nemenda guðfræði-og trúarbragðafræðideildar Háskóla Íslands við skrif á vettvangi félagsins og akademíunnar.  Meginmarkmið hennar er að beina ljósi að líðandi stund – fjalla um menningu, listir, bókmenntir og mannlíf, um fagurfræði-og stundum líka siðfræði, útfrá guðfræði og trúfræði; í stuttu máli – um allt af sjónarhóli námsins sem hér er stundað.

Því miður varð tilraunin endaslepp þrátt fyrir ágætan stuðning einstaka prófessors – en fleiri en ritnefnd Orðsins verða að leggja hönd á plóg til að virkja nemendur á þessum grundvelli, að hvetja nemendur til að láta rödd sína heyrast.  Sérfræðiárátta akademíunnar á þar vafalaust hlut að, hversvegna nemendur treysta sér ekki fram á þetta sjónarsvið.  Það sé “of opinbert” – að við séum berskjölduð fyrir gagnrýni, eða einfaldlega þolum hana ekki.  Síðan eru bara allir á facebook daginn út og inn að mala og bylur þar í.  Eins íhaldsöm og forpokuð og við vildum annars vera höfum við því endurræst ritið á vormánuðum ársins 2012 til að taka þátt í kirkjumenningunni, lifandi umræðu og dynamiskum samskiptum, og höfum þar af leiðandi bætt við félagslegri tengingu við facebook.  Það er víst ekki fyrr en þá sem rafrænt rit kallast vefrit.  Og komiði ávalt fagnandi hingað og veriði blessuð.  Í Guðs friði – ritnefndin.